11.4.2008 | 21:15
En framhaldið...
Húsfreyja gekk hikandi inn í myrkan bakgarðinn. Vindurinn hvíslaði í trjánum og það skrjáfaði í dauðum laufblöðum undir fótum hennar. Við endann á garðinum var stórt, dökkt járnhlið og...húsfreyja missti úr 3 hjartaslög og var næstum hnigin niður af hræðslu. Hávaxin dökk vera stóð rétt fyrir utan hliðið. Aaaaaaarrrgggh....DRACULA!!!
"Sigga", sá ungi var kominn aftur. "Þetta er næturvörðurinn, hann ætlar að hleypa okkur út"!
"Yeah, right", hugsaði húsfreyja í arga panikk, "Dracula greifi bísna flinkur að dulbúa sig"! En fór samt af stað á eftir þeim unga, þess fullviss að verða "bitinn á háls" í hliðinu, og þurfa svo að mæta heim með "tóman hægri handlegginn af blóði" og eitthvað smávegis gutlandi í þeim vinstri! Það ískraði draugalega í hliðinu...úúúú, en merkilegt nokk, húsfreyja slapp í gegn með óbitinn háls og alla sína 5 lítra af blóði. Sá skuggalegi reyndist spánskur, með yfivaraskegg og mjög kurteis. Gleði! Húsfreyja varpaði öndinn léttar og fylgdi þeim unga eftir inn á litla skrifstofu. Þar ung spönsk kona , sem hann bað að panta fyrir okkur leigubíl. Ekki málið, nema allt fór í mergjaða flækju, er hann bað hana að senda okkur svo annan taxi á sjúkrahúsið, þangað sem för okkar var heitið, klukkan 5:30. Sú spánska fékk undarlegan glampa í augun, sem minnti húsfreyju grunsamlega á tæra vatnslaug...galtóma! En sagði samt "si, si, senor"! Við út að bíða. Fyrrum "Dracula" fylgdist áhyggjufullur með okkur, frá dyragættinni. "Nú hefur eitthvað misskilist" sagði húsfreyja við þann unga. Og sei sei, jú. Sú spánska með "vatnslaugaraugun" ætlaði að hringja á leigubíl fyrir okkur upp á sjúkrahús klukkan 5:30, en hafði alveg misst af því að verið var að ræða um TVO leigubíla. Sá ungi svældi sígarrettu sína í gríð og erg, alveg að fara á límingunum af stressi, og reyndi að fá eitthvað vit í leigubílamálin hjá þeirri spönsku. Hafðist fyrir rest, og bíllinn mætti á nóinu.
Bílstjórinn var hvíthært gamalmenni! Húsfreyja fékk kvíðahnúta í magann. Daginn áður hafði annað hvíthært gamalmenni gert heiðarlega tilraun til að DREPA húsfreyju. Sá hafði ekið henni frá Amerísku ströndinni til Santa Cruz á 130-140 kílómetra hraða! Húsfreyja hélt daga sína talda, er hann svingsaði á vælandi bremsum á milli akreina, og ríghélt sér í hurðarhúninn svo hún flengdist ekki til og frá í bílnum. En lifandi komst hún frá þessari ógurlegu raun, og greiddi þeim hvíthærða heilar fimm evrur í þjórfé, og sem þakklætisvott fyrir að hafa leyft sér að halda lífi. Og nú var annað hvíthært gamalmenni mætt. HALLELÚJA! Húsfreyja fór með hljóða bæn, og viti menn sá gamli var bara spakur og einstaklega spurull og vinalegur. Eini spánverjinn sem talaði ensku í Tenerife-ferð húsfreyju, og hann spurði unga manni spjörunum úr, um óléttu konuna hans, sem lá á sjúkrahúsinu.
Við sjúkrahúsinnganginn tók vígalegur öryggisvörðu á móti okkur. Vesen. Vegabréfssýning. Hringingar upp á sjúkrahús og nafn óléttu konu stafað...ALFA, BRAVO,GAMMA osfr......! Síðast tíu mínúta eldheitar umræður bílstjóra og varðar um óléttu konu og alla hennar sjúkrasögu, hvar best væri að leggja leigubílnum er hún yfirgæfi sjúkrahúsið, stríðsmálin fyrir botni Miðjarðarhafs leyst og veðrið síðustu daga rakkað niður. Eða það ímyndaði húsfreyja sér að þeir væru að ræða, eftir handarpati og áherslum að dæma.
