Færsluflokkur: Bloggar
27.7.2009 | 21:58
Sumarið og tilveran.
Nú veit ég að sumarið sefur
í sál hvers einasta manns.
Eitt einasta augnablik getur
brætt ísinn frá brjósti hans,
svo fjötrar af huganum hrökkva
sem hismi sé feykt á bál,
uns sérhver sorg öðlast vængi
og sérhver gleði fær mál.
Tómas Guðmundsson.
Og húsfreyja skrapp með átta ára
djásnið austur fyrir fjall í dag.
Þar blésu vindar, en sól skein í heiði.
Systir í Þorlákshöfn er á fullu í föndrinu
og býr til listaverk úr kuðungum og skeljum
í gríð og erg.
Mútta taldi "hausa" og stillti til friðar þegar
harka komst í leik peyjanna.
Síðan var drukkið kaffi og spjallað.
Djásnið lenti svo í "drullubardaga",
hvítar blúnduleggins gráar á eftir,
Alex fékk högg á bringu og sár á hné...
..."ekki góður dagur hjá mér, amma Stína",
Bæron fékk sand í augun frá Aroni bróður
sínum og fékk að fara í bað "einsamall"
eftir þá uppákomu.
Í stuttu máli allt í góðu gengi, og djásnið
náði sundi með bónda upp úr kvöldmat og
fékk "subway-samloku" í kvöldnasl.
Góðar stundir á góðum degi í faðmi
fjölskyldu.
Góða nótt og góðar stundir.
Bloggar | Breytt 30.7.2009 kl. 13:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.7.2009 | 16:39
Byrjuð, hálfnuð....
....og þar með BÚIN, húsfreyja
.
Ryksugun og gólskúringum lokið.
Smá tiltekt við rúm húsfreyju leiddi hana
síðan inn í spakmælabækur og
gullkornabókmenntir.
Hér koma nokkur góð
sýnishorn af lestri
dagsins:
Allt það mikilverðasta er einfalt
og má oft segja með einu orði:
FRELSI,RÉTTLÆTI, SÆMD, SKYLDA,
MISKUNN, VON.
SIR WINSTON CHURCHILL (1874-1965)
Ég strengi þess heit að gleðja einhvern
að morgni dags og hjálpa til að
deyfa sorg annars síðdegis.
Ég heiti að lifa einföldu lífi og heilsusamlegu,
láta mér nægja fáar eignir og halda
líkama mínum heilbrigðum.
Ég heiti að sleppa öllum áhyggjum og angri
til þess að andi minn verði léttur og frjáls.
Thich Nhat Hanh.
Höfuðmálið í þessum heimi
er ekki hvar við erum stödd,
heldur á hvaða leið við erum.
Oliver Wendell Holmes (1809-1894)
Þetta er alveg tilvalinn dagur.
Wilbur Cross (1886-1948)
Húsfreyja þar með hætt húsverkum í dag....BÚIN.
Þurrka af....?
Þrífa all spegla hússins.....?
Sei, sei nei.
Það er ekki á forgangslista húsfreyju í dag.
Rykið og speglarnir eru ekkert að fara,
verður allt heila dótaríið hér á morgun líka.
Nú og hinn!
Bóndi svo farinn í sund með átta ára djásninu.
Er að fá í kvöld að láni stórt og mikið "skjásjónvarp"
frá einkasyninum og hans ektaspúsu.
Þau að verða "útflutningsfólk".
Búin að kreista vinnu út úr frændum vorum
í hinu mikla olíuveldi Norska konungsins.
Skjáimbinn of stór og fær ekki að koma með.
Sjónvarpshjartað í bónda tók flikk flakk af gleði,
þó hann muni sakna sonarins.
En bóndi var að verða blindur á því að rýna
á sjónvarpsfréttirnar í "frímerkinu", sem fyllt
hefur skarð þunglynda "harakirissjónvarpsins"
undanfarið.
Húsfreyja líka að verða blind?
Sei sei nei!
Hún færði bara stólinn sinn NÆR frímerkinu,
og hefur lítið saknað steindauða sjónvarpsins,
þó töluvert stærra væri.
En húsfreyja ætlar að "vafra" næst...þetta er
jú alveg "tilvalinn dagur"
Góðar stundir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.7.2009 | 21:02
Dillandi brúðkaupsmars!
Tær snilld að mati húsfreyju
.
Allt leiftrandi af lífsgleði og hamingju.
Hló hjarta húsfreyju dátt og innilega
með gestunum í brúðkaupi þessu.
Er samt fegin að eigi þurfti hún og hennar maður
að stinga sér kollhnísa inn eftir kirkjugólfinu
í brúðkaupinu á Hvammstanga nú á dögunum.
Þá líklegt að húsfreyja og hennar bóndi væru
skrýdd hálskrögum og göngugifsi í dag.
Frábært myndband.
![]() |
Steypti sér í kollhnís að altarinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.7.2009 | 13:32
Hver er sinnar KÆFU smiður!
Laddi snjall í málsháttasmíð.
"Ekki er jakki frakki nema síður sé"
hljómaði einn á fyrstu dögum Rásar 2
á öldum ljósvakans.
Og svo uppáhaldsmálsháttur húsfreyju:
"Hálfnað er verk þá hafið er, og þá BÚIÐ
þegar það er hálfnað"!
Öll verk húsfreyju hafa ætíð síðan
"klárast og verið BÚIN" jafnt og þétt......
alla vega "helmingurinn" af þeim!
Og ekkert að því að eiga aðeins helming eftir
af verki, næsta dag....sem enn og aftur sannar
ágæti þessa fína málsháttar.
Því í asa og hraða nútímans er þessi
óbilandi og hrikalega þörf okkar mannanna að
"drífa í 'ðessu" og "klára málið sem fyrst"
algjörlega óþolandi, að mati húsfreyju.
Verkin oft unnin í of miklum flýti, sem kemur
aftur niður á gæðum og starfsgleði.
Húsfreyju finnst gott að geta staldrað við í
miðju verki, fær jafnvel hugmynd um hvernig má
betur gera og getur iðulega skilað verkinu fyrr
en ella þá nýja hugmyndin kemst í framkvæmd.
Sama gildir á heimilinu.
Húsfreyja og húsverk eru svona "andstæðir pólar",
og næsta líklegt að húsfreyja hafi síðustu 10 fyrri
líf sín verið "hefðarfrú" með þjóna á hverjum fingri,
og "hringja eftir þjónustu-bjölluna"
bundna við hægri mjöðm sína.
Gæti alveg útskýrt hví hún hefur iðulega verið svo
verkjuð og pirruð í hægri mjöðm sinni, í þessu núverandi
jarðlífi sínu.
Og hve "neðarlega" á forgangslistanum yfir nauðsynleg verk
að framkvæma, húsverkin lenda......ef þau ná yfir höfuð inn
á þann lista .
Göngutúr í fjöruna með djásninu,
vísitering í kaffi til múttu og systur í Þorlákshöfn,
brauðagjöf til handa hungruðu fiðurfé í Grasagarðinum,
sundlaugatúr með djásninu,
brúðkaupsundirbúningur með bónda,
Goslokahátíð út í Eyjar með djásninu og systur í Eyjum,
flandur upp í sveit með djásninu að skoða dýrin á Slakka
eru til dæmis allt "bráðnauðsynleg verk" sem húsfreyja
hefur nú þegar skellt fremst á forgangslista sinn í sumar.....
laaaaaaangt á undan ryksugun, skúringum, afþurrkun og
tiltekt.
Húsfreyja virðist hafa verið upptekin í "hárgreiðslu" þá
Guð útdeildi þrifnaðargenum í Himnaríki, og aðeins
fengið gamalt, slitið og mikið notað gen, sem "höktir"
í gang endrum og eins á fullu tungli, í 30 metrum á sekúndu,
þá þingmenn samþykkja að mæta 4 vikum fyrr í vinnu úr
sumarfríi!
Lætur nægja að sópa af og til, græja þvott, elda smotterí
milli þess sem bóndi grillar, henda ruslinu og þrífa salernið.
Og gengur bara fínt hjá húsfreyju.
"Hver er sinnar gæfu, eða eins og Laddinn vill hafa það, KÆFU smiður".
Njótið svo sumarsins, kæru landar mínir, allir sem einn.
Smíðið ykkar eigin gæfu...og kæfu.
