18.2.2010 | 19:25
Vélsleðar...
...geta verið skaðræði", frænda
húsfreyju var mikið niðri fyrir.
"Þarna vorum við stödd með hópi af fólki,
ég og mín heittelskaða ektaspúsa uppi á
miðjum Langjökli, og höfðum ALDREI farið á
vélsleða fyrr en þarna.
Tveir voru á hverjum vélsleða, og kom það í hlut
kvennanna að sitja aftan við okkur karlana og
halda sér í einhverja stöng.
Veðrið var ekki slæmt, nema það var hauga drulluþoka",
frændi húsfreyju dró augað í pung og saup á kaffibollanum.
"Svo þarna var ég gerður ábyrgur fyrir lífi okkar beggja,
sem ökumaður og fengum við þær leiðbeiningar einar
að kæmi eitthvað upp á, væri best að "kasta sér
af sleðanum", svo við lentum ekki undir honum".
Frændi dró andann djúpt, smakkaði kleinuna og
líkaði greinilega vel, því hann sporðrenndi henni.
"Og af stað fórum við ásamt fleira fólki á vélsleðum,
á meðan aðrir voru á stórum sleðavögnum dregnir
af snjóbílum. Ég þóttist aldeilis góður, og gaf í og
sentumst við eiginkonan í loftköstum yfir frerann.
En heldur hef ég víst farið geyst í þokunni, því
allt í einu birtust tvær allstórar ójöfnur beint fyrir
framan vélsleðann okkar, og það var ekki annað að
gera en að láta sig vaða yfir þær".
Frændi horfði glettnislega á frænku sína, og
glotti þegar hann sá að hann hafði fangað
athygli hennar alla.
"Og hvað svo"? spurði húsfreyja spennt.
"Nú við flugum þarna yfir, og ég æddi svo
áfram með tryllitækið eftir tiltölulega sléttum
ísnum dágóða stund, þegar allt í einu kemur
annar vélsleði út úr þokunni og í veg fyrir mig.
Nú ég snarstansa.
Heyrðu góði, er galað til mín, hvað gerðirðu við
frúna þína?
Ég sneri mér svo skart að ég var næstum
farinn úr hálslið.
Það sat engin ástkær eiginkona í aftursætinu lengur.
Ég skimaði í angist í kringum mig.
Og viti menn!
Þarna lengst í fjarska, úti í þokusortanum sá ég
grilla í einn örsmáan dökkan díl.
Ég snarsnéri sleðanum eins og andskotinn sjálfur
hefði birst með logandi þrífork fyrir framan mig,
og brenndi yfir ísinn til baka.
Þegar nær dró "dílnum" sá ég að hann var
sem betur fer mín ástkæra eiginkona.
Hún stóð þarna ein og yfirgefinn í þoku uppi
á miðjum jöklinum og hágrátandi.
Hún var búin að sjá allt líf sitt renna fyrir
hugskoti sér, kveðja alla ástvini sína í huganum,
bölva mér niður til heitasta heitasta, fara þrisvar
með Faðirvorið og átti aðeins eftir að skrá hinstu
kveðjur og síðasta vilja niður í litlu vasadagbókina sína,
þegar ég snéri aftur".
Frændi skellti sér á lær og hló glaðhlakkalega.
Húsfreyja gat ekki annað en hlegið með honum.
Það krymti í frænda.
"Auðvitað hafði mín ektakvinna "kastað sér af"
bévítans ökutækinu, þegar við fórum yfir ójöfnurnar,
því hún taldi að við værum að lenda ofan í jökulsprungu"!
Nú hlógu allir við borðið í erfidrykkjunni.
Frændi svolgraði kaffið.
"En það var ekki allt búið enn".
Hann blikkaði húsfreyju.
" Ég lét þetta mér að kenningu verða, og skellti
frúnni inn í einn bílanna sem drógu sleðavagnana.
Settist svo aftast í hornið vinstra megin í sleðavagninn.
Og ekki vorum við búin að aka lengi þegar
sleðavagnsfjandinn var kominn hálfur ofan
í sprungu "mín megin", svo ég sat þar sundurkraminn
með haug af körlum ofan á mér, og horfði
beint niður í "gapandi dauðann".
Frændi hryllti sig.
"En þá var líka helvítis jöklaferðin blásin af,
og okkur var komið ofan af jöklinum í
í einum hvínandi hvelli"!
Og allir áheyrendur skelltu upp úr enn og aftur.
Jamm, það var ljúft að hitta ættingja og vini
í erfidrykkju einnar mætrar konu úr Eyjunum
nú á dögunum.
Rifja upp góðar minningar og skemmtilegar sögur,
um leið og góð kona var kvödd hinstu kveðju.
En djásnið þarf í kompjúterinn.
Góðar stundir.
Fær ekki bætur vegna vélsleðaslyss | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.