Færsluflokkur: Bloggar
28.4.2010 | 17:50
Terroriseraður Mister Brown?
Máske rétt að senda Mister Brown
hlutekninga-og samúðarkveðjur,
vegna fjölmiðlaklúðurs þessa.
"Véfréttin" á Bessastöðum gæti tekið það að sér.
Jamm, þetta er ógurlegt!
Hrikalegt fyrir Mister Brown.
Gamalli kerlu leyft að rekja úr
honum garnirnar.
Standa reiknisskil á stefnu sinni og flokksins
í mikilvægum málum við "öldung"!
Ja, svei!
Hvurslags er þetta eiginlega?
Til hvers er eiginlega ætlast af
vesalings Mister Brown?
Á hann einn að svara fyrir svikin kosningaloforð?
Verja ákvarðanir sínar og flokksins þegar á
Stóra Bretland herjuðu kreppufár og viðbjóðslegir
hryðjuverkamenn frá hinum ægilega litla Fróni?
Svínslega svíðingslegt að lenda í þessu.
Og það "í beinni"!
Aumingja Mister Brown.
Ósköp á hann bágt.
Jamm.
En kannski að hann geti reddað þessu,
með því að skella einum herlegum "hryðjuverkalögum"
á þaulspyrjandi og nöldrandi kerlu þessa?
Dæma gömlu bara "hryðjuverkamann, og gera hana
útlæga til litla Fróns.
Okkur munar hvort eð er ekkert um einn "terrorista" í viðbót.
Sú gamla gæti máske kennt okkur að nota
einhver önnur "hryðjuverkavopn" en eldfjallaösku, pappírsfyrirtæki
og "veiðifæraklippur"!
Erum alveg hrikalega "lélegir" terroristar, Frónbúar,
varla að við kunnum að brýna hnífa og skæri....hvað
þá að búa til sprengjur, eða brúka byssur.
Þessir fáu frethólkar sem til eru í landinu
eru eingöngu brúklegir til að skjóta gæsir....
og "bannað-að-skjóta-nema-tvær-á-fullu-tungli-
í-7-stiga-gaddi-á-þriðjudegi-rjúpur"!
Svo við verðum að ganga í það að ræsa "eldfjöll"
hist og her um landið, til að eitthvað kveði að okkur
í hryðjuverkunum.
Sendum svo ösku til Mister Brown, til að sýna að við erum
"sannir hryðjuverkamenn" sem tökum hlutverk okkar alvarlega.
"Ash instead og cash" eins og gárungarnir segja!
Jamm!
Mister Brown á ekki sjö dagana sæla....og ekki margir
pólitíkusar sem sæta "gamlingjaofsóknum" í beinni.
Ræfils ræfilstuskan, hann Mister Brown!
Góðar stundir og sendið nú Mister Brown hlýjar hugsanir.....
með kolsvörtum öskustróknum yfir hafið.
![]() |
Axarskaft Browns rétt fyrir kjördag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 30.4.2010 kl. 13:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.4.2010 | 18:16
Fínt!
Við Frónbúar skellum okkur
þá í að kaupa hana þegar
hún verður boðin til sölu á "e-bay".
Veitir ekki af, okkur löndunum, að hafa nú
vaðið fyrir neðan okkur, eftir það
sem undan er gengið síðustu 2 árin.
Einkavæðingarhelvíti með pólitískri kreppu,
bankahruni og útrásarpakki rænandi og rupplandi,
var það fyrsta.
Í annan stað fóru svo öll heimilin í landinu
á hausinn af því að þau höfðu öll fjárfest
í "flatskjám" ( Þjóðin bara "brjálaðist"
í æðislegri eyðslu, sagði einn kreppusnillinn)!
Og í þriðja lagi er "sótsvartur djöfull" hlaupinn
í Eyjafjallajökul með tilheyrandi þrumum,
eldingum, eldspýjum, hraunrennsli og
öskuskít.
Næsta víst að að næst á dagskrá á litla Fróni
verði helvískur "40 daga rigningaskúr" ala
Gamla testamentið, með stórflóðum,
úthafsöldum og vatnsfárviðrum í kjölfarið.
