26.3.2012 | 21:21
Svipaður kaupmáttur og 2004?
Eitthvað snýst fjármálahjólið illilega skakkt í heilabúi
húsfreyju, ef þetta er raunin.
Árið 2004, getur húsfreyja svo svarið að skuldir hennar
voru mun lægri en nú, matarkarfan kostaði einnig minna og hún
þurfti ekki að selja nokkur eldgömul frímerki úr
frímerkjasafni föður síns heitins í hvert skipti henni flaug í hug
að skella smá skvettu af bensíni á bílinn, svo hún gæti
vísiterað móður sína austur fyrir fjalll.
Neipp!
Man ekki betur húsfreyja, en að henni hafi meira að segja
tekist að taka frá nokkrar krónur mánaðarlega frá 2004
til 2006, fyrir utanlandsferð með sína herlegu fjölskyldu,
sem farin var í mars 2006 til Kanaríeyja...og það í 2 vikur.
Glætan að það væri möguleiki á því herrans ári 2011.
Síðasta ár er satt að segja eitt hið svaðalegasta sem húsfreyja
hefur upplifað fjármálalega séð.
Þó var hún prúðasta á tímum góðæris, keypti aldrei STÓRGRÓÐA- hlutabréf,
fjárfesti ekki í neinum "pappírs fyrirtækjum á Tortóla, og þrasaði
vikum saman í bónda sínum um stórhættuleg myntkörfulán í bílakaupum,
( áður en hún gafst upp, og sagði honum að hann mætti að ráða þessu ....
og bóndi var snöggur að taka eitt prímaflott myntkörfulán fyrir
nýlegri Hondu, sem nú er að drepa hann að borga af )
og hún lamdi í borðið og sagði enga þörf á "flatskjá" inn á heimilið,
44 tommu túpusjónvarpið væri alveg nógu gott.
Bóndi gaf flatskjáinn eftir, fyrst hann fékk bílinn...
en það kom ekki í veg fyrir fóstursonur húsfreyju gæfist upp
tæpum tveimur árum eftir hrun, á að borga af myntkörfuláni sínu
fyrir einum herlegum flatskjá....bóndi sem hvort eð er var búinn að
greiða eina og eina flatskjásgreiðslu til að reyna að hjálpa,
tók þá yfir lánið og flatskjáinn, og uppi sat húsfreyja með
myntkörfulán númer tvö.
Jamm...og flatskjá.
Neipp, 2011 telst seint til betri tíma með blóm í haga, batnandi
fjárhags, dýrðar og dásemda og því síður SVIPAÐS kaupmáttar
og árið 2004, hjá húsfreyju.
Af og frá.
En húsfreyja játar fúslega að hún er enginn fjármálasnilli,
og verður seint talin vera reikningshaus, með allt að 23 aukastafi
"pí" á tæru...veit ekki einu sinni fyrstu tvo!
En kannski var húsfreyja bara svona hrikalega ofursparsöm og séð,
með peninga sína árið 2004, að henni finnst hún hafa verið
með miklu betri auraráð.
Sjálfsagt legið eins og ormur á gulli á launum sínum, húsfreyja,
aðeins keypt salt í grautinn einu sinni á ári, verslað allan sinn
fatnað hjá "Góða Hirðinum", gert við götótta sokka á hverju kvöldi
yfir Kastljósinu, aðeins haft logandi á kertaljósum yfir veturinn
með sprittkertum keyptum í Bónus og gefið öllum ættmönnum sínum og vinum
afmælis- og jólagjafir keyptar í "hundraðkallabúðum"!
Sjálfsagt ekki verið með réttu ráði, húsfreyja allt árið 2004.
Þjáðst það herlega ár af "ofurnísku fjármálaóráði", og sofið upp
við dogg, með kodda sinn fullan af seðlum.....hmmm....það
er kannski þess vegna sem húsfreyja er nú að berjast við
helvískan langvinnan hálsríg og mergjaðan verk í öxlum?
Hvað veit húsfreyja?
Jamm, en merkileg frétt þetta, ekki síður en þegar Ólína Þ. sagði
"kreppuna nefnilega búna" nú á dögunum.
Hleypa Marinó og Báru í kompjúterinn næst.
Góðar stundir.
Kaupmáttur svipaður og 2004 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.