Munið að forgangsraða rétt fyrir ykkur og fjölskylduna.
Börnin okkar eru börn aðeins stutta stund, svo verða þau
sjálf fullorðin og foreldrar.
Njótið samverustundanna með börnum og mökum,
með foreldrum og systkinum,
með vinum og félögum,
í gleði, frelsi og sumri.
Húsfreyja er farin í bað og ætlar svo að
gaufast aðeins og gutla í "húsverkum"....ehemmm.
"HÁLFNAÐ ER VERK ÞÁ HAFIÐ ER.......hehehe"!
Góðar sumarstundir.
Bloggar | Breytt 26.7.2009 kl. 11:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.7.2009 | 12:39
Þrumugott veður?
Það var hrollur niður eftir
baki húsfreyju, þá hún
vísiteraði Vestur-Húnvetninga
um helgina.
Þokuhráslagi og hitastig um 10 gráður
yfir frostmarki á Celsíus.
Og hún að mæta í brúðkaup.
Í farteski sínu hafði húsfreyja sínar
allra fínustu og "skjólminnstu" flíkur.....
og aðeins eina herlega peysu úr eðla
frónverskri ull....brrrrrr.
Á brúðkaupsdaginn horfði hún angistarfull á rauða,
sparikápu sína....sem yljar álíka mikið
og eitt logandi kerti í 400 fermetra stofu,
með engri annarri kyndingu, og pældi alvarlega
í því að þræla sér í lopapeysuna góðu, og svo
kápuna yfir allt saman.
Neipp.
Leit ver út en Michelin-gaurinn í 40 metrum á sek.
á Stórhöfða í Eyjum þannig útbúin, húsfreyja.
-DÆS-
Þá var bara að láta kápugopann duga, og
reyna að endurræsa "antikuldagenið" sem
hefur verið gjörsamlega óþarft í skrokki húsfreyju
síðan í lok maí, hér sunnan heiða.
Vona svo að kirkjur norðan heiða væru allar vel
kyntar upp "á sumrin".
Og viti menn.
Það var ljómandi hlýtt og notalegt í kirkjunni,
svo hlýtt að húsfreyja óskaði þess að hún hefði
sleppt því að þræla sér í rauðu sparikápuna.
En nú virðast norðanmenn heldur betur þurfa að
setja kyndingu sína í botn.
Snjóa að vænta....og það í miðjum júlímánuði!
Sei, sei.
Þeim fellur alltaf eitthvað til, norðanmönnum.
En húsfreyja vill senda norðanmönnum öllum baráttukveðjur
í "sumarófærðinni" og þá stendur þessi fyrir sínu:
Eyjan vor er engum köld,
er þú brosa lætur
hennar morgna, hennar kvöld,
hennar ljósu nætur.
Hún á okkar heita blóð,
hún hefir okkur borið
til að elska líf og ljóð,
ljósið, frelsið, vorið.
Þ.E.
Góðar stundir á snjósumri.
![]() |
Miðsumarhret í vændum? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.7.2009 | 19:31
Árbæjarsafnið?
"Jú....líklega höfum við
stund í að skoða það í dag".
Húsfreyja gjóaði augum á átta ára djásnið,
sem hafði sett upp sinn virðulegasta svip.
"Já mamma, það er svo langt síðan við fórum síðast,
að ég er búin að gleyma því".
Húsfreyja endurraðaði "hlutum sem verður að gera í dag"
með hraði í heilabúi sínu.
Henti út "ryksugun"....ekki tími...klukkutíma eldamennskan
fór sömu leið...allt of heitt hvort eð er......og hana nú!
Húsfreyja fann rúma tvo tíma fría í rölt á Árbæjarsafnið
fyrir djásnið og sig.
Það var heitt.
Sólin skein.
Munkur sat í horni, hræddi næstum líftóruna
úr átta ára djásninu.
Svo mikið hlegið.
Líkanið af brunanum mikla 1915 vakti líka
stormandi lukku.
Múttan ýtti á einhverja takka, og mikið bál blossaði
upp í líkaninu!
Þær mæðgur hoppuðu hæð sína, svo mikið brá þeim.
Aftur hlegið dátt.
Þýsku konurnar tvær sem virtust ætíð 2 skrefum á eftir
húsfreyju og djásninu, hlógu ekki.
