16.10.2011 | 22:04
Afdjöflunaraldur?
"Mig langar að sjá "Footloose", mamma, djásnið var
kengspennt yfir kvikmyndatreiler í sjónvarpinu.
"Er þett'ekki bara unglingamynd"? spurði bóndi sposkur.
"Ég sá gömlu myndina sem mamma á, þegar ég var átta ára",
tíu ára djásninu mikið niðri fyrir, "ég er sko ekkert unglingur"!
Svo háttar til að tíu ára djásni svona heldur kvíður fyrir unglingsárunum,
og svo rammt kveður að þessu stundum að húsfreyju fer að
gruna að djásnið sé Þórbergur Þórðarson skáld og rithöfundur endurborinn.
En Þorbergur heitinn var ekkert að skafa utanaf því þegar kom að
unglingsaldrinum.
AFDJÖFLUNARALDUR, minnir húsfreyju að það góða skáld hafi haft um
unglingsárin.
Og ekki nóg með það, Sobbeggi afi hefði ekki mætt á kvikmynd
sem FOOTLOOSE, nema heiladauður, í dái eða örendur.
Tónlist átti sem sagt ekki upp á pallborðið hjá skáldinu.
Píningartæki! Músíkbyljandi! Hávaði! Glymjandi!
Vildi að Alþingi setti lög sem skyldaði alla Frónbúa til að láta
bólusetja sig gegn músík.
Og taldi að þeir sem hefðu gaman af tónlist væri oftast nær
fólk sem hefði hætt að þroskast að vitsmunum á "afdjöflunaraldrinum"
En þarna ber í millum tíu ára djásnsins og Þórbergs, því sú stutta
elskar tónlist, dans og söng, þó lítt finnist henni spennandi að
eiga eftir að verða unglingur.
Vorkennir Svölu frænku sinni ægilega, að vera orðin 12 ára,
og þaðan af verra 13 ára í næsta mánuði....."afdjöflunaraldurinn"
við það að bresta á....."oooooo, mamma ég held að það sé
miklu skemmtilegra að vera krakki en unglingur".
Það er svo mikið VESEN á unglingum"!
Húsfreyja veit að hún á skarpa 10 ára dóttur, en
hélt að unglingsárin væru ekkert sem ylli áhyggjum,
þegar maður er á þessum fyrsta tug ævinnar.
En jú, vissulega fylgist djásnið orðið með fréttum, og kemur
iðulega að frétt á netinu um týndan ungling, og sýnir húsfreyju með hryllingi.
Það að vera týndur er jú eitt það versta sem hendir börn og unglinga,
að hennar mati.
Eitt það versta sem hendir foreldra.
Húsfreyja reynir að róa djásnið með yfirvofandi unglingsár,
og segir henni að flestir unglingar komist ágætlega frá þeim,
þó stundum séu þau töluvert flókin og snúin.
Að þau séu "afdjöflunaraldur".....nah, Þórbergur var nú einu sinni
skáld, með skáldaleyfi.
Húsfreyja sjálf var fremur rólegur unglingur.
Feimin, hlédræg með hrikalegt sjálfsálit en ofboðslega
metnaðarfulla og bjartsýnaframtíðardrauma.
Taldi sig ætíð færa í allan sjó, ekkert var henni ómögulegt,
ekkert sem hún gat ekki.....bara spurningin HVERJU átti hún að
sleppa, og hvað NENNTI hún að gera.
Var óvenju lítið að pæla í því sem aðrir hugsuðu, eða
hvað öðrum fyndist um hana.
Botnaði lítið í drama sumra vinkvenna sinna,
sem sífellt rifust um einhverja lúðalega gaura, sem
voru ógesslega fullir og ömurlegir á öllum böllum,
en litu þokkalega út edrú....ÆÐI sko.
Og svo var það þetta mál að "hleypa" fyllibyttunum upp á sig,
og monta sig af því, sem húsfreyju fannst furðulegt sem unglingi.
Allir sváfu hjá öllum, þvers og kruss...svo var grenjað og rifist
yfir svikum, framhjáhöldum.
Húsfreyja fór í bíó, dansaði trylltan diskódans, las bækur og lærði.
Hafnað "uppáhleypingum", þó hún fengi slatta af tilboðum í slíkt.
Naut þess að vera áhyggjulaus, dramalaus, brennivínslaus, og kynlífslaus sem unglingur.
Var skotin, eins og allar stelpur, en þar við sat.
John Travolta var ÆÐI.
Húsfreyju fannst gaman að vera unglingur.
Lagðist í utanlandsferðir eftir stúdent og ferðaðist til framandi landa.
Það var enn meira gaman.
Húsfreyja hefur aldrei iðrast neins, og þakkar forsjóninni fyrir að
hafa haft gæfu til að fara létt í gegnum unglingsárin.
Býr að því enn þann dag í dag.
Lífið er ljúft og flestir unglingar eru ljúft fólk.....en svo eru sumir bara
ekkisens VESEN.....á "Afdjöflunaraldri" segði skáldið.
Húsfreyja vonar að hennar tíu ára djásn fara ljúflega í gegnum
unglingsárin og njóti þeirra.
Góðar stundir, húsfreyja er á leiðinni á FOOTLOOSE einhverja daga
á næstunni.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.