1.5.2008 | 13:26
Blessað vatnið.
Sú var tíð að húsfreyja bjó í gömlu húsi er Eiðar, hét. Var húsfreyja þá lítil skotta, á harða hlaupum allan liðlangan daginn. Sækti að henni þorsti af hlaupum þessu og skoppi, var oft erfitt um vik að svala þorstanum. Enginn var ísskápurinn til í aldraða húsi þessu, enginn vaskur og "ekkert rennandi vatn".
"Maaaamma" orgaði þá litla skottan, í eldhúsdyrunum, "dekka vatn"! Og kom þá móðirin oftast nær hlaupandi, eða afinn höktandi við staf og skottann tekin úr skóm, og dregin inn í eldhús. Þar sett við stóra eldhúsborðið, með rauðköflótta dúknum, og sagt að bíða meðan vatnsmálin væru græjuð.
Í einu horninu í eldhúsinu fyrir ofan langa eldhúsborðið, stóð nefnilega út úr veggnum, ægilega voldug og kolgræn "vatnsdæla", með hálfmeterslöngu handfangi. Sú var sko ekkert lamb að leika sér við. Það hafði litla 4 ára skottan margreynt. Mörgum sinnum reynt að dæla sjálf vatni í glas handa sér, klemmt sig illilega á dæluófétinu við áreynsluna, en aldrei fengið svo mikið sem deigan dropa úr henni. Reyndar skellt slatta af vatnsglösum í gólfið við brasið, og brotið í þúsund mola og fengið bágt fyrir hjá fullorðna fólkinu.
Og þar sem litla skottan sat og beið óþolinmóð eftir vatnsglasinu sínu, fannst henni handfangið líkjast tröllauknu nefi á dælunni og rauði þéttihringurinn gat svo gott sem verið "illilegt auga"!
"Því í ósköpunum var dælunni svo illa við skottuna litlu, og svo hrikalega nísk á vatnið sitt góða"?
En afinn mætti nú með græna stóra vaskafatið, sem notað var undir dæluna, þá vaskað var upp eftir matinn, og skellti því á sinn stað. Móðirinn hafði lokið príli sínu upp í háan skáp, og kom með stóra glervatnskönnu. "Iss, hugsaði skottan, ég þarf bara eitt vatnsglas, ekki stóra könnu". En múttan setti vatnskönnuna ofan í vaskafatið, stóra, græna. Afinn baukaði eitthvað við dæluna, raulaði vísubrot fyrir munni sér....skottan sperrti eyrun til að reyna að nema "galdravísu" þessa sem ætíð virtist tryggja "tært ískalt vatnsrennsli" úr rauðeygða grænskrímslinu..."þar sem að glóa gullin blóm...hmhuhmm.. heitan koss" var það eina sem skottan náði. Afinn tók nú í handfangið, smellti því þrisvar snöggt niður, og svo þétt og ákveðið og yndislegt ískalt brunnavatnið tók að renna í stóru vatnskönnuna.
Stóreyg horfði skottan á afann fremja "galdra" þessa, þar til kannan var orðin full. Þá loks kom móðirin með könnuna á borðið, vatnsglas, og skottan fékk þorsta sínu svalað. Vaskafatið græna tók við því sem umfram rann, við síðusta pump hjá afanum, og málið var afgreitt.
Skottan var rasandi á veseni þessu sem fylgdi einu vatnsglasi. Og þar sem hún var "sjálfstæð ung 4 ára kona" sem ekkert var ómögulegt, og hljóp hraðar en vindurinn, þá fór hún á hverjum morgni á stúfana, og reyndi að koma einhverju viti í níska dæluófétið.
VATN skyldi "rauðeygða grænskrímslið" láta skottuna fá, með góðu eða illu. Einn sumarmorguninn af mörgum fyrir klukkan sjö þá aðrir sváfu, stóð hún svo þess albúin, að nú skyldi hún ekki gefast upp, skottan, fyrr en dælan gæfi vatn. Búin að skella græna vaskafatinu undir, en vatnskannan var fjarri góðu gamni, því hún var allt of hátt uppi fyrir fjögra ára stutta handleggi. "En skítt með það, hugsaði skottan, vaskafatið dygði vel". Hún klifraði upp á langa eldhúsborð, baukaði við dæluna eins og hún hafði séð afa gera, og raulaði ..."þar sem að glóa gullin blóm, þú geefur heitan koss"! Hafði loks náð "megninu af galdravísu afa", og nú skyldi ekkert klikka.
"Pumpa þrisvar sinnum snöggt, til að losa loftið" hafði hún heyrt afa segja gestkomandi daginn áður, "og svo bara þétt og rólega". Skottan pumpaði þrisvar sinnum snöggt, og kíkti upp í loftið til að athuga hvort "loftið á eldhúsinu" hefði ekki losnað. Neipp!! "Hmmmm... kannski átti loftið bara að losna smá, og festast srax aftur svo það dytti ekki niður" hugsaði skottan. Hún dæsti, "þetta var nú meiri "nornamaskínan" þessi dæla, að geta flækt eldhúsloftinu inn í málið, bara fyrir smá vatnssopa".
