30.4.2012 | 23:07
Guð minn góður.....
..... oh my God", erlenda konan grét hástöfum og réri í gráðið.
Húsfreyja stumraði yfir henni og reyndi að hugga.
"Can I call your husband and ask him to come for you"?,
húsfreyja vildi
koma erlendu kófdrukknu konunni sem "næstum því"
hafði drukknað í Bláa Lóninu í öruggar hendur sem fyrst.
Erlenda konan reisti sig upp og hristi leðjugráa lokkana
ört og nánast orgaði: Noooooo!
"No, no, no, no, dont call him...nononono"...orðin hurfu í mikil ekkasog.
Húsfreyja var eitt spurningamerki.
Botnaði ekki baun í málinu.
"Ok I´ll ask your friend to stay with you, until you feel strong
enough to walk out to the car with him".
"NOOOOOOOOOOOOHHH! SEND HIM AWAY......NOW"!!!
Öskur hálfnöktu, næstum því drukknuðu konunnar voru nærri því
búin að sprengja báðar hljóðhimnur húsfreyju.
"Vinurinn" kom hlaupandi inn á slysastofuna.
Ungur maður um þrítug, a.m.k 15 árum yngri en nærri því
drukknaða frúin.
"Clara are you ok", íslenski framburðinn á enskunni heyrðist vart.
" OUT"!!!, erlenda konan gargaði á unga manninn, sem
hrökklaðist út aftur, um leið og frúin hóf aftur að selja upp
gruggugu Bláa Lóns-vatni í bland við hreinan vodka.
Húsfreyja hafði snör handtök og skellti ælubakka
undir stærstu gusuna, vafði köldu þvottastykki um höfuð
frúnnar og hélt við.
"Ég er svoooo glötuð...I´m so useless" grét erlenda konan hátt,
um leið og hún kokaði og kúgaðist.
Húsfreyja var í standandi vandræðum.
Læknir var horfin á braut, hafði sagt húsfreyju að það mætti
útskrifa nærri drukknuðu konuna í hendurnar á manni sínum.
Bara eitt: Læknir hafði talið þann þrítuga vera mann konunnar,
og þann mann vildi frúin kófdrukkna, en ódrukknaða ekki
sjá nálægt sér.
Og ekki mátti húsfreyja heldur hringja í mann hennar,
en hann var erindsreki og vann fyrir erlent sendiráð,
eftir því sem húsfreyja komst næst.
"You'r dead if you call him.....snökt..org...I´m dead...."!
Ekki gat húsfreyja heldur skilið erlendu frúna eftir niðri á slysó,
á meðan hún sinnti sínum 22 sjúklingum á deildinni á næstu
hæð fyrir ofan á sjúkrahúsi Keflavíkur.
Húsfreyja vippaði sér fram og ætlaði að ræða við þann
þrítuga, þegar ægilegt org barst frá slysastofunni, og svo:
"DO NOT TALK TO HIM! SEND HIM HOME"!
Sá þrítugi yppti öxlum, "ég tek bara taxa í bæinn",
og svo var hann horfinn.
Og uppi sat húsfreyja með háorgandi erlenda konu
og bifreið hennar parkeraða í stæði fyrir sjúkrabíla.
Gleði.
Nú voru góð ráð dýr.
Húsfreyja hugsaði hratt.
Fór inn á slysastofu, þar sem næstum því drukknaða
konan var að úthúða sjálfri sér, á milli þess sem
hún ældi í ruslafötuna....."I'm so lame"!
Húsfreyja gaf frúnni í skyndi ógleðistillandi stíl,
mældi lífsmörk og súrefnismettun.
Allt í fínu lagi.
Frúin grenjaði hástöfum á háa séinu.
Húsfreyja beið færis, þegar heldur hljóðnaði
grátur, og spurði um vinkonu sem frúin treysti
og gæti náð í hana.
Frúin virtist ætla að róast við upp ástunguna, þegar:
"Ooooorrrrrgh...but what about the car......it's my
husbands......"?
Nú greip erlendu konuna einhver fítonskraftur,
hún hentist á fætur og æddi um eins og ljón í búri...
"I've to drive back to Reykjavik myself..." hrasaði
við, slangraði að stól, stóllinn datt og frúin með í gólfið.
Eftir hálftíma org á gólfinu, tókst húsfreyju loks að
ná símanúmeri vinkonu upp úr henni.
Hálftíma seinna náði hún svo frúnni upp úr gólfinu,
og bíllyklum hennar frá henni.....komin með
hellur fyrir bæði eyru af skerandi grátnum.
Reddaði bílnum fína frá inngangi slysó svo
sjúkrabíll kæmist að.
Vinkona erlendu konunnar mætti síðan með
sínum ektamaka og þau
sáu um að koma þeirri næstum því drukknuðu og
bifreið hennar til höfuðborgarinnar við sundin bláu.
Húsfreyja orðaði ekki þrítuga "vininn" við þau,
enda lá líf hennar við... "you are dead if you tell them
about him".
Ítrekaði aðeins þörfina fyrir að fylgjast vel með
frúnni næsta sólarhringinn og bað þau vel að lifa.
Og frúna sá hún síðan á síðum dagblaðanna nokkrum
vikum seinna í hóp af fínu fólki við einhverja opnun
í ráðhúsinu, svo hún hefur plummað sig flott eftir
reddingar húsfreyju og læknis.
En mikið hrikalega var húsfreyja sein með öll sín
verk á deildinni sinni þessa kvölvakt í júní fyrir
allmörgum árum síðan....og eins og hálf heyrnarlaus
í þrjár vikur á eftir.
Þessi sundlaugakonusaga minnti húsfreyju á þetta
sérstaka atvik þarna í Keflavík um árið.
Góðar stundir og gangið hægt um gleðinnar dyr.
Kom að fyrrverandi í sundlauginni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.