22.10.2007 | 21:17
Prestur í erfiðum gleraugnamálum.
"Já, hann er frábær prestur, og eftir að hann jarðaði mömmu, finnst mér enginn annar prestur standa sig eins vel við jarðarfarir og hann". Deildó átti varla nógu falleg orð til að lýsa áliti sínu á presti. "Og ekki nóg með það, að hann sé góður prestur" bætti ég við, "hann er stórskemmtileg persóna líka". "Manstu þegar hann mætti 3 mínútum fyrir minningarathöfn X, nánast "sjónlaus", því hann mætti með "tvenn" hundónýt gleraugu, sem hengu ekki á nefinu á honum"! Nú hlógum við allar stöllurnar þrjár í bílnum. Vorum á leið í jarðarför einnar góðrar vinkonu okkar af deildinni, og vorum við deildó að lýsa hrifningu okkar og samskiptum við prestinn er átti að jarðsyngja, fyrir þriðju konunni er vann á annari deild. Úti var rok og rigning, og við næstum hlupum inn í kirkjuna. Heilsuðum upp á ættingja og settumst svo stöllurnar þrjár, frekar aftarlega. Athöfnin hófst, virðuleg og falleg. Allt gekk vel framan af. En svo kom að minningarræðu sérans. Hann snaraði sér í púltið, smellti gleraugunum sínum á nef sér og hóf ræðuna. Var ekki búin að vera lengi að, þegar ég fékk snarpt olnbogaskot frá deildó. Ég leit á prest. Gleraugun höfðu sigið ískyggilega niður andlitið öðru megin, svo hann virtist vera steinhissa og á fjórða glasi
. Við deildó herptumst saman í sætum okkar, axlir okkar hristust og skulfu af innibyrgðum hlátri, og sú þriðja stundi hátt er hún reyndi að berja hláturinn niður. Með herkjum náðum við stjórn á okkur, og sérann hafði af stöku snarræði vippað gleraugum sínum svo lítið bar á aftur á réttan stað. Áfram hélt prestur, og allt virtist ætla að falla í ljúfa löð. En, ó okkur aumar. Nú runnu gleraugun öllu hraðar niður andlit hans en í fyrra skiptið. Sérann skrúfaði í snarhasti upp á andlit sér, bretti upp á nefið svo það líktist myglaðri smákartöflu, og tókst með naumindum að koma gleraugum aftur upp á nef sér. Ég veinaði inni mér af hlátri, deildó var orðin logarauð í framan af innibyrgðum hlátrinum og sú þriðja var í djúpum andköfum. Það sem eftir var af ræðu og athöfn lutum við þrjár höfði í auðmýkt, og gættum þess vandlega að líta hvorki á prest né hver á aðra
. Enda slæmt að verða stimplaðar "stórklikkaðar" í jarðarför, sérstaklega þegar nýbúið var að hrósa okkur fyrir góða umönnun vinkonu okkar. Eftir að hafa kastað kveðju á fólk eftir athöfnina, rétt mörðum við það út í bíl, þar sem við nánast lágum í krampa af hlátri. En ég veit að elskuleg nýjörðuð vinkona okkar, hefur eflaust kíkt á okkur þarna úr handanheimunum, og hlegið innilega að vandræðagangi okkar vegna "gleraugnamála" prests. Því hún var með húmorinn á tæru, blessunin, í lifanda lífi. En jarðaförin var yndisleg og falleg, það er ekki spurning. Er ekki lífið dásamlega skemmtilegt og skrítið....og fullt af óvæntum uppákomum?
Athugasemdir
Það er eitthvað við grafar þögn og presta sem fær hláturtaugina til að sprella eins og hún lifandi getur í okkur.....allt við þennslumörk
Solla Guðjóns, 22.10.2007 kl. 22:42
Já, svo sannarlega Sollan mín. En er lang pínlegast í jarðarför!
Sigríður Sigurðardóttir, 23.10.2007 kl. 12:54
Þú ert ekki ein um að hafa hlegið við jarðarför, ég hitti mann á Akureyri sem að var að koma úr, einmitt jarðarför, það var mikið hlegið sagði hann, en presturinn hafði sagt margar gamansögur af þeim látna, þannig að allir höfðu gaman að, sá sem að var jarðaður var vel liðinn maður, en hafði greinilega verið svolítið utan við sig.
Heiður Helgadóttir, 23.10.2007 kl. 15:01
Já, Heidi, það er oft myljandi gaman í kirkju. Og prestar hið skemmtilegasta fólk. Og gaman þegar ættingjar vilja minnast gleðinnar og gamansins líka við jarðsetningu.
Sigríður Sigurðardóttir, 23.10.2007 kl. 17:57
Ég man feiki vel eftir mjólkubrúsa árunum, svo komu fernurnar.
Heiður Helgadóttir, 23.10.2007 kl. 21:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.