23.janúar 1973- Nóttin eina að þriðja sinni.

182230_10151362070413431_1518542139_nGrænuhlíð 20

19. mars 1973. Hús á hálfri annarri hæð, með kjallara og niðurgrafna brunna. 240 ferm.

  fyrir utan brunna.

....... ....... ..... ...... ....... .......

 

   Ég er risin upp við dogg í kojunni í káetunni í Danska Pétri.

  "Mamma, ég þarf að pissa"!

  Mamma stumrar yfir ungu, sjóveiku konunni og litlu

  stúlkunni hennar.

  "Þú verður að fara upp á klósettið, Sigga mín, reyndu að

  stíga ölduna".

  Báturinn stingst fram á við, og veltur síðan snöggt til hægri,

  réttir sig og veltur snarlega til vinstri.

  Ég rígheld í litla borðið, sem gamli maðurinn situr

  nú hálfrorrandi, og dormandi við.

  Varirnar á honum eru bláar, og hann stynur mikið.

  "Hvað er að STÍGA ÖLDUNA"?, hugsa ég um leið

  og næsta bratta alda flengir mér fram að káetudyrum.

  Framan við káetu er þröng á þingi, alls staðar situr fólk,

  ælulyktina slær fyrir vit mér, stæka og súra.

  Ég bíð eftir næstu hreyfingu bátsins og reyni að

  ganga "upp í móti", milli fótanna á sitjandi fólkinu.

  Rétt næ að grípa í stigahandriðið, þegar báturinn

  súnkar skyndilega niður og veltur í allt aðra átt.

  Mér tekst að tosa mér upp stigann.

  Sé pabba, hann er að stumra yfir unglingsstúlku með

  sítt, blautt hár.  Hann vefur utan um hana grátt teppi,

  og reynir að skorða hana sitjandi í skoti við stýrishúsið.

  "Hvar er klósettið, pabbi" spyr ég, og tennurnar glamra í

  munni mér af kulda.

  Pabbi hleypur til að lítilli hurð, en þungri og opnar fyrir mér.

  Enginn salernispappír.

  Löngu búinn.

  "Verður að hafa það, ég er altént ekki að gera "stórt" sem

  betur fer", hér glotti ég að þönkum mínum.

  "Hvar er afi" spyr ég pabba, sem hefur hinkrað við dyrnar

  eftir mér, þegar ég kem af salerninu.

  "Hann stendur við spilið úti á dekki og er bísna brattur",

  svarar pabbi, "en farðu nú strax niður aftur, hér er svo kalt".

  "En er afa ekki skítkalt þarna úti, pabbi", ég með áhyggjur af afa.

  En pabbi er stokkinn af stað, og aðstoðar konu með mikið sjóveikan

  dreng, á að giska 9 ára, að komast inn á salernið.

  Ég sveiflast í áttina að stiganum, með hliðaröldu, spyrni við

  fótum, sný við og kem mér út á dekk.

  Þar mætir mér nístingsköld vetrarnóttin, og ég tek andköf og

  fæ tár í augun, svo kaldur er vindurinn.

  Ég fikra mig í áttina til dökku mannverunnar með derhúfuna,

  sem stendur keik við spilið, og horfir hvössum augum

  út sortann af og til.

  Var lengi til sjós, hann afi minn, Guðmundur á Eiðum, ungur maður,

  og nú dunar honum sjómannsblóðið um æðar, hann hvorki

  finnur til sjóveiki né helkulda.

  "Afi, er allt í lagi, er þér ekki kalt", tennurnar glamra svo hrikalega

  í munni mínum, "að ef ég væri  með falskar tennur, væru þær dottnar

  úr munni mínum af hristingi", hugsunin fæðist með slatta af húmor í kolli mínum. 

  Ég ætla aftur að glotta með sjálfri mér að hugsunum mínum,

  en varir mínar eru stífar af kulda, og bærast ekki.

  "Það er allt í lagi með mig, lambið mitt" svarar afi.

  "Já, við afi þinn erum hressir" segir maður sem situr skammt frá

  afa og veifa pela.

  "Hann afi þinn er þrælgóður, gamall sjóhundur", klykkir pelamaðurinn út með

  og sýpur drjúgt á.

  Pabbi kominn með grátt ullarteppi undir handlegg.

  "Við fundum eitt teppi í viðbót, viltu ekki fá það um herðarnar, pabbi",

  spyr hann afa.

  Afi þverneitar, "farðu með það niður í lest, Siggi, þar margir sem

  eru að krókna úr kulda".

  Pabbi hlýðir.

  "Farðu niður aftur, Sigga mín, ég hef það ágætt hérna" segir afi.

  Strýkur mér yfir hárið, og blikkar mig.

  Ég flý fegin aftur niður í káetu.

  "Ógurlega er þetta löng sigling upp á land, mamma" segi ég

  þegar ég kem niður.

  Mamma játar því, um leið og hún aðstoðar hjartveika manninn, sem

  nú er vaknaður, við að taka hjartatöflu.

  Tvær klukkustundir enn veltumst við í brælunni.

  En loksins!

  Land.

  Við erum komin til Þorlákshafnar.

  Rigning, myrkur að mestu, aðeins grámar örlítið í

  dagsbirtu dagsins 23. janúar 1973.

  Klukkan er hálf tólf fyrir hádegi.

  Pabbi virðist fastur í endalausu Adrenalínkikki.

  Þekkir marga í Þorlákshöfn, karla sem eru að aðstoða

  okkur upp úr bátunum.

  "Sælir strákar", pabbi glaðhlakkalegur, "nú er það hrikalega svart með

  okkur Eyjamenn".

  Bárður, vinur pabba úr Þorlákshöfn, svarar: "Nú, hvað meinarðu, Siggi,

  þið eruð öll að verða hólpin, og komin upp á land"?

  "Jú, sjáiði til, strákar, þegar Guð eyddi Sódómu og Gómorru, þá

  VARAÐI hann íbúana alla við hamförunum, en við Eyjamenn fengum

  ENGA AÐVÖRUN"!  Hér hlær pabbi sínum smitandi hlátri, og

  félagarnir úr Þorlákshöfn geta ekki annað en tekið undir og hlegið með.

  "Alltaf sami gárunginn og léttur á því, Siggi minn", Bárður kreistir hönd

  pabba.

  Við erum vafin í teppi og skellt upp í rútu.

  Einkennilegt hossandi ferðalag eftir holóttum þjóðvegi

  í rúman klukkutíma.

  Sótsvört sandauðn, grár mosi, þoka og loks höfuðborgin.

  Í MH fáum við næringu, Kók og Prins Póló í eftirrétt.

  Stella föðursystir og Róbert mæta og sækja afa.

  Toni föðurbróðir ekur okkur á Framnesveginn til ömmu.

  Amma ætlar að taka okkur inn á heimili sitt.

  Framundan er óvissa, óöryggi, missir og lamandi sorg.

  Martröðin er hafin.

 

  .... ..... ..... ..... ..... ...

  Enn er einn pistill eftir að þessu sinni frá Nóttinni Einu.

  Hann kemur á næstu dögum.

  Ótrúlega snúið að rifja þetta upp enn og aftur.

  Húsfreyja hefur setið hér klökk, þakklát, sorgmædd, brosandi og rasandi hissa.

  En punkturinn yfir i-ið næst.

  Góðar stundir og vonandi hafið þið einhvern fróðleik af

  þessum pistlum húsfreyju.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband