26.2.2008 | 18:08
Nú er það svart.
Húsfreyja fékk "Bændablaðið" með "24 stundum" í dag. Hún dundaði við það góðan part úr eftirmiðdegi að glugga þar í ýmsar greinar og kynningar. Og fylltist þvílíkri sótsvartri örvæntingu við lesturinn, að hálfa væri nóg.
Húsfreyja er sem sagt, ekki "vistvæn",langt því frá! Því síður lifir hún "umhverfisvænu lífi" eða bloggar á "vistvænar vefsíður" eða býr til vistvænar sápur úr nautatólg.
Hún stundar ekki "vatnsræktun" á ávöxtum og grænmeti eða valsar um í "náttúruvænum fatnaði" (hefur hreinlega ekki efni á slíkum lúxus). Og ekki kann hún að "framleiða bensín úr smjörkáli" eða öðru viðlíka "endurræktanlegu hráefni". Og húsfreyja hefur megna skömm á orðunum "lífrænn og ólífrænn", því það eru að hennar mati einhver ljótustu orð sem troðið hefur verið inn í íslenska tungu. Ef húsfreyja á að vera alveg hreinskilin, hlýtur hún því að teljast "dauðræn", umhverfishatandi og vistvond.
Ja, nú er það svart. Allt hægt að finna húsfreyju og hennar lifnaðarháttum til foráttu, samkvæmt hinu herlega "Bændablaði". Þó velur hún ávexti og grænmeti á sína matardiska (skiptir engu með andsk...ó- þetta eða líf- hitt) daglega, snæðir íslenska lambakjötið af bestu lyst en verður því miður að forðast mjólkurvörur sem eitur væru, vegna mataróþols. Jamm, ill eru örlög og grimm við lestur alvitra blaða. Einna verst þykir samt húsfreyju, að bændur skuli ekki taka sig saman, og kenna öllum almenningi þetta með að "rækta" sitt eigið BENSÍN. Það kæmi sér vel að kunna.
En svona huggun harmi í, þá fann húsfreyja grein eina, sem gladdi "hjarta" hennar óneitanlega. Samkvæmt fregn þessari er húsfreyja í bísna góðum málum, fyrir það eitt að eiga kött. Því eftir fréttinni að dæma, eru kattareigendur mun ólíklegri til þess að fá hjartaáfall, en aðrir. Kettir draga sum sé úr streytu hjá eigendum sínum.....um heil 30%.
Kannski að húsfreyja sætti sig þá við að vera svona "dauðræn" og vistvond, fyrst hún er með brilliant hraust og gott hjartalag.
Athugasemdir
Ég er líka svoldið svona "dauðræn"! Samt segist ég vera náttúruverndarsinni og verð brjáluð ef minnst er á álversbyggingu hér og þar. Ég ætti kanski að fara að líta í eigin barm og fara að leggja mitt að mörkum!
P.s. Ississ er komin með gifs númer 3. Hún er alveg ands... fær í að ná þessum vafningum af!
Kristín Henný Moritz, 27.2.2008 kl. 04:47
Hrikalegt ef við erum "dauðræna og vistvonda" familían á litla Fróni.
Aumingja Ississ. Vonndi að brotið grói vel á gifsi númer 3, svo hún geti aftur farið að steypa sér niður af þökum.
Sigríður Sigurðardóttir, 27.2.2008 kl. 17:42
Gifs númer 3. dugði í næstum því 12. tíma takk fyrir.... nýtt persónulegt met hjá henni!
Núna er það gifs númer 4.
Ég held að ég muni fá áfall þegar ég fæ reikninginn frá dýralækninum!
Kristín Henný Moritz, 28.2.2008 kl. 00:43
En er þetta ekki örugglega lífrænn köttur
Turetta Stefanía Tuborg, 28.2.2008 kl. 22:23
Ó vei! Ég er kannski búin að koma mér upp "lífrænum" ketti, Turetta Það væri þá aldeilis svaðalegt fyrir húsfreyju. En hún Branda mín, er allavega mjög "lifandi", áhugasöm um að rústa fínum koddum, og étur mat á við þrjá skólakrakka.
Henný skvís, ég mun fylgjast spennt með "örlögum" gifsa Ississ. Spurning að hætta að nota "vistvæn" efni í gifsið?
Sigríður Sigurðardóttir, 29.2.2008 kl. 12:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.