Þá er skárra að hafa til taks sæmilegan "stóran bát"
til að redda okkur "örmum fjármálavitleysingjum"
úti í ballarahafi, sem vart eigum bót fyrir rassgatið á okkur,
en eigum einhvern helvítis haug af flatskjám.
Getum við altént notað einhvern slatta af margtéðum flatskjám
til að fylla í holur og göt sem kunna að vera á stórfleyi þessu,
eftir ríflega 4000 ára dvöl upp á þurru landi.
Lestum svo hross, kýr, kindur og gæludýr í "káetur"
ljónanna, flóðhestanna og dúfnanna og getum við svo
þjóðin gist fyrrum káetur fíla, gíraffa og strúta,
en ríkisstjórnin, núverandi bankastjórar og aðalleikarar
í "sótsvartri 3000 síðna skýrslu" gista káetur slanga,
órangúta og asna.
Restina af bátskelinni er svo öruggara að nota undir
dýrafóður og eitthvað matarkyns fyrir oss vesæla.
Nú svo er bara að njóta þess að vera á lúxus- "siglingu"
næstu 40 daga....aldrei að vita hvenær hægt verður
að skella sér í "siglingu" næst.
Verður samt brjálað að gera um borð, því að í nógu
verður að snúast við að fóðra allan dýraskarann
og svo okkur sjálf, plús það að snúast í
kringum ælandi og spúandi sjóveika farþega.
Hehehehe!
Stóðst ekki mátið húsfreyja.
En að lokum.
Frétt þessi vakti upp gamla pælingu hjá húsfreyju:
Ef Nói og frú, ásamt 3 sonum, eiginkonum þeirra og börnum,
já, og kannski nokkur hundruð auðtrúa sálir,
voru einu mannverurnar um borð í örkinni,
hvernig "í ósköpunum" tókst þeim að fóðra "öll"
dýrin um borð í örkinni...tvö af hverri tegund
sem hér á móður Jörð dvelja, í heila 40 daga???
Þúsundir landdýra í öllum stærðum og gerðum!
Moka undan þeim skítnum?
Halda lífi í "mauraætunum"?
Og hver í ósköpunum um borð hafði áhuga á
að bjarga tveimur "tarantúllum" frá því að deyja út?
Jamm.
Merkileg saga atarna.
Kvöldmatast næst.
Góðar stundir á þriðjudegi.
![]() |
Örkin hans Nóa fundin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.4.2010 | 19:22
Víst er það mál að yrkja....
..mamma, níu ára djásninu var mikið
niðri fyrir.
"Prófa ÞÚ bara sjálf"!
"Sko, svona var okkur kennt, með
upphafsstafi, og óþarfi að láta allt ríma....
en mátt alveg láta ríma ef þú getur"!
Húsfreyja hnyklaði brýr.
Nú hafði hún kannski tekið heldur stórt upp í sig,
þegar hún sagði dótturinni að það að yrkja
ljóð væri "ekkert mál"!
Jæja, gat altént látið á þetta reyna fyrst,
rím, stuðlar og höfuðstaðir voru ekki
aðalatriði.....alla vega ekki í níu ára bekk.
Djásnið hafði krosslagt arma, horfði
þungbrýn og ábúðamikil á húsfreyju og beið.
Vorið er komið,
orðið svo hlýtt og
rauðbrystingur syngur blítt.
Það kom í morgun klukkan átta,
en mannfólkið svaf á sín grænu eyru,
næstum fast í þungum svefndróma,
uns kría í brjáluðu skapi fyrir utan glugga
ræskti sig og gargaði: KRÍ!
Svefndrukkið fólk tíndi á sig spjarir,
inniskó og sokka.
Gekk síðan glatt út í geggjað vorið.
"Sko", sagði húsfreyja rígmontin.
"Hrrrrmmmph, það er svo erfitt að semja ljóð
um vorið, ef maður er krakki, mamma", djásnið
ekki sannfært.
Vesen.
Húsfreyja varð hugsi, en lét svo flakka.
Nammið búið.
Ekki verður aftur snúið
með sælgætisátið í gær.
Nú verður út í búð aftur flúið,
bland í poka,
bland í poka!
