31.12.2009 | 18:22
2009...
.."þú veist að þetta verður töff ár hjá
þjóðinni" þrumaði konan og hló
stórkarlalega.
Húsfreyja sat í byrjun árs 2009,
hjá konu einni með mikla hæfileika, stóra rödd
og enn stærri hlátur.
Jú, húsfreyja gat sosum samsinnt því, enda
bankahrun í algleymingi.
"Já, hélt sú vísa áfram, það er talan 11,
sem þvælist fyrir fólki".
"Nú"?, húsfreyja kom af fjöllum.
"Sjáðu til vinkona", sú með stóru röddina iðaði í skinninu
af fróðleik, 2+0+0+9 gerir jú 11, og þeir sem
ekki hafa unnið baki brotnu að því að talan
11 verði þeim sem jákvæðust, lenda í í djúpum skít"!
"Er svona komið að skuldadögum hjá mörgum", konan
glotti.
"Jeminn" hugsaði húsfreyja.
Ekki hafði hún pælt neitt í því að talan 11 gæti komið
aftan að henni, með skuldadaga og djúpan skít.
Því síður kunnað að vinna baki brotni til að snúa
áhrifum ellefunnar sér í hag.
Bara unnið sín störf eins samviskusamlega og henni
var unnt, sinnt uppeldi dóttur og stússað fyrir bónda
og stórfjölskylduna....og notið lífsins í leiðinni.
"Djísuss, er þetta þá bara allt dauði og djöfull hjá mér
í ár" spurði hún spákonu.
"Vð skulum nú sjá" sagði kona drjúg, og lagði spil á borð.
En sjá!
Spilin voru bísna happadrjúg.
Upphefð í starfi og betri laun....húsfreyja varð deildarstjóri.
Heilsublikið þokkalega gott, með smá bakslögum....nýrnagrjót
og ellihrumleiki í baki.
Átta ára djásnið að brillera.....fékk íslenskuverðlaun Menntaráðs.
Bóndi öruggur í starfi....ekki fengið uppsagnabréf enn, enda
pottþéttur verkefnastjóri.
Engin uppboð á húseign eða flutningur.....eins gott því
húsfreyja á svo fínan sólpall.
Mútta húsfreyju í góðum gír, ekki að hrökkva upp af á árinu....
og sá um verkstjórn í smákökubakstrinu hjá húsfreyju í desember.
Systur húsfreyju að komast út úr erfiðu tímabili báðar tvær
á árinu 2009.....horfa fram á bjartari tíma, sól og gleði á nýju ári.
Fósturbörnin öll að finna innri styrk og getu, þó það hafi kostað
skilnað við maka hjá eldri fósturdótturinni, sundur-saman-tímabil
hjá þeirri yngri við sinn kærasta, og fóstursoninn flutning norður.
Tengdó bæði þokkaleg til heilsunnar...Kanaríeyjaferð í spilunum
hjá þeim í febrúar að venju.
"En það verður BRJÁLAÐ að gera hjá þér, ef þú hættir ekki
á þessum vinnustað þínum" konan sprengdi næstum hljóðhimnur
húsfreyju með raddstyrk sínum.
"Hætta"!
"En þetta er það eina sem ég kann" húsfreyja var rasandi.
"Get ekki bara hætt sisona, í miðju bankahruni og
kreppufári"!
Spákona dró auga í pung.
Dæsti.
"Jæja, en það verður þá albrjálað að gera hjá þér,
og alveg fram á vor og sumar 2010".
"Og þú myndir alveg fá vinnu strax annars staðar,
þó þú hættir þarna....þú ert þannig karakter"!
Kona talaði svo hátt, að hár húsfreyju lyftist upp í loft upp eins
og væri hún stödd í 12 vindstigum á Stórhöfða.
"Hugsaðu þetta allavega" skipaði spákona hátt og snjallt og
hló svo tröllslega.
"Þú ferð nefnilega á "fjarkaár" sem er ár
mikillar vinnu og erfiðis, með tómum hindrunum og
hömlum, næsta afmælisdag þinn, svo þú skalt gæta
vel að heilsunni" hrópaði sú fjölfróða.
Húsfreyja skakkalappaðist nær heyrnalaus
út frá spákonu.
Jamm.
Húsfreyja varð svo stjóri í vinnunni í lok apríl,
mundi orð spákonunnar hinnar stóru og bað um og fékk
talnaspekibók mikla eftir Lafleur í afmælisgjöf.
Jú mikð rétt.
Byrjaði fjarkaár 30.08. 2009!
En merkilegt nokk, þegar húsfreyja lagði saman fyrst,
gerði hún það á þennan máta:
3+0+0+8=11 og síðan 2+0+0+9=11.
Og svo 11+11= 22.
Og þó að 22 verði síðan að árstölunni 4,
þá er 22 einnig meistaratala samkvæmt Lafleur.
Svo samkvæmt því er húsfreyja einnig á ári
samúðar og vinskapar.
Ári tilfinninga, hjálpar og gjafa.
Er skemmst frá að segja að gjöfum hefur
nánast rignt yfir húsfreyju frá því í ágúst.
Frá ólíklegasta fólki.
Og allir hafa verið einstaklega "vingjarnlegir"
við húsfreyju í nýju starfi, hjálpsamir og gæðalegir
við hana.
Húsfreyja veit vart í hvorn fótinn hún á að stíga
af gleði og þakklæti.
Brjálað að gera?
Sei, sei jú!
En ekki óyfirstíganlegt.
Og þarf aðeins að þrauka álagið fram
til 30.08.2010, þegar ár breytinga og
VELGENGNI hefst hjá húsfreyju.
Ef það ár gengur betur en kreppuárið
2009 hjá húsfreyju, er næsta víst að hún svífi skýjum
ofar fram til 30.08.2011.
Góðar stundir og GLEÐILEGT "ÁT"...hehehe meinleg villa þetta...
ÁR 2010.
Megi öll ykkar ár verða góð ár.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.