Þjóðhátíð....fyrri ára.

  Verð að viðurkenna, að það fór um mig notalegur hrollur minninganna, þegar ég leit yfir Dalinn í Eyjum í veðurblíðunni nú á dögunum.  Hafði klifið aðeins upp í snarbratta hlíð Dalfjallsins, undir Blátindi og hafði tyllt mér þar á þúfu.  Við blasti Dalurinn í sólskininu, Hásteinn og svo Helgafell og Eldfell fjær.  Bongóblíða og hiti.  Þeir voru búnir að setja upp allr "götumerkingarnar" fyrir hvítu þjóðhátíðartjöldin.  Týsgata, Þórsgata, Veltisund voru öll komin á sinn stað.  Sömuleiðis stóra hvíta veitingatjaldið.  Verið var að mála brúna yfir tjörnina, og krani að bisa við að koma þakinu á hofið.  Kom fram í hugann minningin um pabba heitinn, sem var "tjaldstjóri" hjá Týrsurum nokkrar þjóðhátíðir hér í den.  Hann var í 150% starfi hjá Einari ríka, í netagerð og sem "altmuligmand", en gaf sér samt tíma í að sinna Dalnum og undirbúningi fyrir þjóðhátíð.  Tvö kvöld í röð, fyrir þjóðhátíð, fór hann með góðum félögum úr Týr niður í Dal.  Þar mældu þeir fyrst út "götur" með hvítum snærum, og fóru svo í að reisa staurana og hengja á götumerkingarnar.  Allt gert klárt fyrir "ræsið" á föstudagsmorgninum.  En þá fyrst á slaginu 07:00, máttu Eyjamenn byrja að tjalda hvítu hústjöldunum sínum.  Klukkan 05:00 var pabbi mættur á svæðið, til að grípa "óþolinmóðu svindlarana", sem freistuðu þess að tjalda fyrrDevil .  Pabbi róaði þá niður, bauð þeim kaffi af brúsa og spjallaði og grínaðist.  Sagði að þeir hreinlega "yrðu að bíða".  Um klukkan 06:30 var orðið vel ballfært í Dalnum.  Allir mættir til að tjalda, finna sér sína götu, sinn tjaldstað, við hliðina á sínum ættingjum og vinum.  Pabbi hélt liðinu upp á myljandi spjalli, jafnvel söng (var fínn tenór, pabbi) og á slaginu 07:00 blés hann í flautuna.  Ræsið var hafið.  Æðisgenginn hamagangur fylgdi í kjölfarið.  Menn hlupu sem óðir væru að sinni götu, reyndu að finna nákvæmlega sama stað, og hafði verið tjaldað á síðast, og byrjuðu að hamra niður súlum eins og lífið lægi við.  Pabbi tók lífinu með ró.  Rölti á milli "gatna" og hjálpaði til við að tjalda, og skipuleggja hvernig best væri fyrir menn að tjalda, því ekki voru öll tjöldin jafn stór.  Gekk allt upp fyrir rest, með samvinnu og góðum vilja.  Um ellefuleytið mætti svo pabbi austur í Grænuhlíð.  Lagði sig í klukkustund, snarlaði í sig hádegismat, og fékk svo Berta á Kirkjubæ til að skutla sér og okkur systrum niður í Dal að tjalda "okkar hvíta hústjaldi"!  Sem "tjaldstjóri" mátti hann taka frá stæði fyrir sig fyrirfram, en hann nennti aldrei að standa í því.  Rölti bara með okkur stelpurnar í eftirdragi um Dalinn, og tjaldið á bakinu og fann "laust stæði" einhvers staðar.  Eina krafan sem hann gerði var, að vera fyrir "neðan flöt".  Og það tókst án undantekninga.  Síðan var að fara af stað aftur og útdeila hvítum miðum með númerum og títuprjónum, á öll tjöld, í öllum götunum.  Voru næld í tjöldi framanvert, og þá var hægt að gefa upp heimilisfang með "tjaldnúmeri", þegar vinir og kunningjar mæltu sér mót í söng, spjall og lunda um kvöldið.  Lenti ég iðulega í því að deila út "númerum og títuprjónum" með pabba.  Ég send í næstu götu við hliðina á honum, og stakk mig þúsund sinnum á skrattans prjónunumPinch .  Var líka miklu fljótari en hann, því alls staðar þurfti hann að staldra við og spjalla.  Tók tvær götur á meðan hann tók hálfaWink .  Svo var farið heim, og í þetta sinn skutlaði Berti allri "búslóðinni" inneftir, og mútta bættist með í för.  Dívan, eldhúsborð með bláköflóttum dúk, kommóða, prímus, kollar, kaffikanna, ketill, diskar, bollar, hnífapör og einhver myljandi hellingur af þurrum, hreinum barnasokkum.  Og svo matarkistan eina og sanna.  Troðfull af flatkökum með hangikjöti, kæfubrauði, smákökum, lagtertum, kaffi, mjólk og kók í glerflöskum.  Lundinn sérpakkaður.  Mútta fór í það að skipuleggja "heimilið" næstu 3 daga og ganga frá, en við systur vorum sendar af stað að hafa upp á "heimilisföngum" Gríms frænda og Ingvars í Skógum.  En þeir voru magnað "söngtríó" saman, Grímur, Ingvar og pabbi.  Og þá var líka allt orðið klárt fyrir "úthaldið"Grin .  Þriggja daga skemmtun, brenna, grín, spjall,söngur og gleði.  Við krakkarnir fengum að vera í Dalnum til miðnættis, vorum þá send heim í bekkjabíl í bólið, með múttu sem fylgdarmann.  Mútta kom okkur niður og hvarf aftur inn í Dal, þar sem engum þótti neitt varið í annað en að syngja og spjalla til klukkan 9:00 næsta morgunCool .  Pabbi alltaf með gítarinn í för í Dalnum, og alls staðar myljandi söngur og spjall þar sem hann og mútta komu.  Voru oft rámir og hásir foreldrar mínir á mánudeginum, þegar þjóðhátíð var blásið af, svo ekki sé minnst á baugótt augu af svefnleysi.  Góðar minningar frá þjóðhátíðum "á seinni hluta síðustu aldar"Smile .  Gott að vera krakki í Eyjum þá.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband