15.2.2010 | 18:34
Eins og skotin í höfuðið....
....hugsaði húsfreyja örvæntingarfull.
Hún horfði furðu lostin á níu ára dóttur sína.
Níu ára djásnið stóð á orginu,
tárin runnu niður rjóðar kinnarnar í stríðum taumum.
Blés í lítinn plastpoka af og til, eins og til að ná upp
hærri eyrnarskaðandi roku næst, sú stutta.
Kötturinn æddi um íbúðina, af angist og tók
svo á blússandi fart upp um veggi...fjóra hringi. VRÚÚÚMMMM!
Staðnæmdist loks á eldhúsborðinu og ÆLDI hressilega yfir
stærðfræðibók djásnisins, ...og slímugar ælusletturnar
náðu einnig að sóða út hornið á skriftarbókinni og
heimavinnumöppunni.
"DJÍSUSS, nú hringi ég sko í 112", húsfreyja vissi hvorki
upphaf né endi á hrikalegu neyðarástandi þessu
á heimili sínu.
"Hvað var eiginlega í gangi"?
Hljóp fyrst húsfreyja á harðaspani með æludraslið
undir elhúskranann og reyndi að
bjarga skólabókunum frá stórtjóni.
Tókst að skola mesta jukkið burt án þess að
rústa bókunum.
"Sjúkkit".
Kom auga á hvíta pappíra, sem djásnið hélt af og til á
með hvítum hnúum, og orgaði því meir þegar hún gjóaði á þá augum.
Húsfreyja losaði um krampakennt takið á blöðunum,
og náði þeim af djásninu.
"Orðalisti"???
Varla var þetta smásaga...nema hún fjallaði um
"afbrýðisaman, fjölbreyttan og hnédjúpan miðvikudag"??
"ÉG ER SVOOOO LÉLEG" orgaði djásnið á háa séinu.
Og svo: "ÉG GET ÞETTA EKKI"....blés í pokann af gríð og erg....
"...ekkasog...ég var VALIN til að keppa í stafsetningarkeppni fyrir
bekkinn".....oooooorrrrrrgggggg!
Húsfreyja skoðaði blöðin.
"Er þetta nú svo slæmt"?
"Já, og ég á sko eftir að falla út á fyyyyyyrsta orðinu...ooooorrrrg".
Níu ára djásnið sá tómt tjón, hrun, angist, dauða og djöful
fyrir hugskotum sér...."ég get ekki einu sinn stafað
fyrsta orðið rétt....afbrýðisemi"...ooooorg...blás...blás.
Húsfreyja tók til við að þrífa æluslettur eftir köttinn
á eldhúsborðinu.
"Jamm, en við skoðum nú þetta bara í kvöld í
rólegheitum, rófan mín, og tökum þetta kvíðakast
út af dagskrá núna".
Djásnið róaðist smám saman og tók til við að læra heima,
þó að þær væru eitthvað þvældar skólabækurnar.
En kötturinn hélt áfram að spúa hér og þar næsta
hálftímann, og var að endingu hent út í súrefnið
á köldum sólpallinum....og ældi þar líka.
Djásnið ákvað að kattarrófan "hataði" stærðfræði,
og fór í það að þrífa upp ælu með húsfreyju.
Það verður svo snarl í matinn...húsfreyja hefur ekki geð
í sér að standa í stóreldamennsku eftir myljandi fjör
síðustu 2 tímana.
Það er tilhlökkunarefni húsfreyju að eiga svo eftir að lesa
yfir 120 orða lista með djásninu í kvöld....."komumst aldrei
framhjá fyrsta orðinu" segir djásnið.
Jamm.
En húsfreyja slapp þó altént við að hringja í 112!
Góðar stundir og munið svo að stafsetja "AFBRÝÐISEMI" rétt.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.