Læknað með víni.

  Maðurinn á gjörgæsludeildinni, stofu 10, var myljandi fullur, var mér sagt.  En var líka að deyja, af slæmri tréspíraeitrun (methýl alcohol), ef hann fengi ekki nær hreinan vínanda í æð hið snarasta.  Hafði í ógáti drukkið tréspíra, og nú urðum við að bregðast hart við.  Hringdi í lyfjafræðing um miðja nótt og bað hann um nær hreinan spíra með hraði, og koma til mín upp á gjörgæslu STRAX.  Líf lægi við.  Maðurinn á stofu 10, söng hástöfum af og til, grét svolítið og kvartaði um hve dimmt væri orðið.  Lyfjafræðingurinn kom 20 mínútum síðar, í náttfötunum, með 6 lítra af nær hreinum spíra, og sagðist geta komið með meira á morgun.  Við súperkandidatinn drifum upp stóran æðalegg í manninn, og svo var "lyfið" sett af stað, beint í æð.  Við tók kapphlaup við tímann, nákvæmir útreikningar á magni í æð á hverri klukkustund, lífsmörk tekin stöðugt, útskilnaður mældur og efnagreindur.  Eftir 4 sólarhringa var ljóst orðið, að okkur hafði tekist að bjarga lífi mannsins, en okkur tókst ekki að bjarga augunum hans.  Þau voru orðin blind, skemmd af tréspíranum.  Maðurinn grét sjón sína, ekki orðin bláedrú er hann kvaddi gjörgæsluna, en feginleikin og gleðin í augu eiginkonu og barna hans var mikil.  Sonurinn sagði:  "Menn lifa góðu lífi þótt blindir séu, í dag".

  Man alltaf hve furðu lostin ég var, nýútskrifuð hjúkkan, að vera látin gefa nær hreinan vínanda beint í æð.  Og það á gjörgæsludeild.  En það fór ekkert á milli mála, læknarnir vissu sínu viti.  Líkaminn flýtti útskilnaði á tréspíranum, er sá hreini fór að renna inn í blóðið, og eituráhrif tréspírans urðu mun minni fyrir bragðið.  Þannig að vínandi sannaði fyrir mér sinn "lækningarmátt" í þessu tilviki.  Eru tvær hliðar á máli hverju....og stundum fleiri. 


mbl.is Læknar björguðu lífi manns með vodka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Júlíus Valsson

Góð saga. En hvaða ár var þetta? Þú talar nefnilega um "súperkandidat". Synd að sú starfsstétt skuli vera horfin eins og fleiri.

Júlíus Valsson, 10.10.2007 kl. 19:41

2 Smámynd: Sigríður Sigurðardóttir

  Takk fyrir það, Júlíus.  Var á Gjörgæslunni á Landakotsspítala...aha Landakotspítala þegar þar var ENN Gjörgæsludeild, á árunum ´85 til ´89.  Get ekki alveg nelgt þetta nákvæmlega niður, en 1987 ætti að vera nærri lagi....frekar en 1988.  En er ekki alveg viss.  Já, sammála þér.  Súperkandidatar voru brilliant starfstétt, og frábært að vinna með þeim mörgum.  Plús að þetta var mikill skóli fyrir þá að vera í súperkandidatsstöðu.

Sigríður Sigurðardóttir, 10.10.2007 kl. 20:01

3 Smámynd: Solla Guðjóns

Já góð saga sá alveg fyrir mér svona Sigga á Bráðavaktinni.....ég hélt alltaf að það væru miklar ýkjur í þáttum eins og Bráðavaktin..þar til ég lenti í því að verða bráðatilfelli sjálf.....og já þetta er heilmikill heimur innan sjúkrahúsana sem við þekkjum ekki.....

En það hefur alltaf þótt gott að hafa pelann á sér.

Solla Guðjóns, 10.10.2007 kl. 21:48

4 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

ja hérna. Ekki vissi ég þetta.

Jóna Á. Gísladóttir, 13.10.2007 kl. 10:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband