11.8.2009 | 16:05
Minning um mann.
Það var miður ágúst.
Árið var 1964.
Vestmannaeyjar.
Kominn kvöldmatur.
Kvöldsólin að lækka á himni, og
gyllti allt umhverfið þessari sérstöku
mildu síðsumarsbirtu.
Skottan var á heimleið og stóð
í litlu forstofunni á Vegamótum,
og galaði BLESS!
Rauk út og SKELLTI hrörlegri útidyrahurðinni
á Vegamótum á eftir sér.
Ó, ó, ó!
Skottan aðeins 14 dögum frá því að
verða fjögra ára, var miður sín.
Dadda frænka margbúin að banna henni og
Önnustínu frænku að skella hurðinni...var jú
að hruni komin hurðin...og hann Hjalli ætlaði að
gera við hana "á morgun".
Skottan reif upp hurðina í örvæntingu, galaði á
háá séinu "Fyrirgefðu Dadda frænka, ég ætlaði ekki að
skella hurðinni".
Dadda frænka með sitt logarauða hár, birtist sem
snöggvast í eldhúsdyrunum: "Allt í lagi, en lokaðu nú
varlegar á eftir þér næst, og passaðu þig á bílunum".
Skottan játti því og dundaði góða stund við loka
hurðarræskninu "löturhægt og ofurvarlega".
Sneri sér við til að skoppa niður tröppurnar
frá útidyrum Vegamóta, og krossbrá svo, að
hún var næstum búin að sendast inn á Vegamót aftur.
Það stóð maður beint á móti henni, upp við litla steinsteypta
tröppupallinn.
Skottan ríghélt í hurðarhúninn, og horfði skelfd á skælbrosandi
manninn.
Hann kiknaði í hnjánum, var næstum dottinn á andlitið
á tröppupallinn, en tókst að bera fyrir sig hendurnar
og taka af sér fallið.
Stæka súrsæta lykt bar að vitum litlu skottunnar.
Maðurinn reisti sig upp með töluverðum erfiðismunum.
Skottan róaðist.
Hún þekkti þennan mann...eða nei, ekki hún, heldur
hann pabbi hennar.
Þetta var maðurinn sem pabbi kallaði "frænda", og
sem var svo "ægilega veikur í fótunum" að hann gat
ekki gengið beint og var svo alltaf að detta.
Skottan fann vorkunsemina svella í brjóstinu, og
leyfði sér feimnislegt bros til fótaveika mannsins.
"Litla frænka með fallega gullna hárið" þrumaði
maðurinn, hikstaði, rorraði til hliðanna og breiddi
út faðminn til litlu skottunnar.
"Þú ert litla stelpan hans Sigga frænda á Eiðum,
og þú átt sko góðan pabba" aftur hikstaði karl
hressilega.
Skottunni fannst karlinn heldur hávær, og var
örlítið smeyk, og hún var heldur ekki viss hvort hún
sjálf væri "frænka" hans.
Var ekki alveg að botna þetta með frændur og frænkur,
litla skottan.
Nú voru þær Dadda og Annastína til dæmis frænkur
hennar og pabba, en svo voru þær bara ekkert skyldar
mömmu skottunnar. Ekki frænku-neitt!
Og svona var þetta líka með hann Hjalla, pabba hennar
Önnustínu...bara ekki frændi neins á Eiðunum.
Skottan dæsti yfir óskiljanleika tilverunnar, hví sumir væru
svona útundan í frændseminni, um leið og sá fótaveiki
sveiflaði um sig rifnum og skítugum frakka sínum, til að
halda jafnvæginu.
Hann virtist hafa lesið hugsanir litlu skottunnar.
"Hann pabbi þinn og ég erum frændur, og hann á þig
og þá ert þú líka hún litla frænka mín"...hann rétti
út aðra hendina ofurvarlega, "sæl frænka".
Skottan leit á brosandi, þrútið og 5 daga skeggjað
andlitið, i glettin góðleg augun fyrir neðan ellilegt ennið.