Loks ekið upp að starfsmannadyrum. Þar 3 konur í hvítum fötum að reykja. Bílstjóri vippaði sér út. Eldheitar umræður milli þeirra fjögurra í tíu mínútur um óléttu konuna, hvar best væri að leggja leigubílnum er hún yfirgæfi pleisið, ekkisens rigninguna síðustu daga og fundin lausn á ástandinu í Darfur. Ungi maðurinn og húsfreyja gengu frá því, að fá leigubíl eftir hálfa klukkustund við bílstjóra, og fylgdu reykingakonunum þremur um rangala og upp með lyftu. Eftir löngum gangi inn á deild með einni reykingakonu. Við vaktina á deildinni eldheitar umræður við tvo hjúkrunarfræðinga um óléttu konuna, staðsetningu leigubílsins, forsetakosningarnar í Ameríku (SVEI) og skrattans veðráttuna í Santa Cruz. Eða það ímyndaði húsfreyja sér að þau væru að...osfr.......
Loks komin inn á stofu til óléttu konu. Hún klæddi sig, og ungi maðurinn fór og ræddi í 10 "eldheitar" mínútur við hjúkkurnar um brottför eiginkonu sinnar af sjúkrahúsinu, lyfjatöku, fá skýrslu eiginkonu og ræða STAÐSETNINGU LEIGUBÍLSINS! "Mamma mia", hugsaði húsfreyja, "ég vildi ekki lenda í því að vinna hér, og fá inn sjúkling í hjartastoppi"! "Sjúklingurinn ætti aldrei neinn sjens"! "Væri eins gott að renna honum beint í líkhúsið"!
Að lokum mætti spönsk kona með hjólastól, og ók eiginkonu niður í "rétt" andyri. Og upp í leigubíl komst þrenningin og út á flugvöll. Þar mátti sá ungi hlaupa um með óléttu konuna sína í hjólastól frá einum enda á flugstöðvarbyggingunni út í hinn. Allt út af pappírsvinnu fyrir öryggisverði og flugfélag. Húsfreyja var orðin talsvert stressuð, því eiginkona byrjaði aftur að leka legvatni. Hún vildi fá eiginkonu út í flugvél í lárétta stöðu með hraði. Eftir frekari ferðalög í 40 mínútur, vopnaleit, snarl, lyftur og strætóferðir komst ólétta konan loks í lárétta stöðu. -DÆS-
Húsfreyja tók að sér að fylgjast með eiginkonu á leiðinni heim til litla Fróns, og gefa henni lyfin sín. Og á Leifsstöð, rétt við dyrnar á rampinum, birtust tveir bjargvættir á sjúkrabíl, og fluttu óléttu frúna beina leið á meðgöngudeildina. Hún og litla krílið hennar við bestu heilsu þar í dag, síðast er húsfreyja spurði frétta. Hamingja.
En þannig liggur í öllu þessu veseni, að móðir óléttu konu er sjúkraliði á deild húsfreyju, og sjúkraliði bað húsfreyju að koma dóttur heim. Nú, húsfreyja og hennar familía græddu heilan dag lengur í sól og sumaryl á Tenerife, svo húsfreyja tók þessu vel, hvað annað. Og í ofanálag gáfu svo foreldrar óléttu konu húsfreyju yndislega gjöf í dag, fallegan þríkross. Húsfreyja alveg rasandi og hálfklökk...snökt.
En nóg að sinni. Njótið kvöldsins.
Athugasemdir
sagan þín er bæði fyndinn og spennandi (núna eftirá)þú ættir að íhuga að gefa hana út.
Sjúkraliðinn (IP-tala skráð) 12.4.2008 kl. 00:32
Frábært blogg , og bara nokkuð gaman að lesa þetta sona afþví að maður er kominn undir vermdarvæng íslands
Takk fyrir alla hjálpina...
Ungi maðurinn (IP-tala skráð) 12.4.2008 kl. 11:12
Jamm,vinkona. Maður sér alltaf húmorinn í brasinu eftir á, sérstaklega þegar allt fer vel. Já, kannski að ég verði bara rithöfundur á efri árum, þegar ég nenni ekki að hjúkkast lengur, og gefi allar sögurnar mínar út.
Sigríður Sigurðardóttir, 12.4.2008 kl. 11:27
Jamm, kæri vinur. Þú stóðst þig brilliant vel þarna í öllu "tungumálaleysinu".
Vona að kríli og konu heilsist áfram vel, og ég mun fylgjast spennt með, þá unginn kemur í heiminn.
Kær kveðja til ykkar allra.
Sigríður Sigurðardóttir, 12.4.2008 kl. 11:34
+++++++++
Solla Guðjóns, 13.4.2008 kl. 13:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.