7.12.2010 | 18:36
Eignarlaust froðufyrirtæki!
Piff! Paff!
Bara hvarf sisona.
Svo segir Guðmundur Kristjánsson forststjóri Brims
og eigandi hins gjaldþrota Hafnarhóls.
Níu komma fjórir milljarðar horfnir Landsbanka landsmanna þar með,
og skuldin sú færist yfir á breiða bakið almúgamannsins SJÁLFKRAFA!
Það segir sig sjálft.
Hefur hvort eð er ekkert við aura að gera sá með breiða bakið.
Súrefni, vatn og brauð er kappnóg í svoleiðis lýð.
En það er verra með vesalings forstjóra Brims.
Aumingja forstjórinn.
Þarna var hann í rífandi bíssness með "froðu",
daginn út og daginn inn.
Keypti froðu grimmt og lánaði froðu enn grimmar,
og svo bara PÚFF!
Núll og nix!
Nada!
Ingenting!
Froðan bara hvarf!
Og nú kemst ekki sá armi forstjóri í "froðubað" um jólin,
sei, sei nei!
Verður að láta sér skitin "froðulaus"
forstjóralaun duga.
Ó, vei.
Hætta jafnvel við heimsreisuna í desember og láta sér
duga tveggja vikna ferð til Miðjarðarhafsins að
versla jólagjafir og kost fyrir hátíðarnar......eða hvað?
Jamm, það eru ill örlög að tapa svona í "froðuviðskiptum",
og ekki einu sinni hægt að fá Elton John til að skreppa
í eitt lítið sætt jólapartý hér uppi á litla Fróni,
að syngja angurvær jólalög og dapra "froðuhvarfssöngva".
SNÝÝÝT!
Húsfreyju klökknar af sárum sting í peningapyngju sinni,
og heykist í breiða bakinu sínu, af sorg yfir aumum og
vesölum forstjórum, sem gráta froðu sína og "froðupeninga"!
Það var og.
Góðar stundir og megi öll ykkar jólaböð vera ilmandi af hvítri hreinni "sápufroðu".
![]() |
„Svo hvarf bara froðan“ |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.12.2010 | 22:38
Hrikalegt tjón!?
Hér er hann "Snæfinnur" og hann Frosti,
snjóhvítir snjókallar húsfreyju og djásnsins báðir tveir,
búnir að "hverfa" sporlaust af sólpalli
húsfreyju, árum saman, vetur eftir vetur,
og það hefur aldrei flökrað að húsfreyju að
þetta gæti verið "kærumál"!
Og þá kannski líka skaðabótaskylt!?
Gæti þá verið búin að að græða grimmt vetur eftir
snjóugan vetur, húsfreyja, vaðandi í "snjókallabótum" upp fyrir haus.
Hrikalegt hve húsfreyja getur verið utangátta.
Fattlaus!
Máske gengur laus í hverfi húsfreyju sérlegur "snjókallabófi",
sem rænir og ruplar alla sólpalla af snjóköllum,
skilur ekkert eftir nema rennblautan pall, og örlitla
snjóghrúgu eins og í fyrra hjá húsfreyju....líklega vinstri fótinn af Snæfinni.
Heldur þeim hvítu herrum síðan í gíslingu, og reynir að pína
þá til sagna um hvar þeir geymi "töfraskóna" einu og sönnu
sem hjálpar þeim að dansa og syngja.
Jaso.
Og hér hefur húsfreyja þá vaðið í villu og svíma árum saman.
Talið sér trú um að Frosti og Snæfinnur hafi bara bráðnað í rólegheitum
á sólríkum vetrardögum, breyst í vatn og snjóeðju...
en svo hefur þeim þá bara verið RÆNT!
Hrikalegt svíðingsverk er þetta, dónaskapur og hryðjuverk!
