1.5.2009 | 19:21
Hefði verið nær...
...að bjarga húsfreyju frá því að
rigna niður í Húsdýragarðinum!
Þar var allt blautt, blautara, blautast
í dag þá húsfreyja brá sér til ferða með
8 ára djásninu og Rakel vinkonu djásnsins.
Þær höfðu gallað sig upp í stígvél,
regnföt, húfur og vettlinga og voru
að "drepast úr svita", á meðan húsfreyja
var krókloppin, blaut og hrakin í sinni
þunnu sumarregnkápu.
Brrrrrrrr!
Er ekki að koma SUMAR hér á þessu skeri
úti á rúmsjó?
En aftur að Húsdýragarðinum.
Selirnir voru í mat...og húsdýragarðskattarrófan
líka. Sú læða telur matartíma selanna vera sinn
prívatmatartíma, og er stórmóðguð ef gleymist
að snöfla í hana smásíld!
Kiðlingarnir stóðu fyrir sínu, en geitamamma
gaf "hland" í áskoðendur, með tilheyrandi
hlandstybbu og flæðandi gulum vökva niður
á gólf.
Hrúturinn var í ham í kindakofanum, svo
ein ærinn sá ástæðu til að segja honum til syndanna,
með óvenju "djúpu og langdregnu jarmi"...sjálfur
"deep throat" hefði orðið stoltur af svona frammistöðu!
Vinkonurnar átta ára, veinuðu af hlátri.
Hestunum var vorkennt ægilega, graslausum og hundvotum
úti í regninu, en risakleina var svo tekin með stæl ásamt
fullum bolla af kakó með rjóma af átta ára djásninu,
á meðan Rakelin náði súkkulaðiköku og 3 sopum af kakói.
Húsfreyja lét sér nægja súkkulaðismáköku og vatn.
Eitthvað stytti upp eftir hringekjuferð, þar sem átta ára
skvísur röltu á milli tréhrossa, príluðu og hlógu, og lestarferð
með tilheyrandi klukkuhringingum.
En þá var líka verið að loka garðinum, svo heim var haldið.
Húsfreyja eins og illa reytt hæna um hárið, enda
hafði hárblásari gefið upp öndina þá fósturdóttir
hafði brúkað hann fyrr um daginn, og regnið í
Húsdýragarðinum hafði heldur slegið í reytta hænulúkkið!
Svo það var verslaður nýr hárblásari með hraði í
Hagkaup, ásamt ýmsum fínum hárvörum.
Bóndi svo í "óvissuferð", og er húsfreyja óviss
um hvar hann sé niðurkominn, og hvenær
hans sé að vænta aftur heim.
En kompjúterinn hefur hún alveg út af fyrir sig...hah!
Kvöldmatur næst.
Góðar stundir í vorregninu!
Óþörf björgunaraðgerð í Gróttu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.