19.2.2010 | 19:16
Hjartanleg hamingja.
Ekki hægt að segja að
niðurstöður þessar komi húsfreyju
á óvart.
Virðist einhvern veginn liggja í hlutarins eðli,
að hamingjan stuðli að heilbrigðu hjarta.
Í allan dag hefur vorið verið að ljóma.
Ég vaknaði snemma í morgun við fótatak dagsins.
Við gluggann heyrðust himneskir söngvar óma.
Hjarta mitt skalf við raddir fagnandi lagsins.
.............
Því þá er það lífið, sem yrkir sín ástarljóð og sögur,
og æskan ræður ei lengur við hamingju sína-
Já, gott áttu, veröld, að vera svo ung og fögur,
og von er, að sólinni þyki nú gaman að skína.
Tómas Guðmundsson
Já, alltaf góður Tómas.
Húsfreyja sér svo að önnur hver frétt í fjölmiðlum
fjallar enn og aftur um kerlingarfáluna hana "Ísbjörgu".
Og að menn hafi jafnvel sammælst um herfuna á þingi!
Jaso!
Þeir sameinast í félag eða flokk,
til fundarhalds í lífsins hlekkjasmiðju,
og gera sér og sínum gapastokk
og segjast stunda mikilvæga iðju.
Sé útsýn þeirra orðin nógu þröng,
og enginn getur slitið tjóðurbandið,
þá hefja þeir sinn heilagsandasöng
og halda, að þetta sé- að frelsa landið.
Davíð Stefánsson frá Fagraskógi.
Húsfreyja dólaði svo sér og 9 ára djásni í
sjúkraþjálfun í morgun.
Djásnið í 4 daga vetrarfríi, dæsti í morgunsólinni
og sagði: "Það er gott að vera í fríi":
Eftir teygjur, nudd og bylgjur á ellihrumum
hrygg húsfreyju, brenndu mæðgurnar sér
í Perluna.
Skoðuðu bækur, lásu í bókum og að lokum, keyptu
sér bækur.
Djásninu datt í hug eftir bókakaup, að hægt væri að rölta um
í skóginum í Öskjuhlíðinni, en hætti snarlega við
þegar út úr Perlunni kom.
Nístingskaldur næðingur hafði rifið sig upp,
og smeygði sér upp undir úlpur og ofan
í hálsmál. Brrrrrrrrrr....!
Við Þorlákur.
Þorlákur helgi
fann aldrei að veðri
að minnsta kosti ekki upphátt
vissi líklega sem var
að það væri ekki til neins
enda maður klókur
að svo miklu leyti
sem hann var maður
En ég er ekki helgur
og því segi ég enn og aftur
að mikið andskoti hata ég
svona rok í sól
Þórarinn Eldjárn.
Svo húsfreyja og 9 ára djásn létu gott heita,
og brunuðu heim á leið með stuttri viðkomu
í "svínslegu búðinni".
Þorir vart húsfreyja að nefna hlutina réttum
nöfnum lengur, svo margir reiðir og æstir í
þjóðfélaginu í dag.
Skapari
Kann vera
að þú sért stoltur
af sköpunarverki þínu
sjötta daginn.
Ég,
sem þó er málið skylt,
er ekkert yfir mig
hrifinn.
Kristján frá Djúpalæk.
Húsfreyja svo komin í helgarfrí.
Vill helst leggjast undir feld og
lúra fram á vor.....en það
er nú sjálfsagt bara flensuskítnum
í haus og hálsi hennar að kenna.
Verður borubrött og eldklár í slaginn
þá næsti mánudagur ber dyra.
Góðar stundir og góða helgi.
Bros eru holl fyrir hjartað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.