Húsfreyja mun hringja í bítið í fyrramálið í "ein einn tvo",
og krefjast þess að snarpir og skarpir rannsóknalögreglumenn
mæti á sólpall húsfreyju og leiti vísbendinga og sönnunarganga
um hrikalega glæpi þessa framda að vetri til síðustu árin.
Verður að negla snjókallasvíðing þennan og erkiglæpon!
HIÐ SNARASTA!
Getur farið að snjóa hér í borginni við sundin bláu HVENÆR SEM ER!
Góðar stundir og njótið vetrarins.
![]() |
Snjókallinum stolið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.11.2010 | 18:35
Hliðar saman hliðar...
.. og Gunnar víkur til hliðar.
Hvort hann stígur til hliðar er svo annað mál ( ensk. step aside).
Getur máske spígsporað svolítið um, sé hann
ekki í önnum í Krossinum allan jólamánuðinn og
gefið sér tíma til að stíga dans við sína ektaspúsu.
En húsfreyja telur þetta góða ákvörðun hjá Gunnari,
enda Gunnar snjall maður og virðist skilja alvöru málsins.
Gerir hárrétt hér, að víkja á meðan úr kærumálum þessum
leysist, svo ekki falli rýrð á starfsemi Krossins.
Húsfreyja hefur gjarnan leyft sér að gera góðlátlegt grín að
Gunnari og trúarhita hans, enda telur hún hann stundum geta
misst sig, þegar kemur að Guði, kraftaverkum og ræðum
um meintar syndir okkar mannanna.
Hitt er svo annað, að húsfreyja hefur í starfi sínu sem
hjúkrunarfræðingur hitt margan manninn, sem kominn
var á heljarþröm af neyslu vímuefna, átti nánast
bara eftir að taka þeim gröf, þegar Krossinn hans
Gunnars hreinlega BJARGAÐI þeim.
Ekkert sem upp á vantar hjá Gunnari og Krossinum þegar
kemur að því að rétta sjúkum og þeim sem lítils mega sín hjálparhönd.
Þá er það kærleikur, sannur og heill í gegn sem blívur.
Og það má Gunnar eiga, hvað sem meintum kynferðisafbrotum
hans líður.
Húsfreyja leggur ekki dóm á það málið.
Ekki hennar að dæma.
Húsfreyja getur síðan ekki hugsað sér Krossinn án Gunnars eða
Gunnar án Krossins.
Ekki síst vegna þess að Gunnar er að hennar mati einhver
skemmtilegasti heittrúarmaður okkar Frónbúanna,
og henni finnst það bara bráðfyndið hversu hrapalegur,
sótsvartur erkisyndari hún er orðin, eftir hlustun á eina af hans
brennheitu trúarræðum.
Sér glytta í glæður helvítis á öðru hverju götuhorni, og gott ef
hún sér ekki hornum og hala bregða fyrir líka, í að minnsta kosti
viku á eftir slíkan ræðustúf frá Gunnari.
En tekur þá málið upp við Guð sjálfan í bænum sínum,
og spyr hvort hún sé nú alveg að klúðra öllu hér á
jörðu niðri.
Hvort allt sé í kaldakoli hjá henni, djöfulgangi, ódæðu
og bersyndugu líferni?
Og Almættið brosir góðlátlega, og segir húsfreyju
að hafa engar áhyggjur, hún sé á bísna góðu róli,
starfi í gleðinni og kærleikanum, og hann Gunnar í Krossinum sé
nú mest fyrir að vera svolítið dramatískur.
Jamm, svo mörg voru þau orð.
Kvöldmatur næst.
Góðar stundir á aðventunni.
![]() |
Gunnar stígur til hliðar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.11.2010 | 22:53
Ljómandi hugmynd eða hugljómun?
Húsfreyja var upptendruð af andakt
og góðum tilfinningum á fyrsta sunnudegi
í aðventu.
Níu ára djásnið kveikti á fyrsta kertinu, eftir að
húsfreyja græjaði aðventukransinn með ilmandi greni,
rauðum kertum og skrauti.
