23.10.2007 | 17:49
Mjólkurbrúsaþjófnaður.
Skyldi þó ekki hafa verið hann "Bjössi á mjólkurbílnum"? Nei, alltaf slæmt þegar fólk finnur sig í því að stela og skemma fyrir öðrum. Ber ekki vott um góðan karakter.
Á mínu bernskuheimili áttum við tvo mjólkurbrúsa, sem afi minn tölti með, til hans Tobba á Kirkjubæ, og verslaði af honum mjólk. Annar var lítill fjögra eða fimm lítra brúsi, en hinn tók tíu lítra. Var afi bæklaður í mjöðmum, svo það tók ansi mikið á að sækja mjólk í þá báða í einu. Þó lét hann sig iðulega hafa það, gamli maðurinn. Var samanrekinn, þykkur um herðar og nautsterkur, afi. Man eftir því, að á sumrin var eingöngu sótt mjólk í minni brúsann, því enginn var ísskápurinn til að halda köldu, svo mjólkin var hengd út í forsælu, til að halda henni kaldri. En á veturna var alltaf sótt mjólk í báða brúsana. Var bara lítið peð á þessum árum, og fimm ára flutti ég í nýtt hús með glænýjum ísskáp, rennandi vatni, olíuupphitun og baðkari á baðherbegi. Þá lögðust einnig af ferðir afa með mjólkurbrúsana, því "hyrnur" fullar af mjólk fengust nú út í Kaupfélagi. En brúsana áttum við samt í mörg ár, og gott ef ég fékk ekki að "drullumalla" eina af mínum alræmdu drullukökum í litla brúsann eitt sinn. Og svo ræktaði ég í honum "Sóleyjar og Baldursbrár" eitt árið.
Hverjir stela mjólkurbrúsa? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Man vel eftir brúsunum, svo komu fernurnar.
Heiður Helgadóttir, 23.10.2007 kl. 22:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.