27.4.2008 | 12:15
Johnsen á göngu inn í kærumál?
Las grein Árna Johnsen, og verð að viðurkenna eftir lesturinn, að ég skil ekki hví Gunnar Gunnarsson aðstoðarvegamálastjóri ætlar að kæra Árna. Eins og alþjóð veit er Johnsen sérlegur áhugamaður um gangnagerð milli lands og Eyja, og virðist reyndar ekkert annað sjá, í stöðunnni í samgöngumálum Eyjamanna, nema göng. Hefur þar með óbilandi áhuga á að jarðgangnagerð verði rannsökuð og skoðuð niður í kjölinn þar á slóðum, og vill fá raunsannar niðurstöður, bæði hvað varðar jarðvísindi og kostnað.
Sjálf hef ég nánast ekkert heyrt af rannsóknum. Nema kostnaðartölum er fleygt til og frá í fjölmiðlum, og virðast þær ýmist hækka eða lækka, svona svipað eins og sjávarföllinn. Og eitthvað heyrði ég frá einum jarðvísindamanni, erlendum, fyrir nokkru, að þetta væri algerlega út í hött. Var samt einhver spurning á hverju hann byggði þessar skoðanir sínar. Og síðan ekki söguna meir. Svo ég get skilið að Johnsen sé mikið niðri fyrir. En að hann hafi verið ærumeiðandi eða með þrælslegt skítkast í garð Gunnars, get ég ekki merkt á grein hans.
Hitt er annað mál, að eldgos nánast "út í garði" heima hjá mér 1973, þá ég var 12 ára gömul, hefur ekki styrkt mig í þeirri trú að göng milli lands og Eyja séu góður kostur. Síður en svo. Hef ég mestar áhyggjur af því, að jarðvísindamenn og gangnagrafarar lendi á einni "velvolgri" sprungu í berginu í leit sinni að góðu gangnastæði, og BÚMM! Ókeypis ferð fyrir gangnagrafara og jarðvísindamenn beint upp í "Sumarlandið".
En hver veit, kannski að jarðvísindamenn finni einhverja háleynilega, örugga leið í gegnum bergið upp á land. Aldrei að vita. Þá verða "Johnsengöngin" að veruleika. HALLELÚJA.
Ætlar að kæra Árna Johnsen | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Mér fannst hugmyndin um göng til eyja alveg snargalin, hreinlega alger bilun, en ég er á annarri skoðun í dag, það er verið að sprengja göng víðsvegar um landið og það væri þjóðhagslega hagkvæmt að gera göng til eyja með eða án vegatolla. Til dæmis myndi Ríkið spara mörg hundruð milljónir á ári með því að leggja niður Herjólf, hann er rekinn af Samskipum með styrk frá vegagerðinni, aldrei væri ófært til eyja, leiðslur fyrir vatn, rafmagn og internet þarf ekki lengur að liggja í sjó og við það sparast dýrt viðhald(ég tala nú ekki um öryggið til eyjamanna) og ekki þarf lengur að hafa áhyggjur af því að togskip trolli yfir þessar lagnir þá sparar útgerð olíu og svo mætti lengi telja. Ég skaut því að á minni færslu að þó svo að þessi göng myndu kosta 35 milljarða þá væri það samt hagkvæmt en í dag held ég að þó svo þessi göng kæmu til með að kosta 50 milljarða þá væri það samt hagstæðara en að byggja 1stk höfn með varnargörðum, 1stk skipaferju og þurfa að eyða svo og svo mikið í viðhald á þessu öllu + að þurfa að borga einhverju fyrirtæki að halda þessu við, ef göngin kæmu þá myndi ríkið halda þeim pening eftir hjá sér.
Sævar Einarsson, 27.4.2008 kl. 13:52
innlitskvitt á sólardegi ;)
Guðrún Jóhannesdóttir, 27.4.2008 kl. 16:46
Sammála þér, Sævarinn, að göng yrðu hagkvæmasta lausnin fyrir Eyjamenn. Verð að viðurkenna, að ég hef bara ekki trú á að gott berg til gangnagerða finnist í kringum Eyjar. En "ef" svo heppilega vildi til, að það finndist, þá styð ég Eyjamenn heilshugar í gerð gangna upp á land. Svo ég er sammála Johnsen, með að jarðvísindamenn verði að kanna svæðið vel og vandlega. En að þeir finni gott og traust berg......nah, er svolítið svartsýn á það. En auðvitað sjálfsagt að kanna málið!
Kærar þakkir fyrir innlitið.
Og sólarkveðjur til þín, Guðrún.
Sigríður Sigurðardóttir, 27.4.2008 kl. 19:15
Jú jú mikil ósköp göng er góð lausn. Og mundu eflaust gefa af sér eitthvað alveg nýtt fyrir Eyjamenn, eitthvað sem engum dettur í hug í dag. En ég er dálítið efins um að bergið þarna í því neðra sé nógu kalt og að mönnum takist þetta án þess að lenda á eldgos-eitthvað...
Kristín Magnúsdóttir, 27.4.2008 kl. 20:40
Sérðu það fyrir þér, vinkona, að við "þorum" að aka eftir jarðgöngum alla leið til Eyja? Ef örugg leið finnst í gegnum bergið upp á land, er það gott mál fyrir Eyjamenn, annað mál að við sem lentum í gosi, þori að nota þau!!!!
Sigríður Sigurðardóttir, 28.4.2008 kl. 13:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.