25.12.2009 | 15:46
Aðfangdagur-jólasaga?
Það var niðamyrkur.
Kalt.
Læðan reikaði sármóðguð
um íbúðina.
Skellti klónum niður í parkettið í stofuni
svo small í.
Ekkert gerðist.
Ekkert lát varð á svefnhljóðum þeirra "tvífættu hárlausu"
á svefnsófanum í stofunni.
Allir sváfu vært.
Læðan dæsti mæðulega.
Rölti inn í svefnherbergið.
Stökk upp í gluggakistu.
Tvífætta, hárlausa "þjónustan" hennar bærði ekki á sér.
"Asskotans leti alltaf í kerlu", læða mjavraði pirruð og hnusaði
af dótaríinu sem alltaf var búið að troða í skó af "tvífætta, hárlausa
leikfélaga" hennar þessa síðustu nætur.
Sperrti eyrun, pírði skörpum kattaraugum út í náttmyrkrið.
Kolsvartur hrafn sveif tignarlega yfir hamraborginni í
tunglsljósinu.
Læðan veifaði skottinu veiðilega.
"En hvað var nú þetta" hljóð barst frá hjónarúminu.
Læðan stökk niður á gólf, settist á óæðri endann og beið.
Húsfreyju var að dreyma.
Mjög MERKILEGAN draum, með góðum draumanöfnum, táknmyndum
og alles.
Var að reyna að festa sér í minni alla atburðarás draumsins,
svo ekkert gleymdist.
PIKK, PIKK!
"Verð að muna eftir þessu...." húsfreyja í svefnrofum.
PIKK, PIKK!
"Nei, á ekki að vakna strax, klukkan er ekki búin að hringja,
þarf að muna drauminn...."
PIKK, PIKK.
"Mamma"!
Röddin hvíslandi en ákveðin.
Húsfreyja reyndi í örvæntingu að festa í minni sitt
hratt hverfandi þræði draumsins...
"MAMMA"!.... hátt og snjallt.
"Hvenær átt þú eiginlega að fara í vinnu"?
Og svo örlítið ásakandi: "Ég er búin að vera vakandi HEILLENGI".
Húsfreyja var vöknuð.
Draumurinn merkilegi horfinn inn í "draumgleymskubrunn eilífðarinnar".
Hún kveikti smá týru á lampa sínum.
Átta ára djásnið sat í rúminu og horfði hvasst á hana.
Læðan sat á gólfinu fyrir neðan rúmið og horfði hvasst á hana.
Húsfreyja gjóaði augum á vekjaraklukku sína.
"Já, en ég á ekki að vakna fyrr en eftir 5 mínútur".
"Jólasveinninn er búinn að koma" átta ára djásninu
slétt sama þó móðirinn hafi vaknað heilum 5 mínútum
fyrr en venjulega á Aðfangadagsmorgun.
Djásnið stökk út að glugganum og fór að bjástra við
jólasveinaskógjöf.
Læðan skellti framfótum upp á rúmskörina..."mjaaaaavvvrrr"!
Húsfreyja stundi pirruð yfir týndum "góðdraumi" sínum og
5 mínúta svefntapi, sveiflaði sér fram úr og klæddi sig.
Djásnið alsæl með dótarí frá sveinka elti hana fram.
Læðan alsæl með að "tvífætta, hárlausa þjónustan" hennar væri
loks komin á lappir, elti hana fram.
"Mamma, JÓLIN eru í dag". Björt eins og júnísól í heiði, djásnið.
Múttan muldraði eitthvað...."jmm..þðrrrétt".
Læðan nuggaði sér utan í fætur húsfreyju,
húsfreyja nærri dottinn.
Húsfreyja leit framan í eftirvæntingafull andlit
djásnsins og læðunnar.
Brosti.
"Já og góðan dag elskurnar mínar", húsfreyja hló.
"Það er svo sannarlega Aðfangadagur Jóla í dag"!
Græjaði djásnið með morgunmat og sjónvarp.
"Sssss ekki vekja afa og ömmu í svefnsófanum".
Læðuna með hreint vatn og mat í dallinn.
Kvaddi og skellti sér út í bíl í vetrarfrostinu og myrkrinu.
