27.5.2008 | 14:14
Þegar fjallið varð að guði?
Merkilegt þetta með "rétttrúnaðinn"! Virðist töluvert ganga út á það að "hafa rétt af öðrum".
Eins og í þessu tilviki. Þá er tekinn sá réttur af konum, börnum, geldingum og öðru fólki með "slétt andlit", að fara í hressilega heilsubótargöngu upp á fjallið Athos. BANNAÐ!
Og hér er ekki um tímabundið bann að ræða! Sei, sei NEI! Engar skyndilokanir hér eins og á hinum íslensku fiskimiðum.
Eða tímabundnar lokanir vegna viðgerða á vegum og göngustígum, eins og vegagerð okkar Frónbúa skellir ætíð á okkur á sumrin, yfir mesta ferðatímann.
Neipp! EILÍFÐARBANN, sem þegar hefur varað í hartnær 1000 ár.
Og svo vaða bara þær Moldavísku upp á háheilagt fjallið á skítugum skónum.
Svo munkar allir og rétttrúaðir prestar þar, verða að bretta upp ermar og ganga í það að "fyrirgefa" konunum, svo ekki fái þeir slag af vandlætingu og reiði.
Eru svo þær Moldavísku sjálfsagt búnar að eyðileggja allar bænastundir eftir hádegi næstu 3 mánuði, hjá þeim rétttrúuðu á Athos. Þeir á þönum með heilu tonninn af "vígðu vatni" um hlíðar og götustíga, þar sem konugarmarnir frá Moldavíu gætu hafa stigið niður fæti.
Ausa vatni og blessa í gríð og erg. Verður að má út öll sótsvört fótspor hinna bersyndugu kvenna sem fyrst. Eða hvað?
Datt þá húsfreyju í hug, hve margir karlmenn með "óslétt andlit" sem hafa orðið fyrir því óláni, að fá krabbamein í eistu, og þar með þau fjarlægð í aðgerð ( "geldir" vont orð yfir slíka aðgerð, en eigi að síður, það sem hendir), hafi rölt sér með ferðahópum karla upp á Athos?
Ætli munkarnir hafi VERÐI, er stundi "eistnaþreifingar" þá karlar mæta að skoða klaustur og kirkjur þeirra réttrúuðu? Þeir kannski búnir að taka "skanna" í þjónustu sína, sem skanna alla karla fyrir neðan mittis, þá þeir mæta á Athos? "EISTNALEIT"! Ekki vopnaleit.
Og hvernig meta þeir "sléttleika andlita"!? Fá karlar með "rislítil snubbótt nef" ekki að mæta á svæðið? Og af því að fólk með "sléttari andlit" eru....HVAÐ?
Hættulegri þegar þau hnerra? Því vírusar og sýklar þurfa að fara mun styttri leið, til að komast út í umhverfið, en hjá stórnefjuðum?
Hægt að ruglast á þeim og íðilfögrum styttum af Maríu, Jósef og Jesú í klaustrum þeirra?
Andlitin svo slétt og "griplítil", að þau geta hreinlega "dottið af þeim" af fögnuði yfir heilagleika Athos og Athosbúa? Og þá allt í tjóni, sjúkrabílar, þyrlur, blóðgums og vesen, þá "sléttandlitar" mæta á Athos?!
Nei, bara svona spyr.
Getur húsfreyja fengið að sjá myndir af fólki, er dæmt hefur verið með of "slétt andlit" til að komast upp á heilagasta tind Athos? Þætti henni merkilegt að berja slíkt augum, því hún man ekki eftir að hafa séð fólk með algjörlega "slétt andlit"! Börn og fólk með fallega slétta húð, smávaxin nef og smáfrítt, jú, jú. En ENGAN með "alveg slétt andlit"!
Ekki það að húsfreyja hafi hug á að sækja fjallið Athos heim, sei, sei nei. Þykir henni best að leyfa rétttrúaða karlpeningi þessum, að hafa sitt fjall til einkaafnota. Þykir henni þetta sérviskulegt og furðulegt, en eigi að síður skondið.
Alltaf gaman að vita af "furðulegum uppákomum" í henni veröld.
Þúsund ára gamalt kvennabann brotið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ég held alveg örugglega að með "sléttu andliti" sé verið að meina skegglaust...:)
Dísa (IP-tala skráð) 27.5.2008 kl. 20:52
Þakka þetta, Dísa. Útskýrir ýmislegt. Ætli menn verði þá að safna skeggi til að fá að vísitera Athosfjall og klaustur þess, hafi þeir verið skegglausir áður?
Sigríður Sigurðardóttir, 27.5.2008 kl. 21:37
Sigrún Óskars, 28.5.2008 kl. 10:34
Heiður Helgadóttir, 28.5.2008 kl. 12:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.