27.9.2007 | 21:04
Talvan heimt úr helju.
Fékk aftur kompjúterinn minn úr megaviðgerð í kvöld. "Sá í neðra" hafði rústað stýrikerfinu í "dordingli heilaútibús" hennar...eða eitthvað þvíumlíkt, sem hljómaði álíka gáfulega, og urðu tölvudoktorar að bretta upp ermar, og særa út fjanda með blóði svita og tárum...og beita töluvert mikilli tölvuþekkingu jafnframt, til að bjarga öllum mínum sumarmyndum úr klóm hans. ("Ég er SVÖNG" gólar sú sex ára.....afsakið smá hlé!)
Búið að redda sárasta sulti þeirrar stuttu. Er ætíð við " voveifleg hungurmörk" sirka klukkustund eftir máltíð, mín kona. Mætti halda að hér væri eingöngu boðið upp á vatn, sellerístöng og hálfan tómat í kvöldverð........vikum og mánuðum saman. Myndi ekki bjóða 300 kílóa yfirviktarmanni í krónískum megrunarkúr, upp á slíkt fæði á mínu heimili, nema kannski sem meðlæti með einhverju öðru bitastæðara. En ég er sem sagt aftur orðin nettengd, og þarf ekki að læðast í lánstölvur endrum og eins lengur. Gleði.
Er svo að jafna mig í skrokknum eftir mergjað gólfskrið, liftur, og þrælapúl sem fylgdi því að versla nýtt rúm og húsgögn í herbergi heimasætunnar nú í vikunni. En ég og minn maður versluðum forláta dönsk húsgögn og rúm úr massívri hvítbæsaðri furu, sem að sjálfsögðu voru okkur afhend í "frumeindum" sínum.....eða svo gott sem. Tíu massívir, klunnalegir kassar hlóðust upp frammi í forstofu, svo ekki varð framhjá komist, nema með því að fara í "10 kílóa skyndimegrun". Sátum við löðursveitt frá klukkan 14:00 til klukkan 21:00, allan mánudaginn, við samansetningu, samanskrúfun, vinklapælingar, hamarshögg, trélímingar og svo húsgagnaburð. Vorum bæði eitthvað verri í skrokknum á eftir. Slæmska hlaupin í flesta liði, stingur komin í síður og göngulag orðið stirðbusalegara en hjá flóðhesti á Laugarveginum. Mest vorum við samt rasandi á leiðbeiningunum, sem allar voru í "teiknimyndastíl", án nokkurra orða, nema jú, fræðslu um þrif á furu með volgu vatni og afbrigðilegum frönskum barnarúmareglum! Sagði okkur lítið um hvernig hinn eða þessi vinkillinn átti að snúa, til hvers þessi skrúfa átti að fara, þarna á ská niður í bakið á skápnum, eða hvar best væri að byrja að setja rúmið saman! "Orðvarir" menn, hinir dönsku frændur okkar í barnahúsgagnabuissnesnum. ("SVÖNG" veinar sú sex ára aftur. Heil brauðsneið horfin í matargatið....afsakið smá hlé.)
Hef svo aðeins verið að fylgjast með fréttaflutningi, af starfsfólki í þjónustustörfum, ótalandi á okkar ástkæra ylhýra. Og get aðeins hugsað til eins elskulegs gamlingja á minni deild, sem horfinn er yfir "móðuna miklu"! Hann hringdi iðulega undir morgun og bað um að "þvagflaskan sín yrði, gjörið svo vel, tæmd"! Hann fékk teppi ofan á sængina, vatn að drekka, aukasvefntöflu með eða án verkjatöflu, gluggann opnaðann, gluggann lokaðann, hálfa brauðsneið með osti og mjólkurglas og sprengitöflu undir tungu, ásamt "40 mínúta frústrerandi spjalli" við starfsmenn af erlendum uppruna, en sjaldan eða aldrei náðist skilningur á þetta með þvagflöskuna. Ekki fyrr en sá gamli fleygði henni af öllu afli (STÚTFULLRI) út á gólf, svo herbergið og starfsmaðurinn urðu öllu votari en til stóð í upphafi. Var svo með bullandi háþrýsting, sótillur og æstur er ég heilsaði honum að morgni við morgunverðarborðið. Og þá fékk næturvaktin svo sannarlega "gúmoren" á Latínu, er hann sagði mér af "næturfjöri" sínu. "Gott fólk, ekki spurning" sagði minn maður, "vill vel. En það er fjandann ekkert hægt að "tala" við það". Var gamall verkamaður og kunni enga aðra tungu en íslensku. Jamm. Verðum að hamra á "íslenskunáminu" og vera dugleg að kenna innflytjendunum okkar.
Athugasemdir
Það er bara margt að ske í einu mín kæra.
En þetta er satt með úlendinga í þjónustustörfum þau eru jafn mállaus og við á þeirra heimaslóð.
Solla Guðjóns, 28.9.2007 kl. 01:19
Ó, já Solla mín. Enda fáum við ekki vinnu ótalandi á dönsku í Danmörku, og svo framvegis. Hafa nokkrir samstarfsmenn mínir skroppið erlendis, og ætlað að fá vinnu í Svíþjóð, Danmörku eða Noregi. En lítið kunnað að tala heimatunguna. Allir verið sendir heim aftur með góðri ósk um glæsta framtíð, og bent á námskeið í tungumáli viðkomandi lands.
Sigríður Sigurðardóttir, 28.9.2007 kl. 10:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.