24.3.2009 | 12:38
Hundrað og fjögra!
Húsfreyja var rasandi hissa.
Stödd á Húsavík, uppi
á öldrunardeildinni á 3 hæð á
sjúkrahúsi þeirra víkinga.
Var að fá rapport um
öldungana, því hún átti að
sinna þeim á kvöld- og næturvöktum,
ásamt fólkinu á sjúkradeildinni niðri.
Á öldrunardeildinni voru 33 öldungar.
Og helmingur þeirra var á þeim góða aldri
95- 104 ára!
Helmingur!
Húsfreyja trúði vart sínum eigin eyrum og augum.
Fyrir sunnan þótti stórmerkilegt ef
einn og einn öldungur náði 100 ára aldri.
Hér voru þrír 100 ára, og ein kona 104 ára!
Jaso!
Og margir 98 og 99 ára gamlir.
Húsfreyja gjóaði augum fram í matsalinn,
þar sem þingeyskir öldungar sátu að snæðingi.
Voru hinir háöldruðu ekki aðframkomnir af elli?
Máske ekki einu sinni í standi til að komast úr rúminu
og fram í matsal.
Húsfreyja sló lauslegri tölu á heimilisfólk í huganum.
Hah! Bara 32!
Sú 104 ára sjálfsagt ekki göngufær, og lægi
farlama inni í rúmi.
En sei, sei, nei!
Sú 104 ára var á fæti, höktandi um í
göngugrind...glettilega skýr í hugsun og
ern, þótt heyrnin væri næstum alveg horfin.
Það var einhver flensuskítur búinn að vera í gangi,
og einn "unglingurinn" þeirra þarna, aðeins 79 ára
lá bakk í rúminu með lugnabólgu.
Undur og stórmerki.
Sunnlenska unga hjúkkan, var furðu lostin.
Það var hásumar, og húsfreyja var nýkomin
að sunnan til starfa.
Átti ættingja og góða að á Húsavík, og langaði að reyna
eitthvað nýtt í starfi sínu.
Henni leist vel á staðinn.
Náttúrufegurð mikil og gaman að takast á við nýjar
áskoranir í starfi.
Ekki hafði hún búist við að kynnast svo öldruðum
Frónbúum, og hún hitti fyrir á öldrunardeild Húsvíkinga.
Var flest ernt fólk í hugsun, en skrokkurinn farinn að gefa sig.
Örfáir með minnissjúkdóma, nokkrir með
lamanir og málstol eftir heilablæðingar.
Deildarstjórinn á öldrunardeildinni var samt
dálítið áhyggjufull yfir sínu fólki.
"Veturnir leggjast svo illa í öldungana, hér fyrir norðan,
og þeir bara leggjast í rúm að kveldi og deyja um nóttina"!
Húsfreyja sá ekki hvernig það mætti verða, svo
hressilegt var gamla fólkið yfir sumartímann.
En haustið kom, í nákvæmlega 3 daga og 5 klukkustundir,
og þá byrjaði að snjóa.
Og snjóa!
Og snjóa!
Húsfreyja var beðin um að vinna mikið af
kvöld- og næturvöktum.
Skortur á hjúkkum.
Húsfreyja tók því ljúflega, enda ung og spræk.
Gat alveg unnið 3-5 næturvaktir í einum rykk,
og jafnvel kvöld- og næturvakt saman.
Í október veiktist fyrsti öldungurinn á vakt
húsfreyju, dó sólarhring seinna á næturvakt húsfreyju.
Og einn af öðrum, nótt eftir nótt, á meðan vetraróveður
með snjókomu og kulda dundu yfir byggðina, létust
þeir, ernu öldungarnir húsfreyju.
Oftast nær að næturlagi, og á vöktum húsfreyju.
Frændur húsfreyju, ungir menn á svipuðum aldri og hún,
voru fljótir að sjá gráglettnina í málunum.
"Hvað segir engill dauðans í dag"? var kveðja sem
hún iðulega fékk frá þeim.
"Hvað lágu margir í nótt"? eftir að hafa lent í
tveimur dauðsföllum í röð, nótt eftir nótt.
Húsfreyja hló með þeim frændum sínum, enda
kannaðist hún vel við húmorinn frá sjálfri sér og sinni
sunnlensku fjölskyldu.
Breytti ekki því, að marga vetrarnóttina á Húsavík sat hún við
rúmstokk deyjandi öldungs.
Bað með þeim sem þess óskuðu,
söng jafnvel gamla sálma upp úr sálmabókum
fyrir þá, sat hjá þeim og hélt í hönd þeirra....
svo undur gamlar og visnar hendur.
Hlustaði á þá rifja upp lífshlaupið, ákveðna atburði
úr lífum sínum..sára eða gleðilega.
Sumir misstu meðvitund fljótt, varð að
snúa þeim, gefa verkjalyf reglulega,
sinna frumþörfum og meta líðan.
Sitja með ástvinum, hugga þá, styrkja,
hlusta á minningarbrot þeirra um þann deyjandi,
gefa þeim mat og kaffisopa, kalla til prestinn
þegar ástvinur kvaddi, kveikja á kertum og
gefa þeim tíma í minningar-og bænastund með þeim látna.
Snjókomuna stytti upp endanlega 3. júní!
Það vor höfðu allir elstu öldungarnir kvatt, og nýjir
einstaklingar komið í þeirra stað.
En þeir voru nú ekkert mikið yngri en þeir, sem látist höfðu um
veturinn.
Flestir þeir nýju, eitthvað í kringum níræðisaldurinn.
Húsfreyja spurði eina sjötuga konu sem kom að
vísitera móður sína, 95 ára nýkomna upp á öldrunardeild,
hverju sætti þessi hái aldur þeirra þingeysku.
"Nú hvað er þetta telpa mín, hér er nóg að bíta og brenna.
Lifum í nánu samfélagi við náttúruna, dýr og menn.
Höfum alltaf í nógu að sinna, leiðist aldrei, borðum
vel er við erum svöng, og eigum heimsins bestu mjólkurkýr".
Og upp arkaði sú sjötuga bóndakona, allar tröppurnar og
gustaði af henni!
Tók ekki lyftuna, sei, sei nei.
Skondið fannst húsfreyju svo, að sjá nú mörgum árum seinna frétt um
ágæti þingeyskra mjólkurkúa...og það í sjálfu málgagninu.
Ætli öldungar þingeyskir séu enn svo langlífir, og þá, er
húsfreyja fylgdi þeim síðasta spölinn yfir í "Sumarlandið"?
Góðar stundir.
Besta mjólkin í Þingeyjarsýslu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þetta var skemmtilegt. Kærar þakkir!
Birnuson, 25.3.2009 kl. 12:53
Njóttu vel, Birnuson. Voru góðar stundirnar mínar á Húsavík.
Sigríður Sigurðardóttir, 25.3.2009 kl. 17:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.