"Jæja, þétt og rólega, kom næst". Skottan lagðist á dæluna af öllu afli, því hún vissi sem var að, móðirin kvartaði oft um hve stíft væri að dæla vatninu upp úr brunninum.
FRUSS!! SPLASS! SVÚSSSS! KRASS!
Skottan skall utan í vegginn, þega vatnið spýttist af krafti úr "grænskrímslinu". Vaskafatið þeyttist undan vatnskraftinum langt út á eldhúsgólf og undir kolaeldavélina. Vatnið frussaðist upp á skottuna, á borðið og niður á gólf!
Ooooooorrrrg! Skottan var skelfingu lostin, og áreiðanlega með "fossblóð" á hnakkanum eftir að hafa skollið illilega utan í eldhúsvegginn. Hún skellti sér upp á "háa sé" í orginu, og það svínvirkaði. Skelfingulostnir fáklæddir foreldrar með afann á hælunum birtust í eldhúsinu. Skottan þreif hendi um hnakka sinn, ekkert blóð! En þá kom: "Ég eeeer BLAUT, samt söng ég "þar sem að glóa gullin blóm"....ooorrrgggg"!
Fullorðna fólkið botnaði lengi vel ekki neitt í neinu. Skottan rennandi blaut og háorgandi um "gullin blóm" uppi á borði, allt á floti í eldhúsinu og græna vaskafatið fannst hvergi.
Loks þá skottan var komin í þurr föt, búin að fá "fullt vatnsglas" að drekka, gat hún sagt hinum fullorðnu frá ógurlegum bardaga sínum við dæluófétið, og grét svolítið meira yfir ósigri sínum og hnakkakúlu.
Alltaf var það segin saga með karlpeningin á heimilinu, þeir veinuðu af hlátri yfir óförum skottunnar, en múttan kyssti og snýtti stelpunni sinni, og sagði þetta allt myndi batna og gróa áður en hún gifti sig. Skottan ullaði framan í karlana, knúsaði múttu sína og hljóp út að leika sér. Reyndi hún aldrei framar að eiga við "rauðeygða grænskrímslið", sem lúrði á vatninu í horninu í eldhúsinu á Eiðum.
Vaskafatið fannst svo seinna um morgunin, aðeins bráðinn á því barmurinn öðru megin af hitanum undir kolavélinni, en annars í fínu lagi. Var vaskað upp í því í heilt ár enn, en þá flutti skottan með foreldrunum og afanum í nýja húsið í Grænuhlíðinni. Þar sem skottan sat daglangt hugfangin við "vaska" og horfði á "rennandi" vatnið koma úr krönunum, bara við einn léttan kranasnúning. Notuðum að vísu enn brunnavatn, en nú áttum við 2 brunna. Einn með köldu vatni og annan fyrir heita vatnið. Og fullkomin rafdæla sá um að flytja vatnið í kranana, svo nú þurfti bara að skrúfa frá.
Og 1968 kom blessað vatnið eftir leiðslu ofan af landi til okkar Eyjamanna. Þá þurrkuðu flestir Eyjamenn brunnana sína upp, og nýttu þá í geymslur og vinnuherbergi.
Skottan varð alsæl með vatnsmálin eftir búferlaflutningin, en aldrei hefur hún gleymt sínum forna fjanda "grænu vatnsdælunni" á Eiðum, enda ógift ennþá.
Tímamót fyrir Flateyinga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ósköp er nú gott með svona nýmóðins þægindi eins og vatn í krönum
Heiður Helgadóttir, 1.5.2008 kl. 13:49
Ó já, vatnsburður,dæluvesen og vatnssöfnun í brunna að mestu fyrir bí, hér í hinum vestræna heimi, sem betur fer. Og alltaf er það best og mest svalandi íslenska kalda vatnið.
Sigríður Sigurðardóttir, 1.5.2008 kl. 14:21
Ojá svona var þetta hjá sumum á þessum tíma. En góður var vatnssopinn.
Merkilegt nokk, ég er svo mikið búin að hugsa um hann afa þinn undanfarið.
Kristín Magnúsdóttir, 1.5.2008 kl. 20:52
*knús*
Kristín Henný Moritz, 1.5.2008 kl. 21:15
Jamm, vinkona. var einhvern veginn ekki sama bragðið af vatninu ofan af landi. Var "sona hálf bragðlaust".
Takk fyrir, afmælisskvísa. Og knús til þín aftur.
Sigríður Sigurðardóttir, 2.5.2008 kl. 08:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.