4.2.2013 | 22:54
23. janúar 1973- Nóttin Eina- Afi.
Minning -2. Afi minn, Guðmundur Eyjólfsson er 72 ára gamall
í janúar 1973.
Hressilegur og sterkur karl, sem fer allra sinna
ferða, gangandi með staf, þrátt fyrir stálkúlur
í báðum mjöðmum.
Er að vísu farin að heyra illa, og notar heyrnatæki,
en sjónin er skörp og hugurinn athugull.
Afi er fæddur 24.nóvember
á því Herrans ári 1900 undir Eyjafjöllum.
Aðeins þriggja daga gamall, er hann kominn að
Iðu í Biskupstungu ásamt Sigríði Helgadóttur
móður sinni, þar sem hann elst upp.
Sautján ára er hann nýfluttur með móður sinni
til Reykjavíkur, þegar Spænska veikin brýst út.
Lendir hann óharðnaður unglingur í því að
bera út úr húsum borgarinnar, látin börn,
konur og karlmenn og setja í kös á líkvagna.
Til sjós fer hann síðan og siglir alla leið til
Barcelóna með fiskafurðir.
Á vertíð í Eyjum hittir hann unga, fallega konu,
Árnýju Magneu Seinunni Árnadóttur frá Byggðarholti
í Eyjum.
Hún verður hans eiginkona og maki næstu 40 árin,
eða þar til Árný deyr síðla árs 1960.
Þau flytja í lítið hús, Eiða við hlið Byggðarholts.
Börnin fæðast þeim eitt af öðru, sex í allt, en
eitt missa þau, dreng níu mánaða gamlan.
Lífið er afa og ömmu erfitt.
Afi fær snemma illvíga slitgigt í báðar mjaðmir,
sem hægt og bítandi hamlar hreyfingu hans
og truflar hann við störf,
eða þar til hann fær stálkúlur í báðar mjaðmir
í kringum 1952- 1954.
Árný amma er með sársaukafulla berkla í hnénu
á öðrum fæti, og er inn og út af sjúkrahúsi meira eða
minna allan þeirra búskap.
Fátæktin er mikil og þegar kreppan er í algleymingi
1933, verða þau hjónin að láta tvo af drengjunum sínum
frá sér í fóstur.
Hinum þremur koma þau upp með harðræði og dugnaði,
og er pabbi, Siggi á Eiðum næst elstur þeirra systkyna.
Árið 1973 er afi búinn að búa rúm 50 ár í Vestmannaeyjum,
og er fyrir löngu orðinn Eyjamaður í húð og hár.
Hvergi unir hann sér betur en á eyjunni sinni fögru.
Ekkill síðustu 12 árin, fluttur og býr í stóra fallega húsinu
hans Sigurðar sonar síns í Grænuhlíð 20,
með stórt prívat herbergi og útsýni út á Víkina og Heimaklett.
Á alltaf Tópas í vasanum að stinga upp í
hávaðasömu sonardæturnar þrjár, sem eiga herbergi
við hliðina á honum.
Eldgos á sjálfri Heimaey, er ekki eitthvað sem
afi minn hafði reiknað með að fá í hausinn, fremur en
nokkur annar Eyjamaður árið 1973.
Vantrú og afneitun eru því fyrstu viðbrögð afa,
þegar mamma ræsir hann rétt fyrir fjögur að
morgni 23. janúar 1973.
"Það hefur bara kviknað í töðunni hans Tobba á Kirkjubæ",
segir hann snakillur og argur við mömmu og pabba.
Þrasar í mömmu, sem vill að hann taki ferðaútvarpið
sitt með niður, "og Sigurður sonur rokinn út að taka
myndir af HlÖÐUBRUNA", það hnussar í gamla manninum.
En klæðist og er snöggur niður í kjallara, þegar hann
heyrir okkur systurnar, mig 12 ára og Önnu og Árnýju
7 ára, brasa þar niðri við að klæða okkur í útiföt.
"Hvað eruð þið að æða út um miðja nótt, stelpur"?,
afi heyrði mjög illa, svo sjálfsagt hefur hann ekki
heyrt eins og við hin drunurnar frá gosinu.
En sjón afa er enn skörp, og logarauðan himininn
í austri sér hann vel, þegar út var komið.
Alvara atburða næturinnar setja hann hljóðan.
Örlög kúnna hans Tobba á Kirkjubæ sitja lengi
vel í honum, skelfing dýranna og hljóðin sem þær
sendu út í náttmyrkrið, á harðahlaupum beint
í dauðann.
Þeim er öllum slátrað niðri á höfn næsta dag.
Afi undrast kraftana sem leysast úr læðingi austur
á Eyju þessa nótt, líkt og við hin, en hefur ekki mörg
orð þar um.
"Það var gott að þú skyldir láta mig taka útvarpið, Stína,
við getum þá fylgst með fréttum af þessum ósköpum".
Um borð í Danska Pétri neitar afi að fara niður í káetu eða
niður í lest.
Gamli sjómaðurinn veit sem er, að ekki er auðvelt fyrir
bæklaðan mann, haltan með staf, að komast upp og
niður stiga í fiskibátum.
Hann velur að standa úti, skorðaður við spilið, þó hann viti
að báðar mjaðmir hans muni frjósa fastar í vetrarkalsanum
og helköldu næturloftinu á stíminu upp á land.
Tvisvar afþakkar hann teppi til að verja sig
nístandi kuldanum.
Þau fara til fólksins niður í lestinni.
En það er hér sem sagan tekur á sig snúning, eins
og pabbi minn, Siggi á Eiðum, hefði orðað það.
Því örlagadísirnar stilla sína strengi og slá dátt þessa nótt,
og sjá til þess að afi hafi félagsskap á leiðinni upp á land.
Ingi á Háeyri, ágætur kunningi afa situr við spilið
hjá honum alla leiðina.
Ingi hefur gripið með sér pela, sýpur drjúgt og er
brátt ölhreifur, skrafar, spjallar og syngur.
Afi vel sáttur með spjallið, en eftir því sem lækkar
í pelanum, eykst sönggleði Inga að miklum mun,
þó ekki sé hann alltaf lagviss.
Og Ingi syngur og syngur.
Öll Eyjalögin, gamlar gamanvísur, drykkjuvísur og slagara.
Jafnvel tregafulla ástarsöngva, á milli þess sem hann sýpur á
og skrafar við afa.
Afi hefur mismikla skemmtun af söngnum, en hefur ekki orð
á því við Inga.
Í Þorlákshöfn er Ingi snar að vippa sér í land, en afi
er frosinn fastur af kulda og stirðleika við spilið.
Pabbi fær tvo kraftalega karla úr Þorlákshöfn til þess
að vippa afa upp úr bátnum, upp á bryggju og beina leið
upp í rútu, svo lítið beri á.
Vissi sem var, að gamli maðurinn yrði lítt hrifinn
af því að vekja athygli á bæklun sinni sjálfur og
því síður að biðja um aðstoð.
Við systurnar förum upp í rútuna og setjumst hjá afa.
Síðan mætir mamma og að lokum pabbi.
Full rútan af Eyjamönnum heldur síðan af stað.
Pabbi horfir yfir mannskapinn, og sér að blik hefur
kviknað í augum afa, og að hann er farinn að
hvessa á hann augum.
"Er ekki allt í lagi, pabbi", spyr pabbi afa.
"Það hélt ég sonur sæll, að ég ætti ekki eftir að lifa það,
að vera skipað upp á land í Þorlákshöfn, eins og trospoka",
afi beittur í húmornum.
Pabbi hlær, en afi er ekki búinn.
"Og ekki nóg með það, heldur hafði ég SKEMMTIKRAFT
um borð í bátnum.
Alla leiðina upp á land!
Ingi á Háeyri lét eins og fífl, alla leiðina"! og hér glottir
afi við tönn en pabbi skellihlær.
Jafnvel í eldgosi sjá þessir feðgar húmor í aðstæðunum.
Það er svo 1. október 1976, þremur árum seinna sem afi minn
deyr á Hrafnistu í Reykjavík.
Daginn eftir deyr annar merkur Eyjamaður, töluvert yngri en afi.
Sá heitir Ingi, já Ingi á Háeyri.
Og saman fara þeir ferðafélagarnir frá því þremur árum áður,
út í Eyjarnar sínar aftur.
Um borð í Herjólfi.
Í tveimur hvítum kistum.
Og þá slá örlagadísirnar strengi sína létt og lipurt enn og aftur,
hlæja í kapp við öldurnar og hverfa á braut.
Kannski að afi hafi séð um að "skemmta" Inga í
þeirri ferðinni.
Hver veit?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.