Gleði og bókagull.

goldenrainbow_1  HANA!

  Þar datt húsfreyja aldeilis í lukkupottinn.

  Náði sér í fínar bókmenntir í bland við

  íslenska krimma, barnabækur og handbækur.

  Fékk listlilega myndskreytta Snorra-Eddu

  fyrir lítið fé, og eldgosabókina þeirra Ara Trausta og

  Ragnars Th. á bókamarkaði miklum úti á Granda.

  Aldeilis brilliantJoyful.

  Gengur nú húsfreyja snemma til náða öll kvöld

  svo hún geti lesið lágmark 2-3 klukkustundir áður

  en Óli Lokbrá ber dyra.

  Og hér er svo sýnishorn úr einu bókagullinu:

                         Gull gleðinnar.

  Glaður maður er góðviljaður. Hann er hjálpfús.

  Hann ber ekki í brjósti hinn nagandi orm sem öllum heitir illu.

  Hann er öfundlaus og hann finnur að hann er hlekkur í

  vinarkeðju samfélagsins.

  Glaður maður er vongóður.

  Þótt hann eigi að vísu sínar áhyggjur veit hann að sólin

  skín að baki hvers skýjabakka og að vetri fylgir vor.

  Slíkur dýrgripur er gull gleðinnar.

  Og þótt vér höndlum hann aðeins skamma stund

  orkar hann áfram á oss.

  Gleðin er sólskinsblettur í heiði, þar sem oss líður vel,

  og frá honum flytjum vér birtu og yl inn í grámyrkur

  hins daglega lífs.

           Steindór Steindórsson frá Hlöðum (1902-1997)

  Hitti húsfreyju beint í hjartastað þessi pistill sem hún fann í bókinni "Íslensk hugsun".

  Yljaði henni um hjartarætur þar sem hún bograði yfir túlipanalaukunum

  úti á sólpalli í vetrarsólinni og velti fyrir sér lífinu og tilverunni.

  Varð hugsað til konunnar sem húsfreyja átti spjall við fyrir margt eitt löngu.

  Sú hafði orð á því að sér findist bæði ljós og gleði fylgja húsfreyju

  í störfum hennar.

  Húsfreyja var ánægð að heyra, og sagði við konu að gleðin væri sér bæði

  hugleikin og eðlislæg.

  Konan sagði það því miður of sjaldgæft hjá mannfólkinu, og

  bað húsfreyju í lengstu lög að rækta með sér gleðina.

  "Og vittu til vinkona, sagði þá kona, allt sem þú gerir og vinnur

  í gleði mun skila sér margfalt til þín aftur".

  Þessi elskulega kona hefur reynst sannspá svo um munar.

  Þau eru mörg gullkornin sem húsfreyja á fórum sínum eftir

  spjall við skjólstæðinga sína, og það var hennar gæfa að

  gefa sér tíma og "hlusta".

  Því miður byrjaði húsfreyja ekki strax að skrá gullkorn þessi hjá sér,

  en hefur þurft að treysta á það sem geymst hefur í hugskotum hennar.

  Og sumt hefur týnst, því er verr.

  En þvottasúss næst.

  Megi gleðin ætíð vera ykkar förunautur, kæru landar.

  Góðar og glaðar stundir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband