14.10.2008 | 17:42
Mjavrrskotinn!....
...."í grængoluðu kattarhelvíti", mjálmaði
læða húsfreyju, um leið og hún velti sér
á hrygginn og nuddaði óæðri endanum í gólfið.
Hvessti svo ásakandi grænum glyrnum á
húsfreyju..."MJAAVRRRR"!
"Fyrirgefðu fröken Branda", húsfreyja var
í öngum sínum..."FYRIRGEFÐU"!
Læða húsfreyju er búin að vera í mergjuðum
ham síðan í gær, og kvartar grimmt og stöðugt.
Svo illa hefur nefnilega lukkast til, á síðustu og
verstu tímum hér á heimili húsfreyju, að "pilla"
kattarrófu hefur alveg gleymst...mjavvvrrrr.
Fyrst húsfreyja með heiladoða á meðal háu stigi
vegna vanvirks skjaldkirtils, og síðan búin að kreista
niður eina 3-4 nýrnasteina, með tilheyrandi
neyðarlögnum á spítala, bráðarannsóknum og
verkjalyfjadópi beint í æð.
Síðustu 3-4 vikur verið "þoka", lágskýjað, þrumur og eldingar
með stöku bjartviðri inn á milli, í heilabúi húsfreyju.
Kattarpilluminningar virðast allar hafa lent á
"þurru eyðurmerkursvæði" í heilabúi húsfreyju, þangað sem
annars er ekkert að sækja, nema einstaka hugsun
um að þurrka af og strauja.
Það svæði í höfði húsfreyju hefur reyndar aðeins
reynst virkt rétt fyrir jól og páska.
Og nú er sem sagt kisa arfaill, og "breimandi", með
óþolandi kláða í óæðri endanum, og "mjaarrrvar"
æst á húsfreyju.
Bóndi húsfreyju skellti pillu í læðu í gær, en það tekur
a.m.k. sólarhring að virka, pilludótið.....svo kisa er
þreifandi, bál-, öskuvond, pirruð og ómöguleg.
Dundaði sér við það alla síðustu nótt að henda
smálegu dóti niður á gólf frammi í stofu, kisa,
svona til að láta vita að svona vitleysisgangur,
hrikaleg vanræksla og vítavert kæruleysi yrði
ekki þolað í framtíð....og hefndaraðgerðir myndu
stigmagnast af hennar hálfu, tæki húsfreyja ekki
við sér og lagaði málin.......mjaaaavvrrrr og hana
nú!
Húsfreyja er búin að týna upp smádótið og lofa
bót og betrun, og biðjast margfaldlega afsökunar.
Kisa er með málið inni á borði hjá sér, og tekur það
fyrir í kvöld hvort hún fyrirgefur húsfreyju.
Niðurstöðu að vænta með morgninum.....mjavvrrrr!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.