12.5.2008 | 21:19
Hvernig er rassinn......
.....á mér í þessum"
"Flottur. En passa þessar á mig? Númer hvað eru þær"?
"Á ekki hrinda mér...þessar eru ekki að gera sig...of litlar"
"OF LITLAR! Þú sem passar í ALLAR buxur! Hvaða stærð er þetta? Númer 25!!!
Hver passar eiginlega í gallabuxur númer 25"?
"Eruð þið að verða búnar...hvenær kemst ég eiginlega að"??
Búningsklefinn skalf, nötraði og hristist í Perlunni. Húsfreyja stóð angistarfull fyrir framan, og beið þess að þilin brotnuðu, tjöldin rifnuðu eða einhver af nánustu ættingjum hennar dyttu fram á gólf, hálfnaktir. Systir í Eyjum, systir í Þorlákshöfn og systurdóttir (tvítug) voru allar inn í mátunarklefanum með einhvern helv.... helling af gallabuxum og öðrum flíkum. Af og til birtist rauður kúlubotninn á systur í Eyjum, út í þunnt hvítt tjaldið, stunur og dæs, fliss og hlátur.
Það var löng biðröð fyrir framan mátunarklefana þrjá, og fólkið mændi allt á tjaldið fyrir klefa ástvina húsfreyju. Húsfreyja fór fremst úr röðinni, blístraði, þóttist sjá eitthvað afar spennandi á rekka í fjærsta horni gallabuxnakróksins, og rölti þangað.
Skömmu síðar mættu systur, húsfreyja komin með gallabuxurnar sem hún ætlaði að máta upp á öxl.
"Heyrðu, hvíslaði systir úr Þorlákshöfn að húsfreyju, það fer enginn inn í hornklefann og hann er galtómur"!
Húsfreyja rölti einbeitt að mátunarklefanum, og viti menn tvær raðir fyrir framan sinn hvorn klefann, en enginn fyrir framan þann þriðja. Húsfreyja rölti fram hjá sirka 25 manns og beint inn í tóman klefann. Mátaði. Gallabuxurnar smellpössuðu. Gleði!
Fékk eitruð augnaráð er hún kom út aftur, frá "bíðendum". Húsfreyja glotti og sagði snaggaralega "það er enginn dauður hér inni, og vel hægt að brúka klefann til að máta". Tvær konur fremst í biðröðunum sáu húmorinn, og glottu til húsfreyju.
Húsfreyja og ástvinir versluðu svo buxur, boli, peysur og skó hræbillegt, og komu sér út réttum 90 mínútum eftir að þær höfðu komið inn. Skelltum okkur í Lyfju og versluðum linsudót og "sólbrúnkuvítamín" ala nýjustu upplýsingar frá systur í Þorlákshöfn, og brunuðum heim.
Þar bóndi húsfreyju að halda upp á þann fertugasta í "hálftíræðisafmælinu" sínu, með Heimi, múttu húsfreyju og systra og átta börnum á aldrinum 2-9 ára. BRJÁLAÐ STUÐ.
Alli Elí hress að vanda. Plataði systur í Þorlákshöfn til að kaupa bland í poka handa sér. En svo var peyjinn á hlaupum úti, varð eitthvað brátt og "pissaði í nammipokann". Bauð húsfreyju svo að sækja pokann, og koma með hann inn og sýna henni. Húsfreyja sagði það "algjörlega óþarft".
Var svo litla liðið á útopnu í klettapríli og róluvallarleikjum, á milli þess sem þau skelltu sér að afmælisborðinu og snöfluðu í sig góðmetinu. Aron fann að vísu tóma "plasteiturbrúsa" hist og her í hverfinu, en þeir fóru allir í ruslið.
Kötturinn LAGÐI sig.......inni í svefnherbergi.
Athugasemdir
Hehe... það er bara slatti gaman að versla með ykkur!
Kristín Henný Moritz, 12.5.2008 kl. 23:38
Slatti!!? Nei, "myljandi"!
Sigríður Sigurðardóttir, 14.5.2008 kl. 17:53
já já en þetta hefði ekki tekist nema af því að eiturefna aroni tókst að gera klappirnar hreinar....allt sótthreinsað hjá peijanum ....og ég komst heim með réttar buxur haleluja..hef ekki keypt mér föt í tíu ár....kv.árný
arný (IP-tala skráð) 14.5.2008 kl. 19:21
Til lukku með "nýju buxurnar", systir....við endurtökum svo leikinn eftir 10 ár.
Sigríður Sigurðardóttir, 14.5.2008 kl. 19:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.