27.12.2008 | 12:55
Lífið er ljúft...
... á jólum.
Sjö ára djásnið ætlaði að
opna einn pakka fyrir kirkjuferð
á Aðfangadagskvöld, til að minnka
spennuna.
Gleymdi því.
Í kirkjunni stóðu þeir Gunnar Þórðar og
Egill Ólafsson við hlið sjö ára djásnsins,
með allan kórinn ásmt klerki fyrir aftan sig.
Gunnar með gítarinn.
Djásnið gjóaði augum á frægu mennina,
kannaðist eitthvað örlítið við þá, og
hvíslaði spennt að móður sinni, hvað
þessir menn ættu að gera þarna.
Húsfreyja svaraði að bragði, og sagði þá eiga að
syngja og spila fyrir okkur í kirkjunni.
Djásnið tvísteig óþolinmóð: "HVENÆR, mamma"?
Gunnar brosti til djásnsins og síðan húsfreyju:
"Mikil spenna í gangi hjá henni", og glotti vinalega.
Jú, húsfreyja varð að samþykkja það.
Egill hummaði, Gunnar lék nokkra tóna á
gítarinn.
"Eftir hverju erum við að bíða, mamma"?, djásnið
að fara á límingunum af spenningi.
Sigmundur Ernir birtist.
Hvíslaði að séra fyrirmæli um sem áhrifaríkasta
inngöngu.
Jaso, messa í beinni!
Loks hélt hópurinn af stað....."Er himins opnast hliiiiiið".
Ljúf stund í kirkjunni á jólum.
Og djásnið tók undir af krafti þá
"barnasálmarnir" eins og hún nefndi þá
voru sungnir.....Í Betlehem er barn oss fætt og
Heims um ból.
Úti var marauð jörð..."rauð jól", dæsti djásnið
mæðulega er út úr kirkju kom, en tók svo gleði sína
aftur er heim kom.
Heima biðu fóstursonur og hans heittelskaða,
vokuðu yfir jólasteikinni og humarsúpunni.
Húsfreyja kveikti á 30 kertum um alla íbúð, og
svo var sest að snæðingi.
Mmmmm... hefur húsfreyja nefnt það að bóndi
hennar er snjall kokkur?
Djásnið mundi eftir pakkanum sem hún "hafði ætlað"
að opna fyrir kirkju.
Opnaði hann með hraði, eftir að hafa fundið hann
á undraverðan máta í pakkahrúgunni undir
fallega skreyttu jólatrénu.
Það tók svo klukkutíma að opna allar gjafirnar, og
djásnið var í essinu sínu.
Að sjálfsögðu átti hún "stærsta pakkann" og ljómaði
sem sól þegar dúkkuhúsið birtist.
Ljúft og gott aðfangadagskvöld, og orð djásnsins
rétt fyrir miðnættið sönnuðu það: "Mamma, ég vildi að
þessi dagur endaði ALDREI".
"Nú af hverju".
"Því ég á eftir að leika mér "svo mikið" með allt nýja dótið
mitt, borða helling af piparkökum og lesa nýju
bókina sem ég fékk í jólagjöf".
"En þú ert nú í jólafríi, svo hægt er að dreifa þessu
yfir nokkuð marga daga", móðirin brosti.
"En þetta er langskemmtilegasti dagurinn á árinu, mamma
og það er meira gaman að gera þetta allt í dag"!
Og djásnið fékk að vaka fram yfir miðnættið, svo hún gæti
"klárað" eitthvað af því sem hana langaði að gera.
Í gær hitti hún svo öll frændsystkini sín fyrir austan fjall
í kaffiboði hjá ömmu sinni.
Spennufallið eftir jólin var áberandi, og litla liðið gaf sér
jafnvel tíma í tertu og smákökur milli leikja.
Og svo er aftur ferð austur fyrir fjall í dag.
Vigrinn á afmæli, verður sex ára peyjinn.
Húsfreyja verið að störfum síðan á jóladag, og í nógu að
stússa.
Sendi einn mikið veikan á sjúkrahús, og horfði haukfránum
augum á alla öldungana sína eftir hangikjötsátið.
Minnsti vottur af mæði eða versnandi bjúg, og þá reif
hún upp Furixtöfluglasið úr vasa sínum og skellti einni
pillu í viðkomandi.
Ræsa bévítans vatnið og söltin út úr skrokknum, eftir sterkt hangikjöt,
er oft mesta áskorun öldunganna eftir jólin.
Verður að vinna kvöldvakt í dag, svo djásnið þrælar
pabba sínum með sér í afmælið.
Ekki amalegt það.
En djásnið þarf í kompjúterinn, en húsfreyja í bað.
Góðar jólastundir.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.