11.9.2007 | 15:49
Lesblinda! Dauðans alvara!
Mig langar að vekja athygli ykkar á skrifum hennar Sollu bloggvinkonu minnar, um lesblindu (ollasak). Hún kom af stað frábærri umræðu, og kom málinu inn á borð til ráðherra. Hún er núna að vinna í því að útbúa undirskriftarlista, sem ég hvet alla til að skrifa undir. Ég eiginlega rændi fyrirsögninni frá einum lesblindum bloggaranum, honum Boga Jónssyni, sem skrifaði langan pistil um sína reynslu, á síðu Sollu. Vona að hann fyrirgefi mér það. En mér fannst pistillin hans bara svo merkilegur og lýsandi. Hvernig lesblindir hafa hreint og klárt orðið að "gefa drauma sína upp á bátinn" um framtíðarnám og starf, vegna þess eins að vera lesblindir. Hann til dæmis þráði að komast í rafiðnaðarnám, og tók blikksmíði í staðinn. Og hversu margir líða ekki vítiskvalir í skóla vegna lesblindunnar, og lenda svo jafnvel í klónum á eiturlyfjavofunni eða Bakkusi seinna meir? Finna þá leið til þess eins að deyfa sársaukann. Er þetta framtíð sem við viljum bjóða lesblindum börnum okkar, og/eða börnum er þurfa séraðstoð í námi? Viljum við horfa á eftir yndislegum börnum með brostnar vonir og sár á sálinni, hverfa okkur í heim vímuefnanna? Þurfa jafnvel að "jarða þau" fyrir tvítugt eða þrítugt, þegar neyslan krefst fórnarlamba. Eða horfa á þau kveljast af ofsakvíða og lélegri sjálfsímynd langt fram eftir aldri, vinnandi störf sem þau hafa lítinn sem engan áhuga á? Og allt vegna "lesblindu"! Eða annarra þroskafrávika, sem iðulega er hægt að hjálpa börnum að yfirstíga. Er þetta framtíðin sem menntamálaráðherra og ráðuneyti hans ætla að bjóða lesblindum börnum og foreldrum þeirra? Nei, segi ég. Mál er að linni. Úrræðin eru til. Og gerum okkur grein fyrir því að "lesblinda er dauðans alvara"!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.