Ræddu málin af miklum ákafa á meðan önnur þeirra
tróð sér upp að standklukkum, þvottabölum, lokrekkjum,
rokkum, skaftpottum og hrífum...svo smellti hin af í gríð og erg
Canon digital með breiðri linsu.
Húsfreyju datt einna helst í hug, að þýsku frúrnar hefðu
hug á að fjölfalda og framleiða gamla frónverska muni,
þá þær aftur stigu þýska grund......selja túristum grimmt,
svo mikð og nákvæmt var myndað.
Húsfreyja ákvað að hrista hinar alvarlegu símyndandi
þýsku frúr af sér.
Rölti með djásnið í átt að Dillonhúsi.
Haninn gól.
Ung frónversk kona í fornfálegum fötum mætti
niður að girðingu, að handmjólka kúna.
Mjólkaði fullan bolla af spenvolgri mjólk í bolla
af stakri snilld og lagni.
Gaf áhorfendum að smakka.
NAMM!
Síðan greip sú handlagna hvíta emaleraða fötu
og mjólkaði.
Frónverskur "hnakki" átti þá frómu og einlægu ósk,
að "beljan ærðist" og sparkaði fötunni hálfullri af mjólk
um koll......hló svo geðveikislega
Aðrir áhorfendur stigu allir 3 skref í áttina burt "frá hnakkanum",
og vorkenndu 6 ára syni hans?/ bróður hans? ægilega.
Hnakkanum varð ekki að ósk sinni.
Hrúturinn skartaði 4 hornum, og var vinalegur með afbrigðum.
Elti djásnið eftir girðingarstubbnum, en sýndi ánum enga athygli.
Dillonhús aftur.
Djásnið snæddi upprúllaða pönnuköku með sykri, en húsfreyja
fékk "risastóra" súkkulaðismáköku.
Kveðju kastað á hænurnar....haninn búinn á því í hitanum,
virtist sofa, og svo haldið af stað heim.
Húsfreyja svo nýkominn að norðan með sína herlegu
fjölskyldu.
Fóstursonur bónda að ganga í hjónaband.
Mikið um dýrðir.
Falleg athöfn í kirkjunni á Hvammstanga.
Himnesk veisla í félagsheimilinu, krásir,grín,
söngur, glens og gaman.
Allir lukkulegir og alsælir með daginn.
Aðeins kötturinn sem var allur í tjóni, og æddi um
eins og ljón í búri, fann ekki sólpallinn sinn, ekki
grastoppana fyrir utan pallinn sem hún var búin að
merkja sér vel og rækilega.
Fann ekki ráderinn bak við kompjúter húsfreyju,
þar sem himneskt var að liggja og velgja á sér
kviðinn, ekki einkakoju sína inni í barnaherberginu
og því síður dvergatré húsfreyju sem svo ágætt er
að tætast í og leika sér.
Hefur húsfreyja nefnt það, að köttur hennar "hatar"
ferðalög?
Er bullandi bílveik, arfastressuð og hefur engan skilnig á
svona hrikalegum óþarfa breytingum á íverustað!
Bóndi og djásnið svo farin í sund.
Húsfreyja ætlar að "tapa sér" í slökun!
Góðar stundir.
Bloggar | Breytt 21.7.2009 kl. 17:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.7.2009 | 19:40
Já, sæll!
"Gugga" ólétt eftir sundsprett
í hótelsundlaug í Egyptalandi!
Eigum við eitthvað að ræð'etta?
Hehehe...makalaus frétt.
![]() |
Getnaður í sundlauginni? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.7.2009 | 20:11
Tvöhundruð prósent!
Húsfreyja var aldrei seig í
prósentureikningi hér í den.
Og þó!
Gat alveg reddað sér þegar
verið var að reikna með prósentur
þar sem viðmiðið var 100 % hæst.
Hefur líklega verið á salerninu í Emm Err
með mergjaða steinsmugu af stressi,
þá lærifaðir mentskælinga kenndi 200%-útreikninginn.
Enda botnar húsfreyja lítið í tölum þeim sem nefndar
eru í frétt þessari...3-4.000 milljarðar.
Getur gott eins skroppið út í garð á fagurri
síðsumarsnótt, og dundað sér við að telja stjörnurnar
á himninum og fengið út álika gæfulega og óskiljanlega tölu.