Má ekki loka
versluninni einu á staðnum
á laugardegi.
Þetta leist djásninu mun betur á og settist niður við að yrkja:
Nammið er búið.
Alltaf klárast það.
Mig langar í nammi,
mikið nammi!
Yndislegt nammi.
"Sagði ég ekki" húsfreyja var ánægð með sitt
níu ára djásn, þótt ekki hafi henni þótt sinn
skáldskapur glæsilegur og hugsaði með sér
að hún hlyti að geta betur.
Í litunum býr ljósið.
Bjart.
Einstakt.
Umvefjandi.
Fullt af litum gleði,
kærleika,
sálarþroska.
En þá svartur?
Í honum býr sorgin.
Sorgin dökka.
Sorgin mjúka.
Sorgin sem þroskar mannsálina,
og gefur styrk.
Svartur er líka góður litur.
Húsfreyja verður víst að viðurkenna,
að það er töluvert ERFIÐARA að yrkja
ljóð, en hún taldi sjálf.
Verður víst seint talin ljóðskáld.
En máske leirskáld?
Kannski maður fljúgi
suður með sjó.
Tali við steinana
í fjörunum við vitana.
Svekki síðan útverði kríanna.
Krí, krí, krí!
Veifandi höndum,
veifandi vængjum.
Mikið djöfull vantar mig nýja gönguskó.
Jamm!
Bullandi leirskáld í síðatómískum stíl.
Skáldatilraunum húsfreyju lokið.
Djásnið þarf í kompjúterinn.
Njótið kvöldsins.
Góðar stundir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.4.2010 | 16:11
Seigur Johnsen!
Ekki af Johnsen skafið,
að hann fær fólk til liðs við sig,
og lætur verkin tala.
Verður albrjálað að gera í vorverkum
hjá Eyjafjallabændum í þetta sinn,
þar sem öskufall er mest.
Svo það er ljúft að fá góða sjálfboðaliða
sem taka til hendinni og létta störfin.
Sumarbros dagsins fær Johnsen frá húsfreyju.
Góðar stundir.
![]() |
Einn kom með veghefil |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
20.4.2010 | 18:03
Fjandakornið!
Tarna eru furðuleg "vísindi"!
Að Móðir jörð hristi sig og skaki
af hryllingi og bræði, við það
eitt að kona stígi nöktum fæti á grund
og beri axlir á heitum sumardegi?
Þá "nötrar" líklega jörð stöðugt í öllum
"nektarnýlendum," upp á 8,0 á Richter,
og mesta furða að þær nýlendur skuli ekki allar í jörðu sokknar af
hristingnum.....og máske að þetta sé örsökin fyrir því
hve "láglent" er í hinum miklu veldum Dana og Hollendinga.
Heilu suðrænu baðstrendurnar skjálfa sjálfsagt svo ört,
að menn verða að vefja sig utan um pálmatré
til þess eins að halda jafnvægi.
Kemur þar skýringin, því menn sækja svo stíft
í "áfenga drykki" á suðrænum sólarströndum....þeir
eru að reyna að leiðrétta "sjónrænar truflanir"
af völdum jarðskjálfta, og í annan stað,
að reyna að "drekkja" ótta sínum við stöðugar jarðhræringar.
Svo verða menn auðvitað mun minna varir við
að allt gangi í bylgjum, séu þeir rallhálfir, finnst þetta
bara eiga að vera svona.
En reyndar ættum við hér á norðlægum slóðum
að vera nokkuð örugg með okkur þegar
kemur að jarðhræringum, skipti klæðarburður kvenna eða
"skortur" á honum máli.
Hér sést ekki í bera kvenmannshönd svo mánuðum skiptir
á veturnar, og varla að það mói í logarauðar
konukinnar þá naprir vindar blásar.
Allt hulið treflum, húfum og vettlingum.
Berar axlir kvenna eru bara ekki "inn" á köldum
dögum hausts og veturs hér uppi á litla Fróni...
og sjaldnast næst nógu hlýr dagur til þess að bera þær
á vorin.
Svo hér á landi ætti allt að vera "pollrólegt".
Kyrrt!
"Hreyfingarlaust"!