Steig hikandi eitt skref frá hurðinni og setti smáa
barnshönd sína í hlýja og hrjúfa hönd karlsins.
Hann tók þétt í hana, dró litlu stúlkuna örlítið nær
sér, horfði í augu hennar og næstum því hvíslaði:
"Svona saklaus blá augu"..klökknaði og strauk
yfir hár hennar með hinni hendi sinni.."svona fallegt sólgullið hár".
Og tárin streymdu niðu kinnar hans.
Hann hágrét.
Skottan var í stökustu vandræðum.
Voðalega átti fótaveiki "nýáskotnaði" frændi
hennar bágt.
Og hún sem var á leiðinni heim í kvölmat....
kannski myndi sorgmæddi "frændinn" þurfa fylgd heim til
...öööö...mömmu sinnar...pabba??
Og þá kannski myndi hún ekki rata heim aftur
á Eiðana....vera týnd...fyndi ekki mömmu, pabba,
og afa kannski ALDREI aftur.
Litla skottan kyngdi sínum eigin grátstaf snarlega, og
reyndi að upphugsa snjallt ráð til að losna við að
fylgja sorgmædda frænda heim.
Hún rétti varlega lausu hendi sína að andliti grátandi
mannsins, og þurrkaði blíðlega tár af kinn hans
mjúkum fingrum.
Hann kipptist við.
Leit upp, virtist skilja bónina í augum barnsins.
"Fyrirgefðu, litla frænka", hann þurrkaði sér um augun.
Leit á hana og svo niður á sjálfan sig.
Hélt enn í hendi skottunnar.
"Ég hef ekki alltaf verið svona..."klökknaði..en náði að jafna sig.
"Einu sinni var ég lítill eins og þú, bara smá peyji með sólina
í brosinu eins og þú og falleg saklaus augu eins og þú....eitt tár
rann niður kinn hans, og hann kiknaði aðeins í öðru hnénu.
Náði jafnvæginu, brosti...."en svona fallegt gullið hár hafði ég
ekki, frænka. Svona fallegt hár fá bara litlir ENGLAR,
og þú ert svo sannarlega ENGILL".
Hann brosti glettnislega, sleppti hönd skottunnar,
fór með hana í frakkavasann og dró upp stóra flösku
hálffullri af gulleitu vatni.
Dró tapann úr bokkunni, gerði sig líklegan að súpa ærlega á....
leit á litlu stúlkuna sem horfði á hann stórum augum, með
ljósgullið hárið eins og geislabaug kringum barnslegt andlitið.
"En svona gerir maður ekki fyrir framan engil"....hann setti
tappan í aftur og slangraði af stað í áttina niður að
Þingvöllum.
Snarsnéri sér við við hornið á "Haraldarbúð",
"Ég bið að heilsa honum pabba þínum, og....og...og
segðu honum Sigga á Eiðum að Árni Valdason segi að dóttir hans sé ENGILL".
Hélt áfram.
Skottan stóð sem lömuð af feginleik stutta stund, strauk hendi aftur á bak.
Læddi sér svo á eftir reikulum "frænda" sínum, í hæfilegri fjarlægð.
Hann tók strikið fram hjá raftækjaverslun Haraldar, þar staldraði
hann stutt við til að segja við furðu lostna unga konu er kom gangandi
með barnavagn...."Hún er ENGILL" dynjandi róm!
Fór á fullt stím fram hjá "bankanum" á horninu á Heimagötunni,
og skottan sá hann síðast stíga ölduna er hann hvarf fyrir hornið
á versluninni Þingvöllum.
Sjálf gáði skottan vendilega eftir bílaumferð á Heimagötunni,
skaust yfir, bak við Þingvelli, fram hjá Dagsbrún á harðaspani
og húsgagnaversluninni hans Eggó.
Og áfram að gömlu rafstöðinni þar upp sundið milli Steinholts
og Borgarhóls, fram hjá Byggðarholti og beint inn á Eiða
með miklum hurðaskelli og gauragangi.