Húsfreyja dæsti ánægjulega um leið og jólaljós
voru komin út í glugga hjá djásninu og jólakúla
í svefnherbergisglugga húsfreyju og bónda.
Jaso, nú var bara eftir að skella aðventuljósunum
í eldhúsgluggann, og þá fengi hún pásu.
Himinsæla.
Kannski að húsfreyja ætti að tylla sér við tölvuskjá sinn og rita einn
herlegan pistil, uppfullan af hvatningu og fallegum orðum svona í
tilefni af því að hátíð friðar og ljóss er að hefjast?
Já, og máske vera með tilvitnanir í trúarleg fræði, sem
ku vera full af fallegum og uppbyggjandi orðum.
Þetta fannst húsfreyju afbragðshugmynd.
Tók með hraði úr hillum sínum tvö trúarrit, gamla og velkta
Biblíu sína og nýlegan Kóran sem henni hafði áskotnast á
bókamarkaði ekki alls fyrir löngu.
Falleg og uppbyggileg orð full innri friðar og ljóss.....fletta....
Kona ein islamatrúar er húsfreyja þekkir, kveður Kóraninn fullan af helgum boðskap
og fögrum.
Jæja, látum á reyna.
Húsfreyja fletti upp í Kóraninum:
Falli þjófnaðarsök á karl eða konu, skal handhögg vera sú
hegning til varnaðar sem Allah leggur við. Hann er máttugur
og alvitur (5. súra).
"Óttist ekki menn, óttist Mig";...(5. súra).
"Fyrir á höfum Vér lagt, að koma skuli líf fyrir líf,
auga fyrir auga, nef fyrir nef, eyra fyrir eyra og tönn
fyrir tönn, og jafngildi fyrir sár.
En hverjum sem af góðvilja hafnar hefndakosti skal
það til friðþægingar verða. En þeir sem dæma ekki eftir því
sem Allah hefur opinberað, eru ranglátir"(5. súra).
"...Allah er máttugur, og hans er að hegna"(5.súra).
"Vitið að Allah refsar stranglega: en Hann fyrirgefur og
er miskunnsamur"(5.súra).
" Óttist Allah, sem yður mun til sín safna".(5. súra)
"Tarna var ljóta eitursúran fimmta "súran" í Kóraninum", hugsaði
húsfreyja, "ótti, refsing, auga fyrir auga og tönn fyrir tönn.
Ekki var þetta fagur boðskapur, reyni aftur að fletta með lokuð
augun".
"Ef einhver hyggur að Allah muni eigi veita sendiboða
sínum sigur í þessum heimi og þeim sem kemur,
þá mætti hann festa reipi við rjáfrið í húsi sínu og
hengja sig...." (22. súra).
"..Hinum vantrúuðu er af eldi stakkur skorinn,
og yfir höfuð þeim skal hellt sjóðandi vatni,
sem bræðir skinn þeirra og allt sem í búk þeirra
fundið verður." (22. súra)
"Þá sem trúa og góð verk vinna, mun Allah leiða í
garða, þar sem elfur streyma. Þar munu þeir skreyttir
perlum og armböndum úr gulli og klæddir silkiskrúða".(22.súra)
Andskotinn í grárri mysu, þetta leist húsfreyju ekkert á.
Sjálfsmorð, pyntingar og loforð um punt og prjál
ásamt vatnssopa í eftirlífinu.
Ekki var það jákvæður og uppbyggilegur boðskapur.
Hætti að blaða í Kóraninum, verður að bíða sú gæða-lesningin fram
yfir hátíðar.
Jæja, gæti verið ögn skárra að kíkja í Biblíuna,
þó ekki sé það allt fallegt sem í þá bók er ritað.
Fyrst af handahófi:
"Óttist ekki. Þetta er það sem yður ber að gjöra:
talið sannleikann hver við annan og dæmið
ráðvandlega og eftir óskertum rétti í hliðum yðar.
