17.1.2010 | 15:42
Sextándinn....á nálum?
"En mamma, ég er ekkert orðin
9 ára á morgun! Ég er ennþá bara
8 ára".
Djásnið var með grátstafinn í kverkunum.
Húsfreyja reyndi að sjöttla málið.
"Já, en afmælið verður tvískipt, gullið mitt.
Vinkonur og skólafélagar á morgun þann 15.
en fjölskylda og vinir á sjálfan afmælisdaginn 16. jan."
"Já, en mamma þetta er AFMÆLIÐ mitt, og það er ekki eins og það
sé á HVERJU ári".
Svo skellihlógu þær báðar mæðgurnar, og húsfreyju tókst að
stynja upp, að afmæli væru jú á HVERJU ári!
Djásnið vildi þá að afmælið skiptist yfir á laugardag
og sunnudaginn 17. jan, en það var ekki inni í
myndinni hjá foreldrunum.
Hvíldardagurinn skyldi "heilagur" og afmælislaus!
Lágmark að þau hefðu einn dag til að "jafna sig"
gömlu hróin eftir gestagang, veisluhöld og stuð,
en það nefndi húsfreyja ekki við djásnið.
Djásnið lét segjast.
Fjósrtán skvísur sátu afmælisveisluna föstudaginn
15. jan.
"Ísöldin 3" reddaði miklu, og vakti stormandi lukku.
Eltingaleikur, feluleikur og blöðruleikir fóru svo af stað
eftir sýningu með miklum atgangi og látum.
Læðan lá bálreið inni í hjónarúmi, og mjavraði á skvísur
sem vildu fela sig þar inni.
Hennar umráðasvæði í afmælum, hjónaherbergið.
MJAAAVRRRR!
Skvísur létu mjavr og reiðilega sveiflu á skotti
ekkert á sig fá og földu sig tvist á bast.
Mikið fjör.
Mikið stuð.
Upp úr sex tók að fjara út gestagangur hjá
foreldrum, og sá síðasti kvaddi um kvöldmat.
-DÆS-
Foreldrar sælir að hafa lifað af skvísuhremmingar,
kattarofnæmi og fjör.
Níu ára djásnið...mínus 1. dagur var alsæl.
Daginn eftir mættu svo ættmenni öll úr Þorlákshöfn,
þrátt fyrir að systir í Þorlákshöfn hefði spáð veðravíti með
mergjaðri ofankomu, snjóhríð og fárviðri.
Ekki mjög hrifin af ferðum í höfuðborgina við sundin bláu,
systir í Þorlákshöfn, að vetrarlagi.
Lét sig samt hafa það þrátt fyrir hrakviðrisspár...sem
virtust eingöngu hafa heyrst í fjölmiðlatækjum systur.
Enda regn, hlýtt og smá gola í höfuðborginni afmælisdag
9 ára djásnsins.
Einar besti vinur mætti að sjálfsögðu, og hann endurnýjaði
kynni sín við frændur djásnsins og Svöluna.
Það var myljandi stuð í barnaherberginu.
Ljós öll slökkt og "draugagangur" með mesta móti
enda draugaleikur í gangi.
Húsfreyja rauk óvart inn í myrkrið með myndavél á lofti
og baulaði hressilega þegar hún sá ekki glóru.
Öllu litla liðnu brá all hressilega, og skrækti upp og veinaði
svo af hlátri, þegar það uppgötvaði að "baulandi vofan"
var bara húsfreyja í síðu svörtu pilsi.
Systur 9 ára djásnsins mættu báðar, og Erla og Siggi
vinafólk úr Þorlákshöfn komu síðdegis.
Bróðir djásnsins og hans heittelskaða mættu svo í leifar
í dag, og telja nú foreldrar að "hátíðarhöldum"
stórafmælis þessa sé opinberlega og formlega LOKIÐ.
Þriggja daga stuð...þetta er eins og Þjóðhátíð í Eyjum...enda
mætti Johnsen hinn eini og sanni "konungur brekkusöngsins"
stutta stund í gær (16.) til að ræða við móður húsfreyju um
málverk eftir listmálara úr Eyjum.
Bara svona spjall.
Níu ára djásnið er nú eftir kaffi
löggst "undir feld" (bleikt prinsessu-flísteppi),
með gulan frostpinna úr Bónus, sem ekki gekk út í
afmælinu og horfir á barnaefni á SKY.
SPENNUFALL!
Húsfreyja gleðst í dag sem ævinlega yfir því
að hún þurfi aðeins að hafa EITT barnaafmæli á ári hverju,
enda þarf sterkar foreldrataugar í 3. daga þrotlaust fjör.
Húsfreyja svo búin að vera hjá sjúkraþjálfa,
sem telur að vænlegt sé að reka "nálar" á kaf í hold
húsfreyju, í einhverja "punkta" sem svíða meira undan
nálinni, en þegar húsfreyja brenndi hálfa hönd sína á logandi
eldavélahellu hér um árið.
Svo "SNÝR" þjálfinn helvískum nálunum í kviku þessari líka!
Jamm.
Hrifning húsfreyju á náladóti þessu er við neðri mörk aðdáunarskala hennar
á sjúkraþjálfun....svona rétt fyrir neðan og í kringum
"núllpunktinn".
En er víst allt saman bráðnauðsynlegar "aðgerðir"
svo húsfreyja megi aftur heilsu ná í mjóbaki sínu.
-DÆS-
Húsfreyju fellur alltaf eitthvað til.
Góðar stundir í vorblíðum janúarmánuði.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.