1.9.2008 | 16:47
Kattarkyrkingardagur.
Húsfreyja hefur setið í síðsumarssólinni
úti á sínum herlega sólpalli, hlustað á
Eyfa og Stebba, Bubba og svo gömul lög
frá árinu 1981......jamm, húsfreyja var
"nebbnilega" ung pæja það árið , nýútskrifaður
stúdent sem hafði ekki hugmynd um hvað hún
ætti að finna sér að bauka í lífinu.
Var einna helst á því að gerast trúboði eða
kennari, heimshornaflakkari eða símadama hjá
Símanum....."samband útlönd, góðan dag...má
bjóða þér að bíða á meðan ég reyni að ná
sambandi við númerið"?
En þá væri húsfreyja orðin atvinnulaus í dag, ef hún
hefði orðið símamær, í lítilli eftirspurn ef hún hefði
valið trúboðann, alltaf í launtjóni og verkföllum
ef hún hefði orðið kennari og "ekki komin heim aftur"
ef hún hefði lagst í heimshornaflakkið.
Svo einhverja "miðstýringu" að ofan hefur hún
fengið þá hún valdi hjúkrun.
Ekki náð að anna eftirspurn öll þau ár sem hún
hefur hjúkrað veiku fólki, ALDREI nokkurn tímann
verið atvinnulaus, FÆR EKKI að fara í verkföll þó
launin sleiki reglulega botninn í launatöflu
opinberra starfsmanna, og er bara merkilegt
nokk, "bísna oft" heima hjá sér.
Hefur til dæmis í dag notið veðurblíðunnar,
þvegið þvotta, hengt út, setið með málgögnin...
og bjargað kettinum fimm sinnum frá kyrkingu.
En læða húsfreyju er í miklum ham út í alla
ókunna ketti er rölta framhjá í 10 -30 metra
fjarlægð, skellir upp á sig ægilegri kryppu og
tekur svo á rás á "óþverraliðið"...og kyrkist næstum
því í bandinu sínu í öllum djöfulganginum.
Til allra lukku hugkvæmdist húsfreyju að versla
kattaband sem væri utan um miðjan búk dýrsins,
og svo lausar um hálsinn, og hefur það reddað miklu
fyrir læðu í dag.
Því mikil bévítans, ekkisens "kattaskrúðganga"
virðist vera í gangi um lóð húsfreyju í dag, og
telur jafnvel húsfreyja að um "gay pride"-göngu
lausakatta sé að ræða.
Læðu er ekki skemmt, og húsfreyja getur svo sem
tekið undir það hjá kisu, að enginn hefur sótt um
"kattaskrúðgönguleyfi hinseginn katta" um lóð
hennar nýverið.
Kettirnir bara mæta.
Annars var húsfreyja líka á rjátlinu að kompjúternum
sínum.
Verið að bíða eftir að fá launin sín, svo hún gæti rölt
með 7 ára djásninu í búð og verslað í matinn.
Og hið opinbera klikkar aldrei. Komu inn tíu mínútum
fyrir klukkan fjögur.
Gerðu gott betur en að "sleikja botninn" á launatöflunni
núna eftir sumarfríið, launin....voru svona 23 centimetra undir
botninum.
Sjíss!
Bónusnúðlur, þrumari og pakkasúpur matseðill Septembers,
hjá húsfreyju......djásnið segist vera flutt að heiman.
En huggun harmi í....
....kötturinn er "ókyrktur"....enn.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.