Maaaaaaammmma!
Paaaaaaaabbbi!
"Hann sagði að ég væri ENGILL...og...og...með GULLHÁR.....
en ég er ekki ....er ekki ENGILL...ég er búin að gá að því...."
"SKO"!
Hér dansaði óðamála skottan hringi á stofugólfinu fyrir framan
foreldra sína, teygði hendurnar aftur á bak:
"Ég er sko EKKI með neina VÆNGI"!
Skottan var á innsoginu.
Alveg væri það hræðilegt ef hún væri að þvælast með vængi á
bakinu, sem hún kynni ekkert að nota, og gæti bara lent í brjáluðu
roki og flogið langt út í hafsauga.
Foreldrarnir voru engu nær, og skottan mátti draga andann djúpt
og segja alla sólarsöguna......ruglaðist að vísu á Árnum í sögunni,
hélt að frændinn hefði verið að ræða um Árna föðurbróður skottu,
en þegar pabbi henna spurði betur út í nafnið, þá kveikti hann.
Jæja, stelpa mín, þú hefur hitt hann Gölla Valda frænda....og sagði
hann að þú væri engill"?..hér hló pabbinn.
Skottan skildi ekki baun.
"Af hverju sagði Gölli, að Árni frændi hefði líka sagt að ég væri engill"?
Jú, kom í ljós að Árni Valdason var oftast kallaður Gölli, skottan náði því.
Árni Guðmundsson föðurbróðir og "frændi líka" kom englamálinu ekkert við.
Afinn birtist í stofudyrunum sagði soðninguna komna upp úr potti og á borðið.
Skottan rauk á eftir afa sínum fram í eldhús...."afi, afi, sérðu NOKKUÐ vængi
á bakinu á mér...ha, afi"?
Í kjölfarið fylgdu flissandi og hlægjandi foreldrar.
Skottan gjóaði á þau augum full vandlætingar....."alltaf tómur fíflagangur
í þessum foreldrum....það var ekkert hægt að eiga við þau af viti"!
Og vængjalaus settist hún við matarborðið í stóra, bjarta eldhúsinu á Eiðum...
og vængjalaus situr hún enn þann dag í dag við sitt eigið matarborð
í Grafarvoginum....allmörgum árum seinna.
Hvort hún hafi verið ENGILL, sem lítil skotta lætur hún liggja á milli hluta.
En oft hugsaði hún til þessa einkennilega, fótaveika frænda síns í skítuga rifna
frakkkanum, sem einu sinni hafði verið peyji með sól í brosi og
og sakleysi í augum.
Og ætíð mundi hún eftir því hún, er hún seinna sá hann á förnum vegi bernskuáranna
í Eyjum, að hann hafði sagt hana "ENGIL"!
Gölli hann var einn af okkur peyjum
sem kannski aldrei rétta strikið fann,
fæddur var og uppalinn í Eyjum.
og ekki var nú mulið undir hann
Og þó þeir væru að segja
sem sjálfir eitt sinn deyja
hve svakalegur værir þú, ó Gölli Valdason,
þá vil ég bara segja
að sumir ættu að þegja,
það saknar þeirra enginn, ó Gölli Valdason.
Ási í Bæ.
Þessi ágæti frændi minn varð svo fyrir barðinu á fordómum og vandlætingu
seinna meir, og er þess vegna einn frægasti drykkjumaður litla Fróns í dag.
Þeir voru margir sem þekktu gæskuna er í honum bjó, og tóku upp fyrir
hann handskann bæði í ljóði og lagi, sem er vel.
En húsfreyja ætlar út á sólpall að "viðra vængina" .....ef hún skyldi
nú finna þá....hehehe.
Góðar sólarstundir, og megi þið ætið eiga sól í brosi og sakleysi í augum.
Athugasemdir
skemmtileg saga
Sigrún Óskars, 16.8.2009 kl. 00:07
Þakka ljúfi kollega.
Sigríður Sigurðardóttir, 22.8.2009 kl. 22:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.