28.2.2009 | 11:58
Dásemd!
Bókaormurinn í húsfreyju
tók flikk flakk með þrefaldri
skrúfu af gleði, þá hún barði
fregn þessa augum, nýrisin
úr rekkju.
Man húsfreyja þá tíma, að reyna átti
að stilla hana inn á "venjulegan"
svefntíma þá hún var ung að aldri.
Voru ljósin í barnaherberginu slökkt,
og fylgst grannt með að ekki læddist
húsfreyja í að kveikja aftur.
Tróð hún sér þá 7-12 ára skotta, út
í glugga og las í björtu tunglsljósinu.....
Enid Blyton...Astrid Lindgren....allt sem
hún komst í eftir þá höfunda lesið.
Aðeins seinna "Gulleyjuna", "Moby Dick" og
"Fleming og Kvikk".
Haraldur bókavörður á safninu í Eyjum
var farinn að hjálpa lestrarhesti þessum,
við að finna "ólesnar" barnabækur, þá hann hafði tíma.
Mátti taka 4-10 bækur í einu að láni í safninu, eftir foreldraboði,
svo heimalærdómurinn yrði ekki útundan í
öllum skemmtilestrinum.
Tók ALLTAF 10 bækur að láni!
Var alæta á barnabókmenntir, ekkert hægt að
merkja þær fyrir henni "eingöngu fyrir stráka",
eða eingöngu fyrir stelpur.
Hafði Haraldur gaman að, að yfirheyra skottu
smávegis um innihald bókanna, því svo hratt
las hún, að hún náði iðulega að klára 10 bækur á
innan við viku.....enda lesið við tunglsljós.
Hélt hann að hún hefði "svindlað", og sleppt því
að lesa eins og 3-4 bækur.
En alltaf hafði hún svör á reiðum höndum, og ALLAR
hafði hún lesið.
Síðan kom vorið, og ferðir skottunnar urðu strjálli
á bókasafnið, og að lokum sást hún ekki lengur innan
um virðulegar bókahillurnar á bókasafni Vestmannaeyja.
Var horfin á vit eigin sumarævintýra á eyjunni fögru, í útileiki,
fjör og söng.
En þá haustaði aftur og tók að dimma,
mætti aftur smávaxin, logarauðhærð
skotta í dyrnar á bókasafninu hjá Haraldri, brosti
feimnislega, og spurði eftir nýjum barnabókum!
Og Haraldur bókavörður leit yfir gleraugun sín, glotti
vinalega og sagði að jú kannski að hann hefði fengið eins og
3 nýjar barnabækur yfir sumarið.
Og hló svo upphátt sá góði bókavörður, þá hann sá
vonbrigði skottunnar....BARA þrjár!
En oft lumaði sá góði Haraldur á gömlum
góðum barnabókum, sem skottan hafði ekki
enn náð að lesa...og svo mátti nú bara lesa
AFTUR skemmtilegustu bækurnar....og AFTUR!
Það er næsta víst að húsfreyja mun EKKI
láta bókamarkað Perlunnar fram hjá sér fara.
Er reyndar með mikið leiktríó á sínum snærum
þessa helgina. Svalan mætt og Elínóra besta
vinkona líka.
Bíóferð í spilunum...enn ein hundamyndin....DÆS!
Verst ef húsfreyja fer algjörlega "í hundana", áður en henni
tekst að næla sér góðri bók ú Perlunni.
Gera "bíóliðskönnun" næst.
Góðar stundir.
Þúsundir bóka í Perlunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.