1.8.2009 | 21:20
Ævintýri í blíðviðri!
Og hún sveik ekki heldur
blíðan, á Suðurlandi í dag.
Húsfreyja brenndi austur fyrir fjall,
með átta ára djásnið eftir hádegi.
Bílaumferð að vísu fremur letileg og hæg,
en gekk eigi að síður vel fyrir sig.
Í Þorlákshöfn var náð í nokkra farþega,
Svöluna og Vigrann.
Sigginn, Aron, Bæron
og Alex fóru með systur í bíl.
Haldið var sem leið lá á Stokkseyri,
þar sem haldin var mikil fjölskylduhátíð.
Systir lagði í Draugasetrið með Svöluna,
Siggann, Aron, Bæron og Alex.
Bæron (7 ára) komst 10 skref inn, snéri við út aftur.
Sigginn (9 ára) náði inn í fyrsta herbergið....
tilkynnti móður sinni að hann ætlaði
"bara að vera skræfa" og snéri við.
Alex flæktist út og inn með Bæron og Sigganum.
Systir hélt áfram með Svöluna og Aron, og þau
lentu í fyrstu "draugaárásinni"....AAAAArrrrrrgh!!
Svalan (10 ára) orgaði á háa séinu, Aron (9 ára) ríghélt í systur...
..."mamma...mamma....mamma...mamma..." voru
einu vitrænu orðin sem hann lét frá sér í síbylju það sem
eftir var af ferðinni í gegnum hýbýli drauganna.
Systir var næstum því snúin við með "hetjurnar tvær",
en þau þverneituðu að vera "skræfur" og áfram hélt systir.
Missti sjónar af Alex.
Í gegnum hryllinginn komust þau þrjú, Alex-laus.
Fundu Siggann og Bæron en engan Alex.
Fór um Systur kaldur hrollur!
Var Alex brottnuminn af mergjuðum draugum?
Eða...."fyrirgefðu, er hann með þér þessi"?
Vinaleg frú mætt með Alex (4 ára) í eftirdragi.
Hafði veltst fram og tilbaka í fyrstu herbergjum draugabælisins,
snáðinn.
Á meðan þessu stóð hafði húsfreyja haldið
í göngutúr með Báruna (8 ára) og Vigrann (6ára) vestur
að Veiðidýrasafninu.
Þau þrætt þar tvo sali með alls konar dýrum
og fuglum, byssum og styttum.
Fallegt safn, en sorglegt í leið, þar sem öll
dýrin "voru dáin, mamma", átta ára djásnið
dýrkar "lifandi dýr".
Svo hittust þær systur aftur í "Álfa- og tröllasafninu"!
Þar niðamyrkur.
Systir varð að halda á Bæron fyrri skoðunarferðina
þar í gegn.
Báran ríghélt í húsfreyju.
Angurvær en taugatrekkjandi söngur ómaði í myrkrinu.
Djásnið herti takið á móður sinni.
Álfar birtust skyndilega sitjandi í stofu, inni í steini...
hurfu.
Ekki svo slæmt.
Tröllahellir næst.
Þar svaf Trölli vært, og hraut mikinn.
Það fór að fara um átta ára djásnið.
"Það stendur hérna að þessi þurs hafi sofið
í 500 ár, og muni vakna í dag eða á morgun" systir
glottaraleg og í stríðniham.
Húsfreyja tók undir..."oooo...vonandi ekki í dag"!
Djásnið reif í handlegg móður sinnar.
"Við SKULUM koma ÚT, mamma...NÚNA"!
Húsfreyja eitthvað stöð, og djásnið varð að draga
hana af krafti út úr tröllahelli.
Klakahellirinn svolítið skárri, en samt aðeins staldrað
stutt við, hlaupið í gegnum kvikmyndahelli og út.
Tombóla tekin fyrir næst...engin núll.
Hlóðust alls konar handverk og listaverk að systrum
og börnum þeirra.
Töfragarðurinn næst, þegar liðið var búið að
jafan sig eftir myrkur, drauga og tröll að vakna.
Trampolín, frostpinni, príl og fjör.
Síðan haldið af stað heim á leið.
Komið við á ströndinni við Ölfusárósinn, nesti snætt.
Peyjarnir ákváðu að rétt væri að "skola af sér"
drauga- og tröllaskítinn, á meðan Svalan og Báran
reistu sandkastala og fóru í eltingaleik við öldurnar.
Mikði stuð, húsfreyja myndaði skart.
Haugblautum peyjum pakkað í flísteppi og plastundirbreiðslu
og haldið til Þorlákshafnar.
Þar hurfu 30 ömmu-Stínu-pönnslur ofan í litla liðið á
15 mínútum, þrátt fyrir nýlegt nestisstopp.
Sumum var reyndar svo kalt eftir "sjóbaðið" að
þeir urðu að fara í heitt bað áður en hægt var að
skella sér út á trampolín.
Átta ára djásnið ræddi tröll og drauga alla leiðina
yfir Þrengslin til Reykjavíkur um kvöldmatarleytið.
Vill æst komast í "Draugasetrið"...ég þori sko núna,
mamma, þegar ég veit hvernig hinum fannst það...en
þú verður ALLTAF að vera HÆGRA megin við mig...þeir
ráðast alltaf á fólkið sem er hægra megin segir Svala"!
"Je...ræt"..hugsaði húsfreyja.
Minnug þess er hún fékk nærri slag af hræðslu,
þá hún fyrst vísiteraði Draugasetrið í óvissuferð.
"En mamma, þetta er skemmtilegasti dagur sem við
Svala höfum LIFAÐ, og samt vorum við báðar grenjandi hræddar"!
"Ó, já" svaraði húsfreyja, "það er oft gaman að verða svolítið
hræddur, en geta svo hlegið að því eftir á".
Og átta ára djásnið brosti sælubrosi og dæsti af
ánægju um leið og húsfreyja stöðvaði bifreiðina
fyrir framan bílskúr heimilisins.
Ævintýralegur og myljandi góður dagur.
Góðar stundir.
Blíða í Eyjum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.