Enginn yðar hugsi öðrum illt í hjarta sínu og hafið
ekki mætur á lygasvardögum. Því allt slíkt hata
ég, segir Drottinn". (Sakaría 8:17.)
Jæja, með því skárra úr Gamla testamentinu. Ekki alveg klárt hjá húsfreyju
hvaða "hlið" er verið að ræða um, eða kannski eru þetta "hliðar", (nema ef vera
skildi að þetta væri gömlu hliðin á Eiðum og Grænuhlíð 20 í Eyjum)
en það er svo margt duló í Gamla tesatmentinu.
"Þér hafið heyrt að sagt var: Þú skalt elska náunga þinn
og hata óvin þinn. En ég segi yður: Elskið óvini yðar
og biðjið fyrir þeim, sem ofsækja yður".....(Matt. 5:43).
Margt fallegt að finna í Nýja testamentinu enda kærleiksboðskapur
Krists þá kominn til sögunnar.
"Elskið óvini yðar og biðjið fyrir þeim, sem ofsækja yður" er mjög
flottur boðskapur að mati húsfreyju.
Þannig snýst iðulega ofsóknin upp í andhverfu sína, og vopnin eru
slegin úr höndum óvinarins.
Kærleikurinn er öflugasta "vopn" okkar mannanna, og
sýnum við náunga okkur kærleik og gerum góðverk, virðumst við fá
það hundraðfalt til baka.
Merkilegt.
Það finnst húsfreyju.
En svo langan tíma tók það húsfreyju að finna fögur orð til
að leggja út af, að hún er komin með "hugsanastíflu" af þreytu.
Telur hún að næst láti hún vera að leita í bókmenntir trúarbragða
í leit að slíku og þvílíku.
Jú, þekkir sína Biblíu nokkuð vel húsfreyja, en vildi láta reyna á önnur
trúarbrögð í þetta sinn, svona til að gæta jafnræðis.
Viðurkennir fúslega, að hún er ekki byrjuð að lesa Kóraninn,
rétt búin að blaða hist og her í honum í kvöld, tilviljun ráðið,
og er sjálfsagt bara ekki búin að finna allar blaðsíðurnar
með fögru orðunum í þeirri skruddu.
Getur þá undirstrikað þau með bláu líkt og uppáhalds vers
sín í Biblíunni.... og þá skal sko næsta hugleiðing ganga glatt.
En vill að lokum svona í tilefni aðventu og jóla aðeins segja þetta:
"Ég óska ykkur þeirrar hamingju að finna réttu gjafirnar handa þeim
sem þið elskið".
Góðar stundir á aðventunni.
Bloggar | Breytt 10.12.2010 kl. 15:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.11.2010 | 16:09
Rukkar fyrir sólskinið?
Húsreyja gerir sér engar grillur,
þó hún fengi einn herlegan reikning upp á
200 evrur frá spænsku konu þessari, fyrir afnot af sólinni.
Bæði bara hina "sólríku" spænsku konu að
"loka fyrir" sólina hvað sig varðaði, því peninga
frá húsfreyju fengi hún aldrei!
Sú spánska mætti þá skreppa í eina
sjóðandi heita ferð til sólarinnar að finna
"off-takkann" til að hegna leiðindaliði sem húsfreyju
sem neitar að borga.
Altént ekki fyrr en við vitum hvernig fer með
"kerlingarhelvítið hana Ísbjörgu".
Jamm.
Flest má nú einkavæða í dag.
Hefur engum dottið í hug að "einkavæða" andrúmsloftið
hér á móður Jörð?
Rukka síðan grimmt fyrir hvern "andardrátt" sem við drögum að okkur,
koma á "andadráttarkvóta" í einum hvínadi hvelli með sérstökum
græjum sem tengdar eru við brjóstkassa okkar mannveranna,
og setja á "aukagjald" fyrir hvert skipti sem við færum 20
andadrætti fram yfir kvótann!
