26.9.2010 | 11:12
Enginn gosórói.
Helgafell er "útdautt" eldfjall,
var viðkvæðið í barnaskóla
Vestmannaeyja, þá húsfreyja var lítil skotta.
"Fjallið hefur ekki gosið í 5000 ár,
og telst því útdauð eldstöð" kváðu spakir
menn og gjóuðu skörpum augum til
suðurs, þar sem Surtsey reis kolsvort
við sjóndeildarhring.
Tveimur litlum jarðskjálftum
fann svo húsfreyja fyrir að kvöldi
dags 23 janúar 1973....ekki víst að
þeir hefðu verið taldir sem "gosórói",
nema vegna þess að nokkrum mínútum seinna
stóð austurhluti Eyjanna uppljómaður sem um hábjartan dag væri,
af einum ægilegustu eldsumbrotum
Íslandsögunnar á síðustu öld.
Og húsfreyja gat ekki betur greint, og það með
sínum eigin augum, að fjandans gossttrókarnir
ættu upptök sín í austuröxl "útdauða" eldfjallsins,
HELGAFELLI.
Og þarna duddaði hið útdauða eldfjall sér við að
spúa eldi og eymyrju upp í himinhvolfið,
á meðan það "drullaði" sirka 3000 stiga hrauni
yfir blómlega byggð, mánuðum saman.
Eyjamenn misstu heimili sín, hálfa búslóðina
margir, vinnustaði sína og samfélag sitt
á einu bretti.
Sorg þeirra yfir missinum var nánast áþreifanleg.
Húsfreyja gerir aldrei lítið úr jarðhræringum
nálægt eldstöðvum á litla Fróni,
"útdauðum" sem virkum, býttar engu.
Stórir skjálftar eða litlir, býttar engu.
Húsfreyja ber óbifanlega lotningu og virðingu
fyrir ógnakröftum "móður Jarðar", og veit að móðurinni
er ekkert ómögulegt.
Ekki einu sinni það að láta "útdauðar"
eldstöðvar gjósa.
Hvort "móðurinni" hentar svo að gefa oss örmum
og aumum jarðarbúum einhverjar aðvörun með
"gosóróa", þá hún hyggst brjálast af vonsku og ákveða
að spúa hressilega úr iðrum sínum til að létta sér lund
og til að hrista upp í "óværunni" sem sínkt
og heilagt plagar hana, er algjörlega í hennar valdi!
Svo ef eitthvað er farið að hristast uppi á Vatnajökli,
þá færi húsfreyja varlega í það að afneita "gosóróa".
Hefði svona frekar varann á.
Það er svona tilfinning húsfreyju, að "móðirin"
hafi ekki sagt sitt síðasta í eldstöðvum
Suðurlands, þetta árið.
En húsfreyja játar það fúslega að hún
er enginn spekingur, þaðan af síður vísindamaður
með gráður í jarðeðlisfræði, og ekki vill hún á nokkurn máta
telja sig jafn vísa sem hinir vitru
menn Eyjanna, sem sögðu Helgafell útdautt.
Nei, húsfreyja er hógvær kona og vill þekkja sín mörk og sína
annmarka.
En þið mynduð ekki finna húsfreyju uppi á Vatnajökli eða
í 50 kílómetra radíusi út frá honum um þessar mundir,
nema í dái eða steindauða!
Sei, sei, nei.
Það er svona "kjarnorkusprengju-upplifun" að
fá eldgos í andlitið úti í bakgarði á heimili sínu
að næturlagi um hávetur.
Og eitt slíkt er mikið meira en nóg ævilangt.
Markar sálina um alla ókomna tíð.
Enn þann dag í dag, dreymi húsfreyju eldgos
er það fyrir andláti í fjölskyldu hennar.
En húsfreyja er í letikasti á regnvotum sunnudegi í
borginni við sundin bláu....kötturinn búinn að æla,
svona eins og til að mótmæla "gosóróleikaleysi",
og níu ára djásnið er að jafna sig eftir samræmdu prófin.
Bóndi fastur í viðjum fótbolta í kompjúternum.
Dýrðar dagur framundan.
Góðar stundir.
Athugasemdir
Sæl Sigríður. Hvað ég er innilega sammála þér.Hér bý ég á virkri eldstöð(VEstmannaeyjum) og geri mér fyllilega grein fyrir að allt getur gerst. Fámæli vísindamanna gagnvart duttlungum náttúrunnar hefur oft vakið furðu hjá mér. Þetta er eins og pólitíska glákan.Sumum reynist mjög erfitt að samþykkja sannleikann. Ég las góða grein eftir Ármann HÖskuldsson eldfjallafræðing þar sem hann sagði að það gæti nánast alls staðar gosið hér á landi. Reykjanes,Hafnarfjörður,Bláfjöll,Snæfellsjökull,allt eru þetta "sofandi eldstöðvar sem gætu vaknað. Sagan segir okkur einmitt eins og þú bentir á að eldjöll eru ekki útdauð þó að þau hafi tekið sér hvíld í 5000 ár. Nokkrum dögum fyrir gosið í Eyjum fór ég ásamt vinum mínum(var 12 ára) upp á Helgafell. Þegar heim kom ræddi ég við móður mína um hvað við ættum að gera ef að gysi. Hún tók þannig til að orða að það væri til nóg af bátum til að bjarga okkur. Aldrei hvarflaði að henni að við ættum eftir að upplifa þetta nokkrum dögum seinna þegar að sprungan opnaðist 500 metrum frá heimili okkar. Eftir slíka lífsreynslu ber maður virðingu fyrir lífinu og náttúrinni. Bestu kveðjur og fyrirgefðu þessa langloku.
Ragna Birgisdóttir (IP-tala skráð) 26.9.2010 kl. 12:12
Sæl Ragna og þakka þér kærlega fyrir þetta góða komment. Þú ert þá líklega í mínum árgangi því ég var sjálf 12 ára í gosinu. Er sammála þér, vísindamenn ótrúlega rólegir á stundum þegar jörð hristist á okkar litlu eldfjallaeyju....og allt dótaríið virkt og getur gosið hvenær sem er. En máske vilja þeir ekki koma af stað ofsahræðslu og panikk, að óþörfu, en eigi að síður mættu þeir biðja fólk að hafa varann á, því síst er betra að sitja í súpunni eins og við gerðum forðum daga 1973.
Kærar þakkir aftur og kveðjur út í Eyjar á mína heimaslóð.
Sigríður Sigurðardóttir, 26.9.2010 kl. 12:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.