Jarðskjálftar ættu einungis að finnast,
þegar stútur á leið úr veislu vefur sér utan um ljósastaur.
En nei!
Ekki aldeilis.
Reykjanesið er búið að skjálfa meira og minna árum saman.
Jörð skelfur kringum Kötlu, Heklu, Grímsey....jamm og Eyjafjallajökul,
sem er hreint og klárt sótsvartur og "nötrandi" af
eldfjallabræði akkúrat núna.
Mætti þá halda að konur á litla Fróni hefðu gengið
um "allsberar" árum saman....jafnvel ekki klætt
sig í nokkrar tuskur svo öldum skipti, samkvæmt
snilldar-speki hins íranska klerks.
Að frónverskar berar konur yrðu þá "úti í vetrarkuldum"
í þúsundatali á Laugaveginum, þá líða tæki að
jólainnkaupum.
Færu í "sjálfsmorðsleiðangra" á skíði í
Bláfjöllum og Hlíðarfjalli, kviknaktar.
Jamm!
Furðulegur déskoti þetta.
Húsfreyju rekur ekki minni til að hafa séð axlaberar eða
berrassaðar konur Eyjafjallasveitar í fjölmiðlum
nýverið, en telur að slíkt hefði aldeilis þótt
fréttnæmt hér í nepju og svalviðri vetrar og vors.
Og ekki man hún heldur að "nekt kvenna" hafi verið
"yfirþyrmandi" á litla Fróni rétt fyrir Suðurlandsskjálfta
aldamótaárið 2000.
En eigi að síður skelfur og nötrar jörð hér undir oss
frómum og "mikið vel klæddum" frónverskum konum....
og körlum.
Merkilegt að það hristist jafnt á vetri sem sumri hjá okkur.
Jamm.
Mikið er "vald" naktra kvenna, samkvæmt vísum
írönskum klerki.
Skekjum móður jörð og hristum að villd....eins gott
að hafa okkur góðar....og í guðanna bænum, konur,
reynum að venja okkur af því að "kasta af okkur
klæðum" daglega, til þess eins að fara í sturtu.
JUST IN CASE, að sá íranski hafi rétt fyrir sér
Getur verið STÓRHÆTTULEGT!
Góðar stundir og "klæðið ykkur nú vel" í norðannepjunni.
![]() |
Kennir fáklæddum konum um jarðskjálfta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.4.2010 | 18:46
Hryðjuverk!
Húsfreyja var í senn rasandi æst
og full örvæntingar.
Fyrir framan hana voru "fjarstýringar"
sjónvarps og "fylgikvilla" þess.
"Vil bara fá að kíkja á einn uppáhaldsþátt
á Stöð 2" mælti húsfreyja stillilega við bónda,
sem þeystist um víðan völl fótbolta í
kompjúternum.
"Nú STILLTU þá bara á stöð tvö" kom pirrað
svar frá bónda.....hann leit ekki einu sinni upp frá tölvu sinni.
Húsfreyja svitnaði og sortnaði fyrir augum af örvæntingu.
Hún gjóaði augum vonleysislega á allar fjarstýringarnar "sex"!
Jamm! SEX!
Hverja átti hún að velja?
Þessi gráa hér var áreiðanlega bara sjónvarpið....
eða var það HIN gráa fjarstýringin.............?
En nú voru komnar 2 nýjar svartar fjarstýringar,
ein eftir að flakkarinn kom á heimilið,
og svo sú allra nýjasta sem fylgdi Símaafruglaranum.....
hver var þá munurinn á henni og svörtu fjarstýringunni sem
fylgdi DVD-tækinu?
Og hvað með þessa fjórðu svörtu ....var hún ennþá bara
Sky?
Húsfreyja néri saman höndum í angist sinni,
og fann "fjarstýringakvíðann" hellast yfir sig.
Á ríkinu var maður að hella úr skálum reiðar sinnar
vegna "skýrslunnar" og var við það að brjálast
yfir vesaldómi stjórnmálamanna og spillingu
bankamanna....það sló í þyngslin um hjartarætur
húsfreyju og hún logaði af ákvörðunarkvíða.
