4.3.2008 | 17:26
Máske þeim hafi eitthvað farið fram...
...jarðeðlisfræðingunum með gosspárnar.
Man enn hvað var hamrað í mig í barnaskólanum í Vestmannaeyjum, hér á árum áður.
"HELGAFELL ER LÖNGU ÚTBRUNNIÐ ELDFJALL, SEM ALDREI MUN GJÓSA MEIR"
Og viti menn. Þegar ég var rúmlega 12 ára gömul, gaus nánast í bakgarðinum heima hjá mér! Hófst gosið í sprungu út frá öxl gamla "útbrunna Helgafells"! Hefði verið gott, ef eitthvað hefði verið búið að vara okkur Eyjamenn við, áður. Maður hefði kannski verið búinn að pakka í smá "neyðartösku", svona ef það ólíklega gerðist. En í staðinn, fórum við Eyjamenn með fötin sem við höfðum utan á okkur um borð í ískalda fiskibáta, um hánótt og sigldum í brælu upp á land. Sex klukkutíma veltingur í kulda, hungri og sjóveiki. Það eina sem við höfðum matarkyns, ég og mín fimm manna fjölskylda, var eitt epli. Vorum búin með það, áður en við fórum um borð í Danska Pétur. Martraðarnótt og brennimerkt í minningar mínar.
En er nú að lesa bókina "Frjáls", eftir Ayaan Hirsi Ali í þýðingu Árna Snævarrs. Er rétt búin með 3 kafla, svo ég á mikið ólesið. Samt strax farnar að sitja í mér setningar úr bókinni. Þessi er úr formálanum:
Þær biðja en í stað þess að lúta höfði, líta þær upp til Allah með orði Kóransins flúruð á
hörund sitt. Þær segja Honum í hreinskilni að ef undirgefni við Hann færi þeim slíka eymd
án þess að frá Honum heyrist hósti né stuna, muni þær láta undirgefni lönd og leið.
Hlakka til að lesa meira.
Sú stutta er svo búin að syngja lög fyrir húsfreyju, sem hún fékk prentuð á blöð í skólanum. Er farin að syngja með Benedikt Búálfi.
Tinnan, fósturdóttir, er í menningarsjokki í Kína. Salerni "óþekkt fyrirbæri" í borg þeirri er hún gisti, en gamla, góða "holan" í gólfinu prýðir baðherbergi íbúðar hennar. Fiðrildi og stórar pöddur af ýmsu tagi gera henni líka lífið leitt, enda stúlkan skordýrahrædd með afbrigðum. Sjónvarp er ekkert, engin talva og hún tók lítið af bókum eða blöðum með sér til afþreyingar....ef eitthvað. Vona bara að þetta jafni sig. Er seigari en hún heldur sjálf. Lifði af "leðurblökuinnrás" í herbergi sitt á Indlandi, svo henni er ekki alls varnað. Verst að hún er ein þarna úti. Engin önnur stúlka sem býr með henni. Og þó hún hafi snert af félagsfælni eins og pabbinn, þykir henni slæmt að vera alein. Svo við fáum "símhringingar" upp á líf og dauða af og til, frá Kína. Jamm, sagði henni að fá heimilisfangið sitt niðurskrifað, svo hægt væri að senda henni, CD-diska, blöð, bækur, harðfisk og íslenskt smjör. En húsfreyja fer aldrei erlendis sjálf, nema með góðar bækur, blöð, harðfisk, smjör og Soyjamjólk í farteskinu.
Sú stutta þarf nauðsynlega í kompjúterinn.
Helmingslíkur á eldgosi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hef ekki lesið bók í mörg ár....fæ rétt svo að kíkja í moggan......hann er sko notaður í búðarleik.Tinna reddar sér.en hvernig er pabbinn.eitthvað að róast?
arny (IP-tala skráð) 4.3.2008 kl. 18:08
Blessaður Jón Frímann. Jú, sú er stúlkan! Vildi að hún hefði náð á þig, og fengið smá upplýsingar um "menningu" þeirra þarna í Kína, fyfir brottför. Hún er búin að kvarta yfir aðbúnaðinum, svo kannski að hún fái skárri íbúð! Hefur mestar áhyggjur af því að "eitthvað" komi skríðandi upp úr "holunni"!
Þakka innlitið.
Jæja, Mogginn er þó allavega hey í harðindum. Ekki fæ ég að lesa hann. Bara Fréttablaðið og 24 stundir af og til. Og jú, jú, bóndi er orðinn rór.
Sigríður Sigurðardóttir, 4.3.2008 kl. 18:35
Svona til þess að svara fyrstu línum þessa bloggs - þá já, það breytist allt - sífellt að koma nýjar kenningar. Það var það fyrsta sem kennarinn minn sagði okkur í náttúrufræðitíma, það að bók sem er tíu ára gömul er ónothæf (eða svo gott sem).
Birkir (IP-tala skráð) 4.3.2008 kl. 19:53
Já, Birkir, sem betur fer kemur nýrri og betri tækni með betri spár og kenningar. Og helmingslíkur á gosi, er stax betri aðvörun, en að fólk lifi á eldfjallaeyju í fölsku öryggi. Jamm, og þín náttúrufræðibók strax orðin úrelt....ætli ég gæti þá ekki selt mína á Þjóðminjasafnið!
Sigríður Sigurðardóttir, 4.3.2008 kl. 21:02
Jæja svo karlinn er að róast.......var að vona að þú kíktir í afslöppun til mín......
Stelpan á eftir að spjara sig.....ef ekki þá bara kemur hún heim.
Knús á þig óg litla söngfuglinn.
Solla Guðjóns, 5.3.2008 kl. 10:11
Sæll aftur Jón Frímann,
Held að borgin heiti "Guangzhou", og er einhverja 200 kílómetra leið frá Hong Kong, held ég að bóndi minn hafi sagt.
Já, já Sollan mín. Allt fallið í dúnalogn. Get komið í afslöppun til þín fyrir það.
Já, ég hef nú trú á skvísunni. Hún þarf bara að hafa meiri trú á sjálfri sér.
Knús til baka.
Sigríður Sigurðardóttir, 5.3.2008 kl. 11:39
Takk fyrir þetta, Jón.
Búin að prenta þetta út handa bóndanum.
Sigríður Sigurðardóttir, 5.3.2008 kl. 18:13
Ja hérna, endilega sendið dömunni harðfisk og smjör, litlu kinverjarnir eiga eftir að elska lyktina
Heiður Helgadóttir, 6.3.2008 kl. 10:18
Kostar of mikið, fyrst hún ætlar ekki að vera nema mánuð, Heidi. Heilar 12.000 kall að senda harðfisk með hraðsendingu, segir karlinn minn. En það hefði verið gaman að sjá svipinn á póstþjónustufólki þeirra þarna austur um, er anganinn af harðfiskinum slægi fyrir.
Sigríður Sigurðardóttir, 10.3.2008 kl. 17:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.