2.6.2008 | 20:11
Leynist víða.
Þá húsfreyja var 12 ára stúlkubarn, gaus í hennar yndislegu heimabyggð, Heimaey.
Mikið lán var yfir Eyjamönnum þá nótt er gosið hófst, og ekkert manntjón varð.
Eignatjón var hins vegar gífurlegt.
Og varð húsfreyja ásamt sinni fjölskyldu fyrir því, sem aðrir Eyjamenn.
Átti húsfreyja heima örskammt frá eldstöðvunum, aðeins 15 mín. gangur, og því fór sem fór.
Heimilið fór undir 3000 stiga heitt hraunið, og hefur hvorki sést tangur né tetur af
því síðan.
Þá útséð varð að húsin í "Dauðadalnum" svo kallaða, færu undir hraun, var faðir húsfreyju
boðaður út í Eyjar.
Fékk úthlutað einum gámi og fékk einn sólarhring til að ná því af búslóðinni, sem
bjargað yrði.
Helmingi af búslóðinni náði faðir húfreyju, með góðri hjálp tveggja mága sinna,
og það þó hann gæfi eftir helming af gám sínum undir búslóðs björgunarsveitarmanns,
er bjó uppi á Austurvegi, rétt fyrir ofan og hafði ekki haft tök á að ná sinni búslóð út.
Í geymslu fór allt saman, uppi í Breiðholti, í nýlegum blokkum.
Þar margar íbúðir enn óseldar, svo geymslur voru tómar.
Og að sjálfsögðu sprakk vatnsrör í nýju geymslunum, svo faðir húsfreyju mátti
brenna á vordögum úr vinnunni, að dæla út vatni svo búslóðin ekki skemmdist.
Öllu var borgið, nema þvottavélinni sem hafði verið á hlið, einhverra hluta vegna.
En það mátti gera við hana, og var gert í snatri.
Hitt var verra, þegar lögreglan bankaði upp á.
Brotist hafði verið inn í geymslurnar þar sem Eyjamenn geymdu búslóðir sínar,
og munum stolið.
Farið í gegnum þrennar læstar dyr, þær síðustu með sterklegum hengilásum ofan
á venjulegar læsingar.
Ískápum stolið.
Þvottavélum stolið.
Málverkum stolið.
Skartgripum stolið, þar með móður húsfreyju.
Silfri stolið.
Brúðargjöf foreldra húsfreyju, listilega útskornu eikarborði með svartri glerplötu
stolið.
Húsfreyju sá föður sínum sjaldan jafn illa brugðið, og þegar hann varð að gera skrá
yfir stolna muni með lögreglunni.
"Að sparka í liggjandi mann, aldrei verið siður okkar Eyjamanna" sagði hann aftur
OG AFTUR.
Og því var það, að þegar við fluttum í byrjun nóvember í Þorlákshöfn, að búslóðin
hafði rýrnað til muna, því aldrei fundust þjófarnir eða góssið.
Fórnarlömb suðurlandsskjálftans núna, eiga alla samúð húsfreyju.
Hvetur þá til að hafa allan vara á, því víða leynast "rotin epli" í góðum samfélögum.
Góðar stundir.
Stal munum úr húsi sem yfirgefið var vegna jarðskjálfta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þeir sem leyfa sér slíka ósvífni og virðingarleysi fyrir náunganum eiga ekkert gott skilið. Fyrir nokkrum árum kom kunningi minn ásamt vini sínum að tveimur mönnum sem höfðu brotist inn heima hjá honum. Þeir stoppuðu að sjálfsögðu þjófana sem rifu bara kjaft. Og vinirnir gerðu það eina rétta í stöðunni, þeir börðu þjófana til óbóta. Aldrei fengu þeir kæru eða önnur eftirmál og segjast báðir mundu gera það sama aftur ef þeir lentu í sömu aðstæðum. Mikið er ég sammála þeim, berja þjófana sundur og saman ef til þeirra næst, annað skilja þeir ekki.
corvus corax, 2.6.2008 kl. 21:33
O, jæja corvus.
Þegar upp var staðið, þá voru allir því sárfegnastir, að enginn maður slasaðist eða dó gosnóttina.
Auðvitað hefði faðir minn sjálfsagt þegið það, að rétta þjófunum einn á kjammann, þegar hann var sem reiðastur. En eftir á að hyggja, þá eru svona menn ekki einu sinni kjafthöggsins virði. Eru bara aumingjans ræflar, sem notfæra sér neyð annarra.
Ofbeldi gefur ekkert nema bráða tilfinningaútrás, og svo iðulega massa leiðindi og móral sem eftirmála. Svo ekki mæli ég með því.
En takk fyrir innlitið!
Sigríður Sigurðardóttir, 2.6.2008 kl. 22:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.