Hún tók eina fjarstýringuna hikandi í hönd sér,
setti gleraugun upp enni, ýtti á takka.
Núll!
Ekkert gerðist!
Ýtti á annan takka, sama niðurstaða.
Húsfreyja setti fjarstýringuna frá sér,
tók upp þá næstu skjálfandi höndum.
Rýndi góða stund á + - , skip, epg, atv, p, dtv,
menu, mode, enter, ok og önnur óskiljanleg
merki.
Dæsti!
"Nú missi ég af þættinum" hugsaði hún örg.
Lét slag standa og sló fingri enn og aftur
á takka.
Piff!
Bzzzzzzzzzzzz...sjónvarpsskjárinn sýndi
ekkert nema rafmagnaðar gráar og hvítar truflanir.
Hjartað í húsfreyju datt ofan í inniskóna hennar.
Sjitt!
Ýtti í panikk á annan takka....vonandi var þessi betri.
Ekkert gerðist.
Gráhvíta snjókoman hélt áfram.
"Andskotinn, varla voru sjónvarpsmenn farnir
senda beint frá öskufallinu undir Eyjafjöllum"...húsfreyja
var að tapa sér.
Bóndi húsfreyju varð var við " skort á background-sounds"
og snéri sér frá kompjúternum.
"Hvern fjandann varstu að gera? Ertu búinn að rugla öllu"?
Húsfreyju krossbrá.
"Nei, ég ýtti bara á þennan hér og þennan hér...."
"Er ekki í lagi með þig? Þú átt ekkert að vera að
vesenast með þessa fjarstýringu...nú ertu búin
að breyta öllum stillingum á afruglaranum, og
ég man ekkert á hvað hann var stilltur".
Svartur strókur stóð upp af höfði bónda, er hann reif
fjarstýringarnar af húsfreyju.
Hryðjuverk!
Skemmdarverk!
Sabotage!
Hann var með 3 fjarstýrangar í höndunum
og sveiflaði þeim í áttina að sjónvarpi og
fylgikvillum af stakri snilld,
svo minnti á sverðasveiflu Luke Skywalker í Star Wars.
Húsfreyja ákvað að hætta frekari "hryðjuverkastarfsemi"
með vísifingri sínum, gaf þáttinnn upp á bátinn og
fór inn í rúm og kíkti í bók.
Bóndi duddaði sér við "sverðasveiflur" um nokkra stund,
með fjarstýringar að vopni og náði einhverri mynd á
tækið.
Bóndi og níu ára djásn þrösuðu síðan um
fjarstýringar, sjónvarp og dagskrá fram eftir kvöldi
en "terroristinn" húsfreyja var stikkfrí.
Í dag er bóndi svo búinn að ganga í það að fækka
"fjarstýringum" niður í 5, svo "öskugjóskufall"
verði ekki eina sjónvarpsefnið hér á heimilinu
næstu vikurnar.
En kíkja á "sjónvarpið" næst....svo ansi fínar myndir af
"öskufallinu" undir Eyjafjöllum að sjá þar.
Góðar stundir.
Bloggar | Breytt 20.4.2010 kl. 18:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.4.2010 | 17:50
Og ekki í fyrsta sinn....
... sem Eyjamenn fá yfir sig
ösku....veit ekki húsfreyja um
íbúa í Höfn í Hornafirði.
En í Eyjum grámaði jörð þá Surtsey
sprengdi sér leið upp úr sjó, ekki alls fyrir löngu ('63),
og Eyjamenn voru síðan mörg ár að hreinsa
Heimaey eftir gosið í Eldfelli 1973 af
biksvartri ösku......fóru að endingu
með "tannbursta" yfir fjallshlíðar og tún
svo ekkert yrði eftir af léttri gjóskunni
í jarðsverðinum.
Sú svarta var nefnilega fislétt og lítið gaman að lenda
í "öskubyl" þá eitthvað hreyfði vind á
Stórhöfða....en það vill henda að stormasamt
verði á þeim höfðanum.
Og nú eiga Eyjamenn enn og aftur von á
"ösku" í massavís út í Eyjar.