Krummi ýfði á sér fjaðrirnar hreykinn upp á ljósastaur.
Húsfreyja glotti..."krummatetur, krummagrey" sendi hún
honum jólakveðju í huganum.
Ætlaði að aka af stað til vinnu, þegar nágrannakonan
veifaði henni í ofboði.
Á leið til starfa líkt og húsfreyja, en hennar bifreið illa
"farlama" með sprungið dekk.
Húsfreyja reddaði nágrannakonu í vinnuna, þrátt
fyrir að tíminn væri að hlaupa frá húsfreyju.
Mætti á heimili öldunga heilli mínútu fyrir klukkan átta.
Það var spenna í loftinu, og fleiri en átta ára djásnið
og læða höfðu vaknað snemma á Aðfangadag.
Það loguðu 3 bjöllur, og allir vildu komast á fætur sem fyrst.
Tveir starfsmenn veikir.
SJITT.
Húsfreyja svitnaði.
Hvern fengi hún til að koma á aukavakt á Aðfangadagsmorgun?
En.....HALLELÚJA!
Ein yndisleg kona frá Litháen hafði skrifað sig í "Extravaktabókina"
og mætti galvösk.
Húsfreyja skipulagði morgunverkin.
Hverjir gætu farið strax í jólaföt og hverja væri betra að bíða
með að færa í jólafötin fram yfir hádegi.
Skráði brottfaratíma sinna öldunga með ættingjum heim,
gaf lyf, augndropa og skipti á sárum.
Græjaði mat um slöngu og gaf einum öldungi,
sem ekkert má borða né drekka.
Knúsaði og kyssti sína öldunga alla og óskaði Gleðilegra Jóla.
Ræddi við heilan haug af ættingjum, útdeildi jólakortum
og eftir hádegi fór húsfreyja í borðsalinn.
Dró þar til borð til og frá, raðaði upp og dekkaði
með jóladúkum, kertum skreytingum og leirtaui.
Starfsfólkið var á þönum með Húsfreyju.
En allir glaðir, þótt mikið væri að gera.
Og heim komst húsfreyju um fjögurleytið.
Beint í jólabaðið, í jóladressið og svo til kirkju.
Ljúf og jólaleg stund í Grafarvogskirkju, þó við lægi að
húsfreyju rynni í brjóst.....vantaði jú heilar 5 mínútur í
nætursvefninn.
Barnakórinn var yndislegur og Egill Óla tók "Helga Nótt" með
stæl, eins og hans var von og vísa.
Átta ára djásnið var þreytuleg í kirkjunni, en ekki að sjá
neinn þreytuvott á henni þegar heim kom.
Bóndi og tengdó höfðu eldað eðal hamborgarahrygg,
og tengdamútta bauð upp á heimaeldað laufabrauð.
NAMM.
Læðan fékk sinn pakka fyrst.
Eitthvað æglegt dótarí sem ilmaði af "KATNIP" og skrjáfaði
svo skemmtilega.
Læðan tapaði sér alveg, og djásnið hló svo mikið að
hún gleymdi næstum restinni af pakkahrúgunni.
En almenn pakkaopnun hófst að lokum, og djásnið
ljómaði bjartar en allar jólastjörnur himins til saman.
Fékk dúkkuhús, fín föt, 4 bækur, styttur, Pet shop-dót, DVD með
Sveppa og Villa..."bara allt sem mig langaði í, mamma"!
Og svo: "Þetta voru góð jól, mamma"!
Liggur nú í sjónvarpssófanum og les "Prinsessuna á Bessastöðum"
eftir Gerði Kristnýju.
Fullorðna fólkið er einnig dottið í jólabækurnar.
Húsfreyja er sæl með sín jól, og er alveg búin að jafna sig
eftir að hafa tapað 5 mín. af nætursvefni síðust nótt.
Fékk margar fallegar jólagjafir......
Er bara eitt.....
Mikið rosalega langar húsfreyju að vita hvað hana var að
"dreyma" aðfaranótt Aðfangadags....!
GLEÐILEG JÓL og eigið ljúfar jólastundir.
Jólasveinninn í önnum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.