Og húsfreyja telur sig ekki mikið bættari....eða mikið verri ef út
í það er farið, þó hún viti nú að heildarskuldir þjóðarbúsins stefni í að
verða meira en "200 %"!
Og lífið heldur áfram!
Og nú virðist vera komin á kreik mergjuð "Dabba-afturganga"
í Seðlabanka vorum Frónbúanna....úúúú!
Allt í hávaða á þinginu í dag, þar sem
menn töldu jafnvel "vel tölufrótt" fólk vera í
vinnu hjá "afsögðum" og burthorfnum Dabbanum.
Virðist jafnvel húsfreyju sem andi fyrrum seðlabankastjóra
reiki þar grimmt um Seðlabankaganga, og ráði fólk í vinnu til sín
tvist og bast, og gefi fyrirmæli um hverju skuli svara og
"hverja" skuli upplýsa um mikilvæga pappíra, skjöl og málefni.
Bara eitt!
Dabbi er, síðast þá húsfreyja fregnaði, enn í tölu "lifenda"!
Og menn eiga asskoti erfitt með vik að ganga aftur,
séu þeir ekki steindauðir.
En auðvitað getur Dabbinn haft fólk í vinnu hjá sér,
ef honum svo sýnist.
Hélt bara húsfreyja að seðlabankafólk hefði nóg að gera
á sínum vinnustað, og að lítill tími væri hjá því til að
sinna Dabba og hans áhugamálum svona í hjáverkum.
En hvað veit húsfreyja.
Máske bara bullandi, pollrólegt starf að vinna í
Seðlabanka litla Fróns í miðju bankahruni?
Dól! Dudd! Og snudd?
Jamm.
Hvað veit maður?
Veit bara húsfreyja, að þegar upp er staðið eru peningar
aðeins pappír.
Pappír tekinn úr skógum móður jarðar, brúkaðir af flestum
sem þægindaauki til að verðleggja vinnu sína og til að
losna við bein og seinleg vöruskipti.
Forgengilegir hlutir sem eru ágætir til síns brúks,
en langt frá því að vera það sem skiptir megin
máli í þessu lífi.
Góð heilsa verður til dæmis aldrei metin til fjár.
Og þá ekki traustur vinur eða elskuleg og stórbrotin
fjölskylda.
Hver verður að finna fyrir sig hvað það er,
sem gefur lífinu gildi.
En 200% og 3-4.000 milljarðar er fínt mál fyrir fólk sem
nennir að "telja" svo hátt, hefur gaman af útreikningum og tölum,
og er flinkt í "störfum" fyrir afturgöngur.
Góðar stundir.
![]() |
Stefna í að vera yfir 200% |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.7.2009 | 18:33
Skrapp í laugina...
...í hádeginu húsfreyja, með
átta ára djásninu og bónda.
Sat í hitakæsunni
á sundlaugarbarminum.
Skrapp svo í HEITU pottana og
KÆLDI sig, húsfreyja.
Laugin var tandurhrein og vatnið tært,
og starfsmenn á þönum að halda
öllu hreinu og fínu þrátt fyrir nánast
"lamandi" hitann.
Það var "hrein unun" að koma í Grafarvogslaug
í dag, þrátt fyrir að vart væri þverfótað í
pottum fyrir foreldrum með börn, börnum með
foreldra, unglingum að bæta í brúnkuna,
ellismellum að njóta lífsins og húsfreyjum
að meta "hreinlætisstaðal" sundlaugarinnar....
.....eehemm!
Bara getum ekki að þessu gert, húsfreyjurnar!
Er svona "ávanabindandi" eitthvað!
Allt múttu að kenna, uppeldinu og hreinlætisæðinu sem
tröllreið öllu eftir menn fóru að sjá "bakteríur"
og vírusa í smásjám!
OJ BARA
Jamm!
Smásjáin svona heldur óhuggulegt verkfæri
að mati húsfreyju, og eitt það hrikalegasta sem
hún varð að horfa í gegnum þá hún stundaði
hjúkrunafræðinám sitt.
Klæjaði vikum saman eftir að hafa rýnt í eitt
slíkt í sýkla-og veirufræðitíma.
Umhverfið er allt "kvikt og morandi"!
Brrrrr....og bjakk!
Hrollur!
En treystið bara að húsfreyja sé að segja
satt!
Farið ekki að kíkja í smásjár!
Það er bara fyrir hraustar taugar að berja slíkt augum!
BELIEVE AND TRUST!
En huggun harmi í: Allt þetta kvika hefur sinn tilgang hér
á jörð, og mannskepnan þarf á þessu "smotterísliði" að
halda til þess eins að lifa af!
Er "flest allt" að gera okkur gagn, þrátt fyrir miður fallegt
útlit (ekki er öll fegurð í "andliti" fólgin....ef andlitið yfirhöfuð finnst á ÞESSU).
Það eru bara þessir "ógagnlegu" og jafnvel oggulítið "hættulegu"
sem stundum bögga húsfreyju.....og allt mannkyn ef út í það er farið.
En jafnvel slíkt "micro-lið" hefur sjaldnast nokkuð í sterkt ofnæmiskerfi
mannsins að gera.
Finnum upp "mótefni"við öllu saman, og strádrepum þá ógagnlegu
næst er þeir berja dyra.
Stórkostleg sköpun mannslíkaminn.
Og þvílíkt innra vélvirki.
Þvílíkar innri varnir, mótstaða, seigla...og einhver
furðulegur "að komast af-vilji"!
Jamm... en þetta var nú einkennilegur útúrdúr hjá
húsfreyju...ætlaði að blogga smá um veðrið og sumarið.
Átta ára djásnið þrælaði móður sinni að sjálfsögðu upp
í stóru rennibrautina, heila salibunu með öldugangi upp á
2 metra þegar hún mætti niður.
Vatn gutlar svo vinalega í vinstri hlust húsfreyju eftir
renniríið....en húsfreyja hefur ekki nokkrar áhyggjur
af því, vatnið var svo hreint og tært!
Nú farið að styttast í sumarfrí húsfreyju.
HALLELÚJA!
Oft verið nauðsyn.
En nú er ÞÖRF!
Þrauka eina vinnuviku í viðbót,
og halda svo á vit sumars, ferðalaga og ævintýra......nú eða bara í
tandurhreina sundlaugina í Grafarvoginum!
Bóndi lofaði að grilla í kvöld í blíðunni...og það þó að
hann sé ennþá sjónvarpslaus eftir "harakiri" þess gamla.
Húsfreyja búin að henda bökuðu kartöflunum í ofninn.
Maíisinn inn næst!
Góðar sólarstundir!
![]() |
Stefnir í heitasta dag sumars |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 21.7.2009 kl. 12:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.7.2009 | 19:49
Redd'essu!
Skondin frétt atarna.
Húsfreyja hrifin af þankagangi farþegans,
sem svo heppilega vildi til að var einnig flugvirki!
Minnir hana þægilega á frónverska klisju:
"Þetta er ekkert mál, það er bara að redd'essu
í snarheitum".
Væri gaman að vita hvers lenskur tímasparandi og
"flugvélavænn" farþeginn í biluðu vélinni var.
Húsfreyja hefur sjálf lent í tvisvar í 16 tíma töfum
á flugvöllum.
Bæði skiptin hér í Leifsstöð vegna ....já flugvélarbilunar í eitt sinn,
en í seinna skiptið vegna vandræðagangs og óskipulags
ferðaskrifstofu hér uppi á litla Fróni.
Löng bið á millilandaflugvöllum, er bara ávísun á
stíftrekktar taugar, dauða-leiðindi, sívaxandi óðaþörf fyrir
að standa upp á Formicaborði og orga af lífs og sálar kröftum,
og bölv og ragn sem myndi jafnvel ofbjóða andskotanum
í útlegð á Suðurheimskautalandinu.
Vildi húsfreyja gjarnan að flugfélög hefðu það fyrir sið
að bjóða "flugvirkjum" frítt í ferðir sínar erlendis, gegn því
að þeir "redduðu" svona yfirvofandi 8-16 klst. bilunum,
á innan við klukkustund.
Það boðaði bara hamingju og gleði fyrir þá sem enn hafa
efni á að ferðast milli landa í krepputíð!
Góðar stundir!
![]() |
Farþegi gerði við flugvélina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)