Einkaréttshafi andrúmslofts myndi mala gull á öllum íþróttamótum,
fótboltaleikjum, hryllingskvikmyndahátíðum og.... jamm reyndar
allar nætur þá mannkyn brasaði við að fjölga sér....dodoið gæti orðið rándýrt.
Yrði auðveldlega ríkasti maður heims á nó tæm!
Jaso.
Hmmm....kannski að húsfreyja skreppi til ferða og athugi hvernig
málum sé hagað í "einkavæðingu" hér á landi.
Góðar stundir, njótið vetrarsólar og dragið djúpt að ykkur andann.
Það er svo hollt og gott..... og ódýrt... eins og er.
![]() |
Sólin einkavædd |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.11.2010 | 21:48
Stóra drullusokkamálið.....
.... í uppsiglingu þar með
?
Eða verður máske stofnuð sérleg
nefnd til að fjalla um hvort kalla megi
þá sem fá milljóna og milljarða afskriftir hjá
"góðhjörtuðum" bönkum vorum, drullusokka?
Erum við hin þá sem engar afskriftir fáum,
"fátækir EKKI-DRULLUSOKKAR" með lán til tugi ára hjá
bönkum með "steinhjörtu", vegna þess að "góðu"
hjörtun má aðeins not spari þegar milljóna og milljarða-
drullusokkarnir lenda í veseni?
Æi.
Nennum við þessu?
Orðaskak, röfl, tuldur, þras og muldur.
PLÍS! Getið þið ekki hætt þessu ráðamenn hér uppi á litla Fróni?
Drífa sig og gera eitthvað í málunum. GERA!
Skella sér í "skjaldborg heimilanna" einu og sönnu,
og hjálpa grónum fyrirtækjum í vanda svo ekki komi til
hópuppsagna og vaxandi atvinnuleysis.
NÚNA!
KRÆST.
Hættið þessu pólitíska kjaftavaðli og þrasi.
GERIÐ EITTHVAÐ FYRIR FRÓNBÚA, og stöðvið þetta helvíska
flækjukjaftæði með úrræðin.... ábyrgðarmenn greiði lán fólks
að biðja um greiðslujöfnun og hvað ekki? Hvað er það??
ER EKKI Í LAGI MEÐ YKKUR?
HUGSIÐ og framkvæmið síðan VITRÆNT og vel ígrundað.
SETJIÐ BANKALIÐINU VINNUREGLUR!
Annars halda bankarnir bara áfram að afskrifa milljónir og milljarða
hjá "drullusokkum"
en ÞJARMA SVO AÐ LITLA MANNINUM!
KOMMON!
Þið ráðamenn okkar Frónbúa eruð að gera okkur almúgafólkið GRÁHÆRT
af frústrasjón, ergelsi, pirringi og forundran.
Þetta sem er í gangi núna, er ekki vettvangur fyrir
pólitískt argaþras, kjaftavaðal, framapot og rugl.
Sei sei nei.
ÞAÐ ER HEIMSKREPPA í gangi!
"Sameinaðir stöndum vér, sundraði föllum vér"
Svo einfalt er það.
Góðar stundir, og munið að skipta um "drullusokka" fyrir Jólin.
![]() |
Sagði þá vera drullusokka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.11.2010 | 18:07
Holdfúin evra með drep?
Ljótt er'ða atarna.
Jamm asskoti er að heyra þetta.
Og blessaður fjármálasnillingurinn hann David Marsh
vill að sjálfsögðu kljúfa evruna í herðar niður, í tvennt.
Aðskilja hina "holdfúnu morknu" evru frá hinnni sterku og öflugu evru.
Líklega verður Evrópu þar með skipt í norður/suður hagkerfi, og svo í
miðjuna og jaðarinn.
Svo leggja má að líkum að norður og miðjan fái fína brilliant
"hressa" og heilbrigða evru, á meðan suður og jaðrarnir
hreppa "holdfúnu evruna með drepið.
Jepp.
Flotta evra A og holdétna evra.... Ö?
