14.2.2009 | 23:04
Lestrarhestur og hálfviti.
Mikill lestrarhestur, átta ára djásnið,
en aldrei hefur húsfreyju
dottið í hug að senda hana
upp á þak að lesa.
Þar svona hálfnöturlegt,
blautt og skuggsýnt þá kvöldar,
og næsta víst að húsfreyja hálsbryti
sig reyndi hún að ná mynd af djásninu
í "þaklesningum"!
Bara slysagildra og tryggingamál að
hafa "óvenjulegasta staðsetningin" lestrarkeppni.
Nóg af slysum að hafa innanhúss,
þó foreldrar fari ekki að senda börn sín að
lesa uppi á strompum, lesa hangandi úti
á þvottasnúrum eða utan í ókleifum klettum.
Síðast í gær skellti átta ára djásnið enni sínu
af alefli í eldhúsvegginn, og hlaut af blæðandi sár.
Orgaði í klukkutíma, og það þrátt fyrir að
húsfreyja "límdi saman" sárið sjálf, og djásnið
losnaði þar með við læknastúss og saumaskap á slysó.
Er ekki sú sterkasta á svellinu, þegar kemur
að blæðandi sárum, djásnið.
Jafnaði sig samt og fór með húsfreyju
austur fyrir fjall í dag, að leika við frændsystkin sín.
Og auðvitað skellti hún nokkrum góðum, "djúpum"
spurningum á húsfreyju á heimleiðinni, ásamt
ýmsum öðrum pælingum.
"Mamma, til hvers er allt í heiminum til"?
"Ha, mamma? Til hvers er þetta líf"?
"Og mamma, veit einhver NÚNA, hver skapaði
GUÐ? Er einhver búinn að rannsaka það"?
(PLÍS...EINHVER sem veit svörin við þessum,
hafa samband við húsfreyju sem fyrst!)
"Mamma, HÁLFVITI er skrýtið orð".
"Huhm já...hvað meinarðu"?...múttan enn
með heilafrumur allar í "suðumarki" að reyna að
finna svör við fyrri spurningum.
"Jú, þetta er svona eins og verið sé að tala
um "hálfan" vita....svona eins og lýsir skipum.
"Jamm...en ég held að það sé verið að meina
fólk sem veit ekki marga hluti, eða skilur og
hafi þá kannski bara "hálft vit", svaraði múttan.
"Eins og við" , svaraði átta ára djásnið snarlega,
"því við vitum ekki allt og vitum alls ekki HVER skapaði GUÐ"!
"Já, ætlum við séum þá bara ekki ljótu háfvitarnir"
svaraði húsfreyja og glotti með sjálfri sér.
En svo kom Latabæjarmúsíkin á CD-spilaranum húsfreyju
til bjargar, og átta ára djásnið söng hástöfum með,
á meðan "ljóti hálfvitinn" móðir hennar, ók bílnum,
og reyndi að leysa lífsgátuna....og í örvæntingu að
finna einhverja skynsamlega lausn á því HVER
skapaði eiginlega GUÐ!
EINHVER?!
En þegar húsfreyja hélt að hún væri sloppin
fyrir horn, og fleiri yrðu spurningar ekki,
kom: "Mamma, skapaði GUÐ okkur ekki líka
til að "leika okkur" hér á jörðinni"?
Húsfreyja taldi það nú heldur líklegt.
Yrðum líka að læra að "leika okkur" í þessu lífi,
ásamt því að syrgja, reiðast, starfa, gleðjast,
gráta, hjálpa náunganum og rækta mannleg
samskipti af kærleik.
Átta ára djásnið var bísna ánægð með þau
svör húsfreyju...og hún virtist sætta sig fullkomnlega
við það að mútta hennar sé bara "hálfviti"
sem veit ekki hver skapaði Guð!
Góðar stundir og njótið helgarinnar.
Biskup með synina á strompnum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.