11.11.2008 | 17:45
Að upplifa Guð.
"Já, en hvernig upplifir þú Guð, góða mín"?
Sú tíræða beindi snörpum augum á húsfreyju,
beið svars.
Þær voru að spjalla eftir hádegi, eina helgina
inni á herbergi þeirrar tíræðu.
Sú gamla ekki hrifin af "prestajóðlinu"
í útvarpinu á sunnudegi, og sagðist lítið
trúa á "sögur" þeirra um himnaríki og helvíti,
engla og djöfla.
"Jú, svaraði húsfreyja, ég upplifi Guð sem
kærleik".
"Hrrrummppp, þetta verðuru að útskýra betur",
sú gamla ákveðin.
"Jú, Guð er sannur, skilyrðislaus kærleikur, sem
hvorki refsar né dæmir eftir minni hyggju" svaraði
húsfreyja.
"Guð leitar ekki eftir því að sýna vald, eða stjórna,
eða gera kröfur til barna sinna á jörð, líklega
óskar hann þess eins að við "börn hans" verðum það
besta, sem við getum orðið í þessu jarðlífi.
Ein stærsta gjöf hans til okkar, er frjáls vilji og
sé okkar vilji annar en óskir Guðs okkur til handa,
þá mun okkar vilji ráða.
Svo mikill er kærleikur Guðs".
"Ja, mér þykir þú segja mér fréttir" sagði sú
tíræða hlessa.
"Hvað með Biblíuna, helvíti, djöfulinn og syndina"?
spurði hún svo snöggt.
"Ekki kemur þetta alveg heim og saman við allt
það rugl". Sú gamla ekki að skafa utan af því.
"En Guð gaf mér skarpa hugsun, hæfileikann til
að gagnrýna hið ritaða og talaða orð, efast um
"staðhæfingar" og fornar sögur", svaraði
húsfreyja að bragði.
"Biblían er bara bók rituð af mönnum, þeirra
túlkun á atburðum, og þeirrar hugmyndir
settar fram, ekki Guðs.
Guð vill að ég gagnrýni Biblíuna eins og
aðrar bækur, og velji það sem mín sál,
minn innsti kjarni segi mér að sé rétt, hafni
hinu.
Ég trúi hvorki á djöfulinn, né helvíti og mun aldrei
trúa á slíkt.
Ekki á refsandi Guð, sem hegni mönnum
grimmilega fyrir syndir þeirra.
Guð er kærleikur.
Guð umvefur okkur vernd.
Guð umber allt.
Guð skilur allt".
Húsfreyja þagnaði og brosti til gömlu.
Sú gamla horfði á húsfreyju þegjandi
góða stund.
En svo kom: "Það hefði verið mun skárra
að hafa "þig" sem prest í sveitinni minni
í gamla daga, en þessa vitleysinga sem
tuðuðu í síbylju um syndir og helvíti.
Kannski ég hefði þá trúað "eitthvað" á
þetta allt saman.
Þú ættir að stofna söfnuð fyrir "gamla trúleysingja"
eins og mig, sem erum alveg á grafarbakkanum,
og vitum ekki hvar í ósköpunum við lendum eftir
andlátið".
Húsfreyja hló.
"Nah, ég yrði ljóti presturinn. Yrði bannfærð
af biskupi, kirkju, páfa og öllum kirkjuþingum
fyrir trúvillu og guðlast, ekki seinna en í gær".
"Hah, skellti gamla upp úr, þú létir það ekki
trufla þig mikið, ef ég þekki þig rétt".
Húsfreyja glotti, og sagði: "O jæja, en þú skalt
engar áhyggjur hafa af því hvar þú lendir, mín kæra,
eftir andlátið. Þú flytur beint í yndislega
"Sumarlandið" okkar. Því trúi ég".
Og sú tíræða brosti, og sagði: "Ef þú ætlar "þangað",
þá ætti mér kannski að vera óhætt að kíkja á staðinn".
Húsfreyja svo kölluð fram, og þær slitu tali.
Sú tíræða er frábær kona. Elskuleg, ákveðin, skörp
í hugsun, lífsreynd, full af lífsgleði og hefur myljandi góðan húmor.
Merkilegt að heyra hjá henni, hve prestar síðustu aldar hafa
hengt sig mikið í syndir, djöfla og helvíti.
Kærleikurinn er stóra málið, hvort sem trúað er
á Guð eður ei.
Telur húsfreyja, að það böggi Guð ekki neitt, þó menn
trúi ekki á tilvist hans, eigi þeir bara kærleika og láti
gott af sér leiða.
Svo mörg voru þau orð.
Góðar stundir.
Athugasemdir
Bara smákveðja, fallega skrifað hjá þér mín kæra
Heiður Helgadóttir, 12.11.2008 kl. 10:27
Ég held ég þekki þessa tíræðu... eða er það ekki?
Fallegt blogg hjá þér frænka!
Kristín Henný Moritz, 12.11.2008 kl. 17:19
já kærleikurinn er stóra málið - því er ég sammála. Gaman af svona gömlum og skemmtilegum kellum.
Sigrún Óskars, 12.11.2008 kl. 19:11
Þakka þér Heidi mín.
Jú, frænkubeibí, gæti trúað því að þú þekktir mína yndislegu konu.
Já Sigrún mín, sú gamla er einstaklega skemmtileg og mikil persóna.....og kærleikurinn....já hann ER.
Þakka ykkur innlitið ljúfastar.
Sigríður Sigurðardóttir, 12.11.2008 kl. 21:06
Þvílíkur karakter....yndisleg kona......
Er það ekki séra Sigga.
En það er rétt að prestar fyrr á tímum notuðu illskuna meira í erindum sínum en kærleikann....Kannski var þetta agamál þeirra tíma.
Skemmtileg færsla.
Solla Guðjóns, 13.11.2008 kl. 10:17
Seint verð ég titluð séra, Solla mín....en kannski "predikari"......samanber Jóhannes Biblíunnar. Verst hve illa fer oft fyrir predikurum, og þætti mér illt að missa haus fyrir það eitt að "ræða málin", eins og fyrrnefndur Jóhannes.
Sigríður Sigurðardóttir, 13.11.2008 kl. 21:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.