Þá húsfreyja fór úr einu Evrópulandi í annað á sínum
yngri árum, hét þetta holdétna pesetar, frankar, lírur osfr.
en hitt var mörk, pund, kroner osfr.
Íslenska krónan taldist ööö... líklega til hvorugs hópsins, enda aðeins
hægt að fá "gjaldeyri" fyrir 40-80 þúsund íslenskar krónur/
"álkrónur", þá ferðast var erlendis, og varð að sækja um
sérstaklega með löngum fyrirvara, um þennan munað í bönkum,
hyggðist maður á ferð á erlenda grund á árunum upp úr 1980.
Óðaverðbólga í algleymingi, verkföll, gjaldþrot, allir kaupmenn
vælandi, allir útgerðarmenn vælandi, atvinnurekendur vælandi,
en merkilegt nokk ekkert atvinnuleysi.
Enginn fáranlega ríkur, enginn fáránlega fátækur, allir einhvern
veginn jafnir í miðjumoðinu að berjast fyrir fæði, húsnæði og
menntun fyrir börn sín.
Og alheimur hló að íslensku krónunni sem gjaldeyri.
Og enn hlær alheimur að vesalings frónversku krónunni sem
hefur ALLTAF verið skringilega verðlítill gjaldmiðill örfárra vinnusamra og bjartsýnna
eyjabúa úti á miðju Ballarahafi, og er nú verðlausari úti í hinum
stóra heimi en nokkru sinni fyrr þökk sé bankahruni, útrás og kreppu.
Jamm.
En nú stefnir í að stór hluti Evrópu fái jafnvel verri gjaldmiðil
en vér armir fjármálavitleysingjar uppi á litla Fróni,
nefnileg "holdétna evru með drep"
BJAKK!
Óskemmtilegur andskoti það.
Ófélegt að fá svona hroða í peningabudduna sína,
kolsvart, drepétið og illa lyktandi.
Verðum máske að ganga í það Frónbúar, verði að
klofningu þessari, að senda nokkrar skínandi, silfraðar
vel fægðar og "vita verðlausar" frónverskar krónur á
suður- og jaðarsvæðin, svo íbúar þessara svæði geti
altént látið "hringla vinalega" í buddum sínum af og til,
þó ekki geti þeir keypt salt í grautinn fyrir krónurnar fremur
en vér armir vitfirringar í fjármálum hér uppi á Fróni.
Jamm, merkileg uppástunga þetta hjá Marsh.
Skref fram á við eða aftur á bak...ekki gott að segja.
En holdfúin evra hljómar satt að segja ekki vel í eyrum húsfreyju.
Góðar stundir og gangi ykkur vel að láta launin endast út
mánuðinn.... húsfreyja er löngu sprungin.
![]() |
Kljúfi evruna í tvær myntir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.11.2010 | 14:44
23. júní. 2007.
Er þetta ekki frétt frá góðærinu eina og sanna,
þegar ALLIR hér uppi á litla Fróni urðu ofursnjöll
fjármálaséní, og ekki bara elstu börn foreldra?
Jaso.
Húsfreyju grunar að sá sem setti inn frétt þessa
á þeim drottins degi 20. nóv.2010 sé elstur 8 barna
foreldra sinna, og nú sé komið að uppgjöri þeirra systkina
allra og sá elsti vilji hafa vaðið fyrir neðan sig og kunngjöra
yngri "pöpulnum" hver sé viskubrunnur fjölskyldunnar.
Ekki það, að húsfreyja er elst af sínum systrum,
hvort hún hafi hærri greindarvísitölu en þær lætur hún liggja milli hluta,
enda hefur hún ekki hugmynd um hvort það sé tilfellið.
Hinsvegar nýtur húsfreyja þess að hafa snemma þurft
að spreyta sig í lífinu, gæta systra sinna og um leið kunna
sínum eigin fótum forráð.
