3.2.2009 | 14:26
Hundar teknir fyrir í nefnd?
Á minni öldrunarstofnun,
fá hundar iðulega að mæta í
klukkustundar heimsókn til
öldunganna.
Það sem gamla fólkið er hrifið.
Og hvað það hressist í bragði.
Birtir yfir því og það spjallar og hlær.
Gælir við og klappar hundinum, og
brosir við hvort öðru.
Veit húsfreyja eigi betur en að
hjúkrunarforstjóri okkar hafi lagt
blessun sína yfir þessar heimsóknir,
án þess að senda málið nokkurn tímann
í "nefnd"....en þó skal hún ekki sverja
fyrir það.
Ættingjar koma með vel þjálfaða hunda,
blíða og hlýðna.
Og "aldrei" hefur skapast ónæði eða
óánægja með hundslegar heimsóknir þessar.
Öldungar húsfreyju eru síðasta kynslóðin
hér uppi á litla Fróni, sem almennt
naut þess að alast upp með dýr í
kringum sig.
Þeir eiga einnig að fá að njóta þess í ellinni,
er skoðun húsfreyju, enda er öldrunarstofnunin
síðasta "heimili" öldunganna.
En ef menn vilja setja einfalt lítið mál
fyrir nefnd, fá undanþágur og leyfi fyrir
ljúfum hundaheimsóknum í klukkustund,
þá verður það víst að vera svo.
Var svo í klakaköldum göngutúr í gær,
húsfreyja og 8 ára djásnið.
Röltu þær mæðgur niður í fjöru og svo upp
á listaverkahæðina í sólskini og logni.
Allt var hulið hvítum púðursykurssnjó,
klaka og ís.
Átta ára djásnið braut grýlukertin af
listaverkunum og át sem sleikipinna,
fann tréskúlptúr sem hún notaði fyrir
leikfimisæfingar og kollhnísa,
en húsfreyja myndaði ferðina með
videovélinni.
Sú átta ára fann fótspor eftir kött
í snjónum og vildi fara að rekja þau,
en húsfreyja tók dræmt í það, er sporin
tóku stefnuna í áttina að Gullinbrú.
Var þegar orðin krókloppin á vinstri hendi
þrátt fyrir vettlinga, og videokameru-handleggurinn,
sá hægri, var orðinn furðulega "fjarverandi" af kulda.
Sá húsfreyja fyrir sér að verða úti í kvöldkulinu,
eltandi kattarrófu sem fyrir löngu væri
búin að koma sér í hlýtt skjól í Höfðahverfi.
En fallegt var veðrið, Esjan gullin og hvít
í sólinni og Snæfellsjökull óræður og
dularfullur í bleikrauðum ljóma handan
flóans.
En heim komust þær mæðgur aftur,
þrátt fyrir ískalt kvöldkulið, logarauðar
í kinnum og með fegurð landsins í
hjörtum sínum.
Góðir dagar á litla Fróni.
Góðar stundir.
Hundar fá að koma á Hrafnistu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Nákvæmlega, það er svo dýrmætt að fá að snerta og umgangast dýr. Það er heilmikil heilun í því fólgin.
Ragnhildur Jónsdóttir, 3.2.2009 kl. 15:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.