17.11.2007 | 22:11
Skaðræðið.
Bévítans skaðræðis föstudagur, dagurinn í gær. Tveir starfsmenn melduðu sig veika, og ég fékk engan til að koma á aukavakt, þó ég hringdi út um borg og bí. Við urðum því að setja í "ofurgír" þessar sex hræður sem mættu, og keyra morgunverkin í gegn af hörku. Hlaupa! Hlaupa! Hlaupa! Á hádegi hurfu tveir starfsmenn enn, heim á leið, og við fjórar sem eftir urðu, tættumst í bjöllusvörunum, upp í sjúkraþjálfun með öldungana, á salernið, vippuðum liðinu upp í rúm í lúrinn, fram úr aftur, í vinnustofuna og gáfum kaffi, kaffibrauð og allir fengu auðvitað lyfin sín frá hjúkkunni. Ég ýtti slatta af hjúkkustörfunum til hliðar, en náði þó því helsta, eins og að að skipta á sárum, sinna verkjakvörtunum og ná í nýju lyfjasendinguna. Öldungarnir okkar virtust "skynja" álagið og stressið í staffinu, og hringdu bjöllum í gríð og erg.....sumir bara til að spyrja hvað tímanum liði, aðrir komnir með "samúðar-stress-magakveisu með tilheyrandi steinsmugu", enn aðrir voru undirlagðir af óljósri vanlíðan. Öllu náðum við að redda ("Frónverska reddaragenið"), og 26 aldraðir Frónbúar voru bara nokkuð sælir með sig er við kvöddum...kúguppgefnar allar sex! Og ég skellti mér meira að segja smá rúnt með doktornum til tveggja skjólstæðinga minna, og lét hann redda sýkingu í augum og mergjaðri lungnabólgu í uppsiglingu.
Sá rúmið mitt í hillingum á heimleiðinni, og ætlaði aldeilis að renna mér beint þangað er heim kom. En sei, sei, nei! Sú stutta hafði aðrar hugmyndir um málið, og dreif nær "rænulausa" móður sína í búðarleik. Er nú "öreigi", en á einhven haug af "krakkadóti" ala Spaugstofumenn í kvöld!
Er svo á morgunvöktum yfir helgina, og er búin að raula af og til, 11 Búddískar möntrur, fara með 5 katólskar Maríubænir, Faðirvorið og sálminn "Allt er eins og blómstrið eina", ásamt þeirri einlægu bón og ósk til almættisins, að "ENGINN" starfsmanna minna verði veikur! Svínvirkaði fyrir daginn í dag! Ætla rétt að vona að þetta dugi fyrir daginn á morgun lika! Annars er ég í djúpum...........!
Athugasemdir
Ég skal fara með eina bæn Siggs mín.
Það er ógurlegt að vera með starfsfólk í lágmarki.Þá munar svo miklu um eina manneskju.Hvað þá tvær.
Eigðu góðan sunnudag.
Solla Guðjóns, 17.11.2007 kl. 23:03
Úfff!!!! Ég verð bara þreitt....Þetta er eins og að horfa á þátt af E.R Eða Grays Anatomy...he he he...Vona að morgundagurinn verði betri og stresslausari...Ansk frekja að verða svona veikur á vaktinni...he he he Knús á þig mín kæra
Elín Katrín Rúnarsdóttir. , 18.11.2007 kl. 00:18
Já, Sollan mín, og verst er að öldungarnir skynja stressið og asann á okkur, og verða óöruggir, sem aftur skilar sér í líkamlegri vanlíðan. Og þigg allar góðar bænir með þökkum, veitir ekki af!
Jamm, Ella mín, vantaði bara að einn heimilsmanna hjartabilaðist eða yrði hundveikur í einum hvínandi, þá hefði þetta verið E.R hjá okkur staffinu. En sluppum fyrir horn, engin bráð veikindi og ENGINN dó....ekki einu sinni staffið af álagi og þreytu. Knús til þín aftur!
Sigríður Sigurðardóttir, 18.11.2007 kl. 10:21
Ég get skilið að þið hafið verið stressuð, er svona erfitt að fá aukafólk.
Heiður Helgadóttir, 19.11.2007 kl. 18:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.