Finna lausnir á snúnum málum, eins og sjóblautum fatnaði þeirra,
"fýlsælu" á skóm og hvernig gamli ónýti traktorinn af
Kirkjubæ virtist vera allur kominn út í garð okkar systra
í bitum og bútum.
Foreldrarnir iðulega rasandi á uppátekt sinna dætra, og
ef þær hefðu ekki átt hauk í horni, sjálfan Guðmund afa sinn á
heimilinu, sem reddaði með aðstoð húsfreyju því versta fyrir horn,
er næsta víst að þær væru allar þrjár systurnar enn í "stofufangelsi"!
Enn skrýtið þetta.... eru blaðamenn máske að athuga EFTIRTEKT okkar Frónbúannna?
Góðar og gáfulegar stundir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.11.2010 | 21:32
Á!
"... þeir voru bara að spyrja að,
leiðinni niðr' að á" söng Laddi hér á árum áður.
Hann skyldi þó ekki hafa grunað að við værum
allmörg komin af indíánum Ameríku í beinan kvenlegg?
Aldrei að vita.
Húsfreyju finnst það bara besta mál ef langa, langa, langa....
langaamma hennar hefði sannanlega verið grannvaxin, svarthærð skvísa,
fædd á því herrans ári 980 fyrir Kristsburð í Vesturheimi.
Svona Pokohontas-eitthvað.
Hvað vitum við hvað Leifur heppni og hans menn voru að gaufa og gutla,
á meðan þrælar þeirra byggðu búðir og sáðu í akra, en konur þeirra prjónuðu sokka
og brýndu vopn þeirra á meðan þær spáðu í landsins gæði,
veðurfar og hvort hægt yrði að finna góða "ljósmóður" á
svæðinu þá börn tækju að fæðast?
Jamm.
Máske voru þarna leynileg ástarsambönd í gangi
tvist og bast!?
Bara allt logandi í framhjáhöldum og dodoi?
Undir vínviðnum?
Máske karlmenn allir á myljandi fylleríi (samanber Vínland)
og kvennafari dögum og vikum saman?
Jamm, maður spyr sig.
"Langa" húsfreyju gæti þá um aldamótin 1000 hafa verið tvítugt glæsikvendi,
með síða svarta lokka, ofboðslega flott ljósbrún augu,
og með lítinn fæðingarblett á utanverðri löngutöng
vinstri handar.
Þetta hefur auðvitað enginn samanbrýndur, skögultenntur, langnefjaður
karl frá litla Fróni árið 1000 geta staðist.
Þeir rauðbirknu, síðhærðu fyrrum víkingar og írskir þrælar
allir nýorðnir sannkristnir,
hafa þá kolfallið fyrir ómótstæðilegri konu þessari og BINGÓ
hér erum við rúmum 1000 árum síðar.
Húsfreyja hefur fæðingarblettinn á "löngutöng" vinstri handar því til sönnunar.
Jamm þetta líst húsfreyju aldeilis brilliant vel á....Á!
Ó já.
Vill miklu fremur vera af ætt frumbyggja Ameríku en glæpona
frá Noregi.
Jújú, seisei.
Slatti af þjóðflokkum indíana var herskár vel og í mikilli "höfuðleðraútgerð",
sér í lagi þá þeir börðust við hvíta menn í Ameríku, en obbinn var samt friðsælt
fólk sem lifði í sátt við móður jörð, náttúruna og báru virðingu
fyrir öllu lífi.
Og virðing fyrir öllu lífi og náttúru er góður arfur.
En langa,langa,langa.......langamma sem mælir með því
að skapstyggur strákstubbur kaupi sér fley og fagrar árar til þess eins
sigla á brott og "höggva síðan mann og annan" í næstu höfn
á ekki upp á pallborðið hjá húsfreyju.
Neipp.
Ofbeldi vondur arfur.
En fínar fréttir þetta, og aldrei að vita nema það verði
"indíánaarfurinn" sem bjargar okkur út út bévítans
kreppufárinu.
