3.9.2011 | 19:55
Að þjappa sér saman í andlitinu?
"Hvað sagði Eiður Smári" húsfreyja var farin að halda
að hún hefði orðið fyrir heyrnartjóni, þegar hún mætti á Melavöllinn
nú á dögunum, að fylgjast með leik ÍBV og KR.
"Það á bara ekkert að tapa fyrir leiðinlegu norsku liði",
bóndi sár yfir tapi sinna manna.
"En sagði Eiður Smári að "þeir yrðu að þjappa sér saman í
andlitinu......hvað þýðir það eiginlega"??, húsfreyja var engu nær.
Bóndi svaraði ekki svona " skiptir ekki nokkru máli-spurningu" húsfreyju.
"Djö... hugsaði húsfreyja, ekki nóg að ég er hundsvekkt yfir
tapi strákanna okkar, ég er líka hætt að skilja hvað þeir segja".
"Hvað getur það bætt fótboltaleik okkar manna, að verða
"þéttari, þrýstnari eða útroðnari" í ANDLITINU", hugsaði
húsfreyja örvæntingafull.
Hún gjóaði augum á bónda sinn....ætti hún að reyna að spyrja
hann betur út í þetta að "þurfa að þjappa sér betur saman í andlitinu"?
Neipp, bóndi var horfin á vit frétta af rosalegum fellibylum og flóðum í henni
Ameríku. Fimmtíu dánir í því fárviðrinu. Köld hönd dauðans strauk eitt
augnarblik yfir hjarta húsfreyju...brrrrrrr....
Neipp, ekki vert að vera að trufla bónda, enda farinn að ræða við 10 ára
djásnið um Hrútatungurétt, þar sem hann hafði á árum áður með Sigurði afa
sínum mætt, og tekið fé traustu taki og dregið í dilka.
Húsfreyja ákvað að kíkja í orðabók sína.
Sei, sei jú, hún hafði munað rétt þýðingu sagnarinnar að þjappa.
En rak síðan augun í þjappa að e-u sem þýðir að þjarma að
e-u eða kreista e-ð eða e-n óþyrmilega.
"Jeminn, varla vill Eiður Smári að liðsmenn berji hvorn annan óþyrmilega
í andlitið, eða kreisti, til þess eins að þeir nái að taka sig saman í andlitinu,
þjappa sér saman og sigra norsara í fótbolta eftirleiðis og um alla
ókomna tíð"!
Húsfreyja var við það að fá höfuðverk yfir þankagangi þessum.
"Það yrði þá ljóta liðið sem keppti fyrir hönd okkar Frónbúa"
hélt húsfreyja pælingum sínum, "allir bláir og marðir í andliti,
með fjólublá glóðaraugu og sprungnar varir".
"Jæja, þeir hætta þá kannski við helvískan "lesturinn"
í miðjum leik, ef augu þeirra eru stokkbólgin og þrútin,
og dunda sér við að lesa orðið "leikinn" RÉTT uppi í rúmi,
þegar þá tekur að syfja"( sbr. "hann er að lesa leikinn rétt"...
vinsæl setning hjá snjöllum fjölmiðlamönnum), hugsaði húsfreyja
með sjálfri sér og glotti.
Hehehehehe..... húsfreyja stóðst ekki mátið.
Hefur bísna gaman að málfari fótboltakappa og þeirra sem
fótboltaleikjum lýsa í fjölmiðlum.
Orðaleppar þeirra eru algjör snilld, og oft æði snúið að
ná að tengja þá við FÓTBOLTALEIK/KNATTSPYRNU.
Gaman að þessu.
En húsfreyja vonar eigi að síður, að Eiður Smári láti vera
að berja mann og annan í andlitið í okkar frónverska liði,
og vonar að hann hafi aðallega verið að ræða um,
að hann og strákarnir okkar yrðu að "þjappa sér betur saman"
og jafnvel að "taka sig saman í andlitinu"
til að eiga einhvern sjens á að sigra norska frændur vora.
Góðar stundir og góða helgi, og í guðanna bænum þjappið ykkur ekki saman
í andlitinu.
Grátlegt tap fyrir Noregi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Spaugilegt | Aukaflokkur: Íþróttir | Breytt 23.9.2011 kl. 16:24 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.