Ekki er það gæfulegt....nema þá að Johnsen
og hans snjöllu fylgifiskar sjái sér leik á borði,
og safni saman "öskudraslinu" og komi því í verð.
Löngum verið útsjónasamir Eyjamenn þegar
kemur að eldgosum....og reyndar flestu öðru.
Má þar nefna hraunhitaveituna þeirra einu og sönnu,
sem dugði þeim fyrir billegum hita í hús sín
í tugi ára....það var bara snilld!
Og einhvern slatta seldu þeir af "vikri" líka
út um víðan völl og á erlendar grundir, sem var vel.
Svo aldrei að vita nema þeir geti gefið
bændum austan Eyjafjallajökuls "góð" ráð
varðandi öskuna þegar fram líða stundir.
Jamm, oft snjallir Eyjamenn...og svo stundum
"eitursnjallir"!
Og svo eitthvað fleira sé nefnt til sögunnar
af stakri snilligáfu Eyjamanna, Johnsens og fleiri
má gjarnan minnast á risastóra"hvalakví" fyrir
aldraða drápshvali sem "drukkna" síðan
við Noregstrendur.
Fjölmiðlar heimsins ærðust af gleði.
Og þegar lundinn blessaður brást og ekkert mátti veiða,
var Johnsen fljótur að redda því og flutti bara í
úteyjarnar slatta af "kalkúnum"....enda veit hver maður
að kalkúninn er mjög "áþekkur" lundanum bæði
að stærð, útliti og bragðgæðum!
En mun auðveldara samt að "veiða" kalkúna en lunda,
bara hægt að sparka þeim fram af björgunum
og ofan í "lundaháfa" sem að sjálfsögðu hafa verið
sérhannaðir í "oversize".
Húsfreyja ærðist af gleði.....er hún las
kalkúnafréttina hér á sínum tíma.
En vonandi verður ekki mikið tjón af völdum ösku
hér uppi á litla Fróni....höfum nóg að gera
með tjón af völdum kreppuliðs, þó hitt bætist ekki við.
En 9 ára djásnið þarf í kompjúterinn.
Góðar stundir.
![]() |
Búa sig undir öskufall í Eyjum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.4.2010 | 18:57
Gaggandi reittar hænur á priki...
....sátu í lykilstöðum hér í stjórn
og í Seðlabanka í bankahruninu
ásamt einum ergilegum, hásum hana.
Stungu öll höfðinu reglulega undir væng,
þegar "sandstormar" hörmungafrétta
af fjármálamörkuðum og bankabraski
bárust þeimtil eyrna, og létu öll varnarorð
sem vind um eyru þjóta.
Hási, ergilegi haninn "afþakkaði" meira segja
boð um aðstoð frá skrauthönum heimsveldis breta.
Að hæsnin þyrftu hjálp við að minnka umfeðmi
bankaskrímslana hér uppi á litla Fróni var af og frá.
Snyrti svo á sér strjálar stélfjaðrirnar og hellti sér yfir
hænuræflana með organdi gali og látum.
Hænugreyjunum stökkbrá, enda þær uppteknar af því
að verpa virkjunum, álverum, jarðgöngum milli 700 manna byggðarkjarna
og tónlistarhöllum.
Á meðan höfðu svo "minnkafjölskyldur" hreiðrað um sig í
öllum bönkum, sem sölsuðu undir sig öll "egg" sem í bankann
komu, eða köstuðu eign sinni á þau...og lánuðu þau
öðrum minnkum í öðrum bönkum, sem aftur lánuðu
þeim þau til baka....!
Hænuræflarnir voru rasandi á þessu,
og sendu nokkrar gamlar og fótafúnar dúfur,
sem voru að reyna að stækka hálfhruninn dúfnakofa sinn,
minkunum til höfuðs.
Minnkarnir hlógu bara
að dúfunum, en sá ergilegi hási
tapaði sér því enginn skildi hann, þegar hann
galaði í vestur þegar allir aðrir voru að gagga og
hvæsa í austur.
Kræst!
Þetta var LANGVERSTA fáránleikasaga, sem
húsfreyja hefur nokkurn tímann heyrt.
Ekki einu sinni "Lísa í Undralandi" slær þessa
sótsvörtu hörmungaskýrslu út.
