10.10.2011 | 18:45
Röng höfn á röngum stað með rangt hannaða...
HEYR, HEYR, Halldór Nellet.
Þessu er húsfreyja innilega sammála, og man enn
hve rasandi hissa hún var, þá hún í fyrsta sinn kom í
Landeyjahöfn.
Einhverra hluta vegna hafði húsfreyju ekki dottið í hug
annað, en að höfnin yrði byggð nokkrum kílómetrum
vestar en hún nú er, taldi næsta víst að brúarsmíðasnillar allir
vildu forðast það í lengstu lög að lenda í ósi Markarfljóts.
Enda um stórfljót að ræða, 100 km langt og með
vatnasvið upp á u.þ.b. 1070 ferkm.
Þokkalega gott magn af framburði jafnt og þétt,
alla daga, allar vikur, alla mánuði, árum saman,
því fylgjandi.
Svo húsfreyja nánast missti andlitið ofan í skóna sína
af undrun, þegar hún ók "meðfram Markarfljóti" afleggjarann
frá Þjóðvegi 1 á leið niður að Landeyjarhöfn.
Trúði ekki sínum eigin augum, og spurði systur í Eyjum
tvisvar, hvort þetta væri "í alvöru" Markarfljót þarna
hinum megin við varnargarðinn.
Systir í Eyjum taldi svo vera, dæsti mæðulega og rýndi
út í þokukólguna og regnið.
Ekki mjög sjóhraust systir í Eyjum.
"Í ALVÖRU? Í ALVÖRU"?, var síðan það eina sem systir
í Eyjum fékk upp úr húsfreyju, það sem þær áttu eftir
af ferðinni niður að höfninni.
Húsfreyja var miður sín, þegar hún horfði á eftir litlu systur
inn í Herjólf í Landeyjahöfn þennan regnvota sumardag.
Sjór var úfinn og grár, stíf austanátt og rétt að það móaði
í Eyjarnar í gegnum gráan regnsortann.
Húsfreyja taldi nánast öruggt, að Herjólf tæki niður í
hafnarmynninu, hvolfdi með hraði og hún sæi síðan systur úr
Eyjum svífa nánast gegnsæja á hvítum vængjum
upp úr dallinum, og hverfa sjónum hennar í
þokunni við hæsta tind Eyjafjallajökuls.
Sendi verndarenglum systur bæn í huganum...
Hún lokaði augunum af angist þegar Herjólfur
ruggaði og tók dýfur út úr höfninni, en til allar
lukku voru verndarenglar systur í Eyjum vel staðsettir,
og dallurinn komst á haf út.
Systir í Eyjum hefur allar götur síðan forðast að sigla
í Landeyjarhöfn, eða frá henni, ef hún hefur annan kost.
Smellir sér í flugið eða siglir á Þorlákshöfn, bjóði Herjólfsfólk
upp á slíkt.
Miðað við ferjuumferð í Laneyjahöfn frá því að höfnin var
opnuð, þykir húsfreyju auðsýnt að þjóðráð væri að
FLYTJA höfnina slattakorn í vestur, eins og reynsluboltinn
Halldór B. Nellet metur að sé skynsamlegt.
Hitt draslið í ósum Markarfljóts, má svo bara nýta sem
sand- og aurgildru, þarf ekki einu sinni að rífa það niður....
nú eða breyta því í "hrísgrjónaakur" öðrum kosti.
Jamm, en þangað til eru Eyjamenn í djúpum hvað varðar samgöngur,
og verða fjölmenna í mótmælagöngur og raula;
"Röng höfn á röngum stað með RANGT hannaða hafnargarða...jejeje"
undir lagi Sólstrandagæjanna "Ég er rangur maður, á röngum tíma,
Húsfreyja sendir Eyjamönnum öllum enn og aftur baráttukveðjur.
Þetta "Landeyjahafnarsamgöngumálaklúður" er þeim ekki boðlegt.
Góðar stundir.
Landeyjahöfn á röngum stað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.