Ekki amalegt það ef VIÐ hér uppi á litla Fróni
reyndumst vera "síðustu Móhíkanarnir"..hehehe.
Góðar stundir og .......Á!
![]() |
Eiga rætur að rekja til indíána |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
15.11.2010 | 18:40
Þetta er bara kjaftæði...
... las öldungurinn hátt og snjallt
fyrir eldkláru nánast blindu frúnna á tíræðisaldri.
"Hvað segirðu góði", hváði frúin hissa, "hvað er kjaftæði"?
"Nú það get ég ekki séð" svaraði öldungur, "því letrið er svo smátt,
en þetta stendur hérna í blaðinu, er fyrirsögnin".
"Nú kannski er einhver að svara hinni fyrirsögninni sem þú last áðan.
"JESÚ SNÝR AFTUR"!, sagði frúin aldraða vongóð.
"Jú... kannski" öldungur rýndi í blaðið efinn á svip, á mynd sem
fylgdi "kjaftæðisgreininni"..."nei hann er ekkert líkur Jesú þessi"!
"Jæja, það er þá jafn gott, því þeir kirkjunnar menn halda því fram að
Jesú eigi eftir að koma aftur" sú aldraða ákveðin, " og þá er eins gott að
vera ekki með eitthvert kjaftæði við hann, blessaðan".
Öldungur gjóaði augum á öldruðu augum, og dæsti:
"Verð að ná í gleraugun mín, svo við fáum einhvern botn í þetta "kjaftæði".
"Nei, blessaður vertu, slepptu því, góði. Þetta er áreiðanlega eitthvert
krepputal eða spillingarrugl á neikvæðu nótunum. Fjaðrafok og endaleysa".
Og gamla skellti í sig síðasta kaffisopanum úr bollanum: "Nennum ekki að
hlusta meir á slíkt...komdu við skulum fara upp í BINGÓ".
Og upp fóru þau í BINGÓ og þar var sko bara spjall og gleði, ekkert kjaftæði.
Húsfreyju var skemmt yfir samskiptum þessum, og sneri sér að frú einni
sem fær 4 tegundir af augndropum tvisvar á dag.
Sú neitaði BINGÓferð alfarið "þú veist vel góða sem hefur það sem
"atvinnugrein" alla daga að setja dropa í augun mín, að ég sé
ekki neitt á BINGÓspjöld og þess háttar lengur. En veistu hvort
Herjólfur komst í "Sandeyjarhöfn" í dag" og kerla glotti kalt.
"Nehei", húsfreyja hló, " það veit ég ekki, en ætli það verði ekki stíf austanátt fram á mitt
næsta sumar, og þá komist loks Herjólfur nokkrar ferðir í Landeyjahöfn um
þjóðhátíð hjá þeim í Eyjum"!
Það krymti í kerlu: "Það væri þá vel, ef hægt væri að nota höfnina sem
þjóðhátíðarhöfn næstu árin".
Síðan hlógu þær báðar
Það er enginn bölmóður í elskulegum öldungum húsfreyju, þrátt fyrir
fregnir af kjaftæði, fjaðrafoki, tunnubarningi, spillingu og jafnvel
endurkomu frelsarans.
Reynslan og lífið hefur kennt þeim að æðruleysi og þrautseigja
reynist best, þegar kreppir að.
Öllu mætt með heimspekilegri ró.
Sólin kemur aftur upp á morgun.
Nýr dagur rís, með nýjar áskoranir, nýjar lausnir og ný átök.
Ekkert varir að eilífu, hvorki góðæri né kreppa.
Jafnvægið er best, segja öldungar húsfreyju, sveiflur
skapa óróa og spennu.
Húsfreyju líður vel innan um öldunga sína.
Þar er ekki stressið eða djöfulgangurinn.
Allt á sér sinn tíma.
Allir eru sáttir við Guð og menn.
Lífið er ljúft ...og svo vinnurðu í BINGÓ!
Góðar stundir á köldum nóvemberdegi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)