Og ofan á alla "vanræksluna, sinnuleysið, siðblinduna,
innherjaviðskiptin, ástarbréfasölurnar og kaupin, vitleysisganginn
af pólitískum toga, vanvirkt eftirlit og spillinguna" fengum við
"hryðjuverkastimpil" í hausinn frá "vinum okkar"
bretum.
Jamm.
Það var akkúrat það sem við þurftum.
"Thank you very much Mister Brown,
you're a nice man".
Jamm.
Við megum vera "Brúnum" breskra þakklát.
Hann hefði getað gefið út eina tilskipun,
og "eina aðeins "hvað Frónbúa varðar, svona
í "dobúl ó seven-stíl":
"SHOOT TO KILL".
Svo líklega erum við Frónbúar bara HEPPNIR
eftir allt saman.
Erum sjálfsagt forfallnir og fordæmdir "hryðjuverkamenn", Frónbúar...
að eilífu amen!
En altént erum við þó enn LIFANDI terroristar.
Góðar stundir og gangi ykkur vel að LESA 3000 síðurnar.
![]() |
Vildu refsa Íslendingum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.4.2010 | 18:04
Harðlífi og steinsmuga...
....líklega á bannlista hjá þeim ítölsku
þar með.
Hvort tveggja vill taka oggulítið lengri
tíma á salerni en þegar ástand hægða er gott...
vel formaðar og mjúkar en þó ekki um of.
En huggulegt hjá þeim Ikea-yfirmönnum ítalskra,
að ráða heila tvo starfsmann með skeiðklukkudjobbið...
þarf einn á kvennasalernið og annan á karlasalernið.
Mikil hjálp í kreppurfári og atvinnuleysi.
Má svo máski huga að "sérlegu klappliði"
fyrir þá sem þurfa að "gera stórt", finnist yfirmönnum
menn helst til lengi að "losa".
"PRESSA SVO, JÓN"
"FYLGJA ÞESSU EFTIR GUNNA"!
"Oleoleoleoleoleolei...oooooog svo KÚKA".
Hehehe, stóðst ekki mátið, húsfreyja.
Ætli frónverskir Ikea-starfsmenn lendi í
"skeiðklukkumælingum" líka?
Svona í miðju kreppuharðlífi og
"Ísbjargardrullu"!
Máske jafnvel farnir að "stimpla sig inn og út"
af salerninu, og fái "refsistig" fari þeir 10 mín.
fram yfir leyfðan tíma?
Hvað veit maður?
En skondin frétt atarna frá hinni suðrænu
"ristilvænu" Milanó.
Góðar stundir, og fylgist endilega með "skeiðklukkukaupum"
á vinnustöðum ykkar.
![]() |
Rasandi yfir klósettreglum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.4.2010 | 14:19
Þjóðarofnæmi?
Skotar komnir með
rauðar og grænar bólur,
kláða og sviða?
Vegna oss "fyrirlitinna
fjármálavitleysinga" úti í ballarahafi.
Þjóð sem stendur yfir rjúkandi rústum
fjármálakerfis byggt upp af frjálshyggjumönnum,
bankakerfiskörlum, útrásarliði, bankaleynd og innherjaviðskiptum.
Þjóð sem gleðst í hjarta sínu yfir
eldgosi í miðjum þjóðgarði landsins,
því þá er hægt að gleyma helvískum
fjármálaósómanum um stund.
Nah.
Húsfreyja telur það ekki líklegt.
Skota telur hún allflesta vinveitta oss,
sárþjáðum af vitleysisgangi braskara og
bankarugludalla, og gott ef þeir sakna
ekki "æðisgengna" liðsins sem mætti
á haustútsölurnar, ár efti ár, í Glasgow,
og hreinsaði út lagerinn hjá þeim af
útsölutuskum.
Húsfreyja man jafnvel eftir að hafa heyrt af
ferðum frá litla Fróni, þar sem flogið var til Glasgow í
bítið á morgnana og flogið til baka heim
rétt fyrir miðnættið sama dag.
