Meira um dauðann.

                           Dauðinn.

 

      Að deyja er eins og að smeygja sér

    úr þröngum skóm.

    Jafnvel þegar þið eruð dáin

    lifið þið enn.

    Þið hættið ekki að vera til eftir dauðann,

    það er aðeins blekking.

    Þið gangið lifandi gegnum dauðans dyr

    Og vitundin tekur engum breytingum.

    Þið farið ekki til undarlegs lands

    heldur lands lifandi veruleika

    þar sem þið haldið áfram að þroskast.

    .........

    Endurvakning geysilegrar lífsorku

    á sér stað innan við dyr dauðans.

    Þið eruð að fara úr

    útþynntri gerð lífsins,

    ef svo má að orði komast,

    inn í það sem mestu varðar,

    lífsorku upphafslegs veruleika.

    Ef unnt væri að líta dauðann

    sem fagurt, tært stöðuvatn,

    endurnýjandi og flæðandi,

    stykki vitundin með gleði

    út í það og synti

    á braut.

                     Bók Emmanúels (Pat Rodegast og Judith Stanton)

    Hef verið við andlátsbeð margra einstaklinga, og sú stund er alltaf sérstök, persónubundin og tilfinningaþrungin.  Merkilegast af öllu finnst mér þetta "óttaleysi" við dauðann, sem einkennir samlanda mína.  Þakka það helst trú okkar Frónbúa á líf eftir dauðann.  Meira segja ungt fólk að deyja úr krabbameini eða erfiðum sjúkdómum, sýndi iðulega þetta æðruleysi og ekki nokkurn vott um ótta.  Man eftir örfáum tilvikum, þar sem mikill ótti við dauðann var allsráðandi.  Einkennilegt að það voru oft hörkutólin mín, sem óttuðust mest dauðann.  Gamli sjóarinn sem trúði á eigið handafl og hyggjuvit og ekkert annað, unga íþróttakonan sem efaðist um allt hér á jörð nema eigin styrk, snjalli tölvufræðingurinn sem trúði eingöngu á það sem hann gat þreifað á og séð, svo nokkur dæmi séu tekin.  Þetta yndislega fólk barðist og byltist í ógnar glímutökum við dauðann.  Hélt í lífið fram á síðasta andardrátt, síðasta hjartaslag.  Voru erfiðustu andlát sem ég var viðstödd, og tættu alla er á horfðu og upplifðu, tilfinningalega.  Ástvinir þessara einstaklinga áttu sérstaklega erfitt, og oft fór jafn mikið af tíma mínum við andlátsbeðið í að hjálpa þeim, eins og að sinna þeim deyjandi og öllum hinum skjólstæðingunum mínum á deildinni minni. 

  Svo voru það allir hinir, sem TRÚÐU.  Þurftu ekki að vera hákristnir, heldur bara trúa á "líf eftir dauðann".  Þar var eins og að stíga út úr tíma og rúmi, að koma að sjúkrabeði þeirra síðustu daga og stundir þeirra.  Friður innra, bros á andliti þrátt fyrir verki og veikindi, gleði yfir því að "stríði" þeirra væri brátt lokið, en svo líka umhyggja og áhyggjur vegna þeirra er eftir lifðu.  Kerti fengu að loga, inni hjá þeim er það vildu, presturinn fenginn í bænastund ef viðkomandi óskaði þess og ástvinir sváfu í rúmi við hlið þess deyjandi síðustu daga og stundum vikur.  Er sá hluti af starfi mínu sem varpar mestri birtu inn í líf mitt, að hafa fengið að fylgja þessu fólki síðasta spölinn.  Er mín mesta gæfa í starfinu að hafa fengið að gegna því hlutverki.

  Þetta er hluti af mínu lífi í dag, þessi dýrmæta reynsla, og ég trúi svo sannarlega á líf eftir dauðann eftir að hafa fengið þessa innsýn í andlát svo ótal margra.  Fyrir mér er þetta yndislega líf okkar á jörðu, lærdómur og áskoranir svo við megum þroskast sem sálir og andlegar verur.  En að lokum aftur orð úr Bók Emmanúels:

                   Heimurinn allur

                   er fögur hugsun.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heiður Helgadóttir

Mikið er þetta vel skrifað hjá þér, mörg af þínum orðum hefði getað komið frá mínum munni, við höfum líkar skoðanir á hlutunum held ég.

Heiður Helgadóttir, 4.10.2007 kl. 10:20

2 Smámynd: Sigríður Sigurðardóttir

  Þakka ykkur kommentin.  Og Páll, því skyldi ekki eitthvað vera satt, þó það sé "bara" huggandi?  Var sjálf full efasemdar um framhaldslíf, þegar ég steig fyrstu skref mín í þessu starfi.  En það hve "óttalausir" þeir voru, sem áttu þessa trú á framhaldslíf, og í raun iðulega í lítilli þörf fyrir huggun sjálfir, var furðulegt að upplifa.  Þeir deyjandi voru oft "að hugga" eftirlifandi ástvini sína, og reyna að sannfæra um að þeir væru raun ekki horfnir þeim að eilífu eftir andlát þeirra.  Viðurkenni að þetta stakk mig efasemdakonuna þá, sem mjög einkennilegt mál og hafði ekki mikinn skilning á þessu.  Fannst að ástvinir "ættu" að hugga hinn deyjandi, því hann hlyti að vera í sálarangist.  En svo var þetta oftar en ekki þveröfugt.  En hef nú fundið mína vissu um líf eftir dauðann, sjálf, og veit að dauðinn er ekkert sem ég þarf að óttast.  Aðeins sorgin sem ástvinir upplifa,  er eitthvað sem þarf að hugga, sefa og vinna úr og með.  En það er mín skoðun, og ég skil vel efasemdir og vantrú þína, Páll.  Var í þessari stöðu eitt sinn sjálf.

  Heidi, þakka þér hlý orð.  Varð bara að skella þessu inn, því dauðinn er svo nálægur mér á mínum vinnustað.  Held að margir hjúkrunarfræðingar hafi farið í gegnum svona tímabil í sínu starfi, þar sem hlutverk okkar er ekki alltaf "að koma einstaklingum aftur til heilsu og heim", heldur einnig að sýna virðingu, hlýju og kærleik þegar skjólstæðingar okkar kveðja þennan heim.

Sigríður Sigurðardóttir, 4.10.2007 kl. 17:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband