5.7.2011 | 18:57
Himininn mergjaður...
...svona heiður og blár" hugsaði
húsfreyja er hún rölti heim á leið
með hálfullan Hagkaupspokann.
Esjan blikkaði húsfreyju vinalega,
um leið og systir í Þorlákshöfn sagðist
hafa tapað öllum áttum.
"Nú Esjan er þarna, skólinn hér fyrir framan okkur
og húsið handan við " húsfreyju fannst þetta ekki mikið mál.
Systir náði áttum og dæsti af létti.
Hún öllu hlaðnari en húsfreyja eftir fatakup í Hagkaup,
útsala þar í gangi, og hefði ekki viljað ráfa rammvillt
um Grafarvoginn hlaðin pokum og pinklum.
Húsfreyja brosti í kampinn.
"Það er ekki flókið að rata hér innan Grafarvogs, systir,
það var eitthvað annað hér í London um árið".
Það sumarið hafði húsfreyja skroppið í hátignarlega
borg bresku Betu, sjálfa London með tveimur vinkonum sínum.
Aldrei þessu vant viðraði brilliant vel í London,
enda hásumar, 30 stiga hiti, himinninn heiður og
blár dag eftir dag og sú gula í essinu sínu.
Þær stöllur höfðu vaknað snemma þrátt fyrir ágæta
loftræstingu Grafton hótels, sem var spölkorn frá
Oxfordstræti og Piccadilly.
Dagurinn var strax orðinn mollulegur fyrir
hádegi, og aðalverkefni ferðarinnar framundan.
Skreppa niður í katalog-verslun á Oxford og
ná lagernum af þeim kaupahéðnum er þá verslun ráku
fyrir systur húsfreyju, vinkonu hennar í Eyjum og
smotterí fyrir múttu.
Þrátt fyrir miskunnarleysi þeirrar gulu, svækjuhita
og skerandi birtu í augun, drifu vinkonurnar þrjár
sig af stað í verslunarleiðangurinn fyrir hádegi.
Illu var best af lokið, og þá gætu þær svo dólað
sér í hádegissnarl í rólegheitum og skroppið
og kíkt á Tower í London á eftir.
Í katalogversluninni töpuðu vinkonur og húsfreyja
sér alveg yfir allri dásemdinni sem var í boði,
svo sækja varð í "varalager" verslunarinnar svo
þær fengu allt sem þær NAUÐSYNLEGA urðu að kaupa....
fyrir utan barnasæng, kerrupoka og annað dótarí
fyrir systur, vinkonu og múttu.
Út fóru þær með 12 poka í yfirstærð, troðfulla.
Stöllurnar þrjár fíluðu sig líkt og "pokafólk" í New York
í skrúðgöngu 4 júlí, þegar þær komu út á Oxfordstræti.
Þær ákváðu í snatri að flýja niður í næstu "undirgrund",
eins of þær kölluðu oft neðanjarðarlestarnar, og koma
"vörulagernum" upp á hótel.
Voru alls ekki í sinni fyrstu Lundúnaferð, og voru
vel kunnugar lestarkerfinu og nokkuð flinkar að
nota það.
Jamm.
Rétt lest fundin í snatri og síðan öllu pokadótaríinu
troðið inn, og þær stöllur töldu sig hólpnar.
Yrðu þá ekki hirtar upp af snyrtilegum breskum
lögregluþjóni, sem kærði þær fyrir að vera
amerískar "bag-ladies" í London...sektaði þær
jafnvel fyrir "sjónmengun".
Og lestin brunaði af stað.
Vinkonurnar rýndu á hvert stöðvarmerkið
á fætur öðru......nah.......nei......ekki þessi...
hva...rosalega var langt í þeirra endastöð.
Greinilega hrikalega margar stöðvar á milli.
Þær stallsystur með 12 pokana sátu rólegar, spjölluðu
og þóttust ekki taka eftir augngotunum sem
þær og farangur þeirra fékk frá öðrum farþegum.
Skyndilega birti.
Lestin kom UPP á yfirborð jarðar.
Hvurslags?
Var þetta ekki NEÐANJARÐARLEST?
Vinkonurnar litu í kringum sig.
Þær virtust vera komnar upp í sveit.
Hvar var Grafton-hótelið?
Hvar var LONDON?
Eftir dágóðan akstur, stöðvaði loks lestin við
litla lestarstöð.
Vinkonurnar rusluðu sér út í snarhasti,
með alla pokana 12.
KRÆST.
Þær voru rammvilltar.
Míni-panikk greip stöllurnar,
þær hringsnérust góða stund,
áður en þær áttuðu sig og komu sér
yfir á stöðvarhelminginn þar sem lestin
stöðvaði á leiðinni inn í borgina aftur.
Þær tylltu sér á bekk á stöðvarpallinum,
með pokana 12 þétt upp við sig.
Sólin var að steikja úr þeim heilabúið.
Hitamælir á veggnum á lítilli stöðvarbyggingunni
sýndi hitastigin bæði á Fahrenheit og Celcius.
Hiti 41 gráða á celcius!
Stöllurnar voru aleinar.
Ekki sála á ferli.
Jaso.
Húsfreyja litaðist um í von um að
finna eitthvert lífsmark.
Handan lestarteinanna var víðáttumikill akur,
móaði í agnarsmátt legóhús, rytjuleg tré
og tvær beljur á beit út við sjóndeildarhring.
"Jæja, það er þó altént lífsmark" hugsaði
húsfreyja, er önnur kýrin lyfti haus frá jðrðu.
En ákvað síðan húsfreyja að standa upp og
líta yfir vegginn bak við bekkinn.
Fór um hana hrollur.
Gamall kirkjugarður.
Gráir, illa farnir legsteinar.
"Stelpur, við virðumst hafa lent hér með pokana okkar 12 á stað
MITT Á MILLI LÍFS OG DAUÐA".
Vinkonurnar litu við.
Síðan á hvor aðra.
Á pokana 12 fulla af varningi.
Skelltu upp úr og grétu af hlátri.
Veinuðu af hlátri.
Þegar hópur af ferðalöngum á leið til
London komu upp á lestarpallinn,
ráku þeir upp stór augu.
Á eina bekknum þar sátu 3 ungar konur,
í hrúgu af stórum pokum frá "katalogverslun"
og grenjuðu af hlátri.
" 'Orribly strange bag-ladies" hvíslaði ung
stúlka að kærasta sínum er hún fór fram hjá
bekknum.
Húsfreyja og vinkonur hennar misstu þar með
alla stjórn á hlátrinum, og voru nánast frávita
að hlæja alla leiðina aftur til London.
Komust við illan leik upp á Grafton hótel,
með alla pokana 12!
Týndist ekki einn einasti.
Af 12 poka-varningi þessum á húsfreyja aðeins
einn hlut enn: Forláta hljóðláta vekjaraklukku,
sem vekur húsfreyju á hverjum virkum morgni
með ljúfri röddu. "It's time to wake up"!
Hvort vinkonur eiga eitthvað eftir af sínum
kaupum, veit hún ekki.
En mikið rosalega voru þetta bráðnauðsynleg kaup
þarna um árið.
En húsfreyja ætlar til ferða að sækja Svöluna úr bíó.
Vonandi ratar hún......
Góðar stundir á fögru sumarkveldi.
Athugasemdir
skemmtileg saga....
Sigrún Óskars, 6.7.2011 kl. 20:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.