Flugvélar þær sem fluttu Frónbúa í ferðir þessar,
hafi svo orðið að fljúga "undir radar" á leiðinni heim,
vegna ÞYNGSLA.
Húsfreyja á enn efir að vísitera rauðhærða
og snjalla Skota í þeirra fagra landi.
Hefur aldrei fílað útsölur neitt sérstaklega vel,
húsfreyja.
Allra síst í útlöndum.
Vill frekar heimsækja framandi lönd til að líta í kringum
sig, skreppa í útsýnistúra, kíkja á klaustur, kastala og söfn.
Staldra við á litlum krám í litlum þorpum, fylgjast með "infæddum",
hlusta á spjall þeirra og söng, og bragða á bjór héraðsins eða
þá víni og smakka mat þeirra.
Nú og í sólarlöndum er gjarnan skroppið á ströndina,
þar sem húsfreyja annað hvort situr í forsælu með
öllara, morðsögu eða krossgátu, eða er haldin til hafs
í baðfötunum einum saman á einni uppblásinni flatsæng.
Hefur reyndar einnig sést til húsfreyju hangandi
neðan í litfagurri fallhlíf hátt uppi á meðal mávanna,
langt úti yfir bláu hafi, þá hún vísiterar suðræn lönd.
Hin gullna regla húsfreyju á ferðalögum erlendis,
er sú, að það er "leyfilegt að versla" frá kl: 08-11,
og svo frá kl: 17- 22.
Húsfreyja sefur svo ætíð til 9:00 í fríum sínum,
tekur klukkutíma í morgunmat, og þá tekur því ekki að
fara að "kaupa inn" með aðeins klukkutíma til stefnu.
Síðan er dagurinn tekinn í allsherjar skoðunarferð,
stúss með kort á lofti og myndavélina að vopni, ef ekki
er skipulögð ferð niður á strönd.
Lestarferðir, rútuferðir, gönguferðir.
Yfirleitt orðin aðframkomin af hungri um klukkan fimm
síðdegis, húsfreyja.
Enda aðeins búin að snarla með ferðafélögum
einu sinni á pöbb eða litlum veitingastað allan daginn.
Þá er haldið á hótel og kíkt í þær verslanir sem
eru "í leiðinni", og smotterí af minjagripum og fatadótaríi keypt
(ekkert sem ÞARF að máta) og einhverjar smágjafir handa
ástvinum heimabíðandi.
Svo er það sturtan á hótelinu, dressa sig örlítið upp,
og fínt út að borða.
Sjaldnast kvöldverði lokið fyrir klukkan 10 að kveldi,
en ef svo einkennilega skyldi lukkast til, er húsfreyja alveg til í að
kíkja með ferðafélögum búðir...þær fáu sem eru opnar svo lengi.
Jamm.
Ekki víst að skotar yrðu hrifnir af húsfreyju sem ferðalang
í landi þeirra.
Og þó.
Þeir eiga einhver helvítis helling af fínum og draugalegum
miðaldaköstulum, slangur af rökum og myrkum klaustrum
og af fágæta merkilegum söfnum.
Svo þeir myndu pottþétt græða vel á húsfreyju,
tala ekki um hækkuðu þeir tímabundið inngangseyrinn
inn í sínar sögulegu byggingar, þá dvöl hennar stæði yfir.
Útsölur!
Nah!
Að bjóða húsfreyju á skoska útsölu, væri
eins að kasta perlum fyrir svín.
Nema ef vera skyldi að þeir byðu upp á fína
útsölu á "regnhlífum"....hefur heyrt því fleygt húsfreyja, að
það hendi að einstaka sinum, að það rigni
sæmilega hressilega á skoska þjóð.
Að það jaðri jafnvel við úrhelli....dögum saman.
En það gætu auðvitað bara verið kjaftasögur,
og húsfreyja tekur hæfilega mikið mark á þeim...
og sleppir því "að sjálfsögðu" að taka með sér gúmmítúttur og
regnkápu, auðnist henni það, þá þjóð hennar
læknast af kreppufári, að ferðast og berja dýrð Skotlands augum.
En vöfflur næst á gráum sunnudegi.
Góðar stundir.
![]() |
Skotar með ofnæmi fyrir Íslendingum? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)