21.3.2008 | 20:32
Aðvörunar þörf?
Hélt einhvern veginn að sagan hefði sannað það, að krossfestingar væru ekki mjög góðar fyrir heilsuna. Einn sá frægasti krossfesti í sögunni, Jesú sjálfur, lifði ekki krossfestinguna af. Heldur "dó" og var grafinn. Reis að vísu aftur upp frá dauðum, en það var að sjálfsögðu EINGÖNGU vegna þess, að hann var af "svo góðum ættum". En nú er það svo, að ekki eru allir svo vel í ætt settir, sem Jesú. Enda er hann hinn "eini sanni sonur" Guðs Biblíunnar, á meðan við hin erum meira svona náskyldir ættlerar, með foreldra af holdi og blóði hér á jörðu niðri. Sem vissulega María móðir Jesú var líka. En það gerir okkur hin samt ekki nema að "hálfsystkinum" Jesú, í besta falli. Svo hvernig Filippseyingum dettur þessi della í hug, er mér alveg hulið. Hér er heilt mannkyn af "hálfsystkinum" í bullandi tjóni og tjöru af og til, ef ekki allan sinn tíma hér á jörðu. Og svo ætlast Filippseyingar til þess að Guð sé í "stórbjörgunaraðgerðum" akkúrat þar um hverja einustu Páska, ár eftir ár.
Er þetta nú ekki einum of mikil tilætlunarsemi, hjá þeim Filippseysku? Hvað með alla sem stríðsherrarnir eru að murka lífið úr, í hinum ýmsu löndum jarðar. Hvað með hungruðu börn jarðarinnar og þau veiku? Og þá sem hætta lífi og limum daglega, við það eitt að sinna störfum sínum? (Þori varla að nefna þá, sem fara sér að voða uppi á fjöllum á litla Fróni, næstum hverja Páska.) Eins og það sé "ekki alltaf brjálað" að gera hjá Guði, og allri hans englahersveit, þó menn séu ekki að krossfesta sig að ónauðsynju.
Man ekki eftir því, að hvatt sé til þess af Jesú eða einhverjum spámanninum í Biblíunni, að láta krossfesta sig reglulega. Gott ef Jesú sjálfur bað ekki um að "þessi bikar yrði frá sér tekinn", ef þess væri nokkur kostur. Svo hvað eru menn að pæla á Filippseyjum? Mér er spurn!
Húsfreyja svo verið með Báruna og Svöluna á sínum snærum síðust 2 daga. Varð næstum úti í Húsdýragarðinum í gær, húsfreyja. Var dofinn upp á mið læri af kulda, fingarlaus með öllu og nefið logarautt með krónískum sultardropa. Skvísurnar tóku "ratleikinn" með stæl, börðu húsdýrin augu á spani, en dunduðu sér lengst í sjóræningjaskipum og úti á ísilögðum pollinum. Húsfreyja smellti af þeim myndum, þar til hún varð fingralaus, og skakklappaðist eftir þeim upp í turna og upp í sjóræningjaskip. Þær miskunuðu sig svo yfir húsfreyju eftir tveggja tíma hopp,skopp og span og létu múta sér inn í bíl með McDonaldshammara og Sushi. Varð húsfreyju til lífs, telur hún. Blessaður karlinn, hann McDonalds.
Í dag varð svo að skila sex páskaeggjum í Þorlákshöfn, sem húsfreyja hafði verslað fyrir systur sínar og börn þeirra. Þar tekið eitt skraf, spáð í spilin með Jóhönnu og stillt til friðar meðal sjömenningana af og til. Merkilegt, þetta með kompjúterinn. Er alls staðar mergjaður friðarspillir! Hér á heimili húsfreyju, er hún búin að koma sér upp "númerakerfi" eins og víða finnst í lyfjaverslunum og bönkum. Verst að hún er alltaf "síðust" að taka númer. Jamm, en svona er lífið.
Svo að lokum ein góð sem afi hafði dálæti á:
Syngdu um ástir, syngdu um vor
og sumarblómin.
Svo við heyrum unaðsóminn
eftir löngu dáinn róminn.
Herdís Andrésdóttir.
Varað við krossfestingu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Já MacDonalds er guðsgjöf fyrir þreytt og svángt fólk á öllum öldrum
Heiður Helgadóttir, 21.3.2008 kl. 22:23
Það vantar ekki húmorinn í færsluna þína - skemmtilegt aflestrar!
Sigrún Óskars, 22.3.2008 kl. 20:36
Jamm, Heidi en reiknaði samt ekki með að McDonalds bjargaði húsfreyjum frá frostbiti, enn þann dag í dag.
Knús á þig, móðir.
Þakka, Sigrún. Sjálfsagt erft "húmorískt gen" frá báðum foreldrum, og er ekki viðbjargandi.
Sigríður Sigurðardóttir, 22.3.2008 kl. 21:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.