27.3.2008 | 18:51
Alþjóðlega martröðin, Heathrow.
Vorum á fínum tíma, komnar út á Heathrow, ég og mútta. Höfðu lagt snemma af stað frá St. Giles, hótelinu okkar, og höfðum tæpa 4 tíma fram að brottför. Gátum dúllað okkur við að tékka okkur inn, og svo slappað af í fríhöfninni yfir öllara og samloku.....eða það héldum við. Var bara smá hængur á. Við vorum 4 saman í ferðinni, og hinar tvær, systir í Þorlákshöfn og Sóley í öðrum leigubíl, sem hafði farið af stað frá hótelinu á "sama tíma". Við biðum rólegar í andyrinu við "Icelandairborðið", ég og mútta. Þær höfðu jú, drjúgan tíma til að koma sér á svæðið, 3 klukkutíma og 50 mínútur. Okkur hafði gengið vel að komast, mér og múttu þrátt fyrir traffík, svo við vorum hinar bjartsýnustu og pollrólegustu. Ætluðum að tékka okkur inn allar saman, því systir hafði verslað slatta af stórum og þungum hlutum. Átti jú litla skvísu heima, og regnhlífakerra hafði verið keypt og fleira nytsamlegt, svo nú átti að dreifa þyngdinni á 4 staði við vigtun. Gott mál.
Og tíminn leið.
Og tíminn leið.
Húsfreyja horfði á hárin "grána" á höfði móður sinnar, handanúninginn æsast og báðar æddu þær mæðgur um gólf. Frá borði fram að dyrum, aftur að borði og fram að dyrum. Spurðum flugvallarstarfsmann hvort Icelandair væri með tékk einhvers staðar annars staðar. NEI!
Og tíminn leið.
Og tíminn leið.
Húsfreyja spurði móður sína að því, hvort hún væri ekki búin að taka inn "blóðþrýstingslyfin" sín Jú, hún hafði munað eftir þeim um morguninn. Húsfreyja dæsti og varpaði öndinni léttar...í 4 sekúndur. Hvar voru stelpugoparnir, eiginlega?? Þær báðar rúmlega tvítugar, og áttu að geta bjargað sér á skikkanlegum tíma frá London út á Heathrow. Húsfreyja búin að nöldra og tuða í þeim um mikilvægi þess, að vera ákveðnar og tala skýrt við leigubílstjóra hins breska heimsveldis. Og neita að borga þeim "tips" ef þeir virtust ætla að aka í hringi og tóma endaleysu.
Og tíminn leið.
Og tíminn leið.
Gott ef ekki gránuðu 3 hár við gagnaugu húsfreyju, sem þó var ekki nema rétt um þrítugt í ferð þessari. Og hún var orðin kaldsveitt í lófum, og farin að pæla alvarlega í að biðja múttu sína um einn skammt af blóðþrýstingspillunum. Mútta var lögst á bæn, sem hefði getað verið mjög neyðarlegt, ef þær mæðgur hefðu verið islamatrúar.
Og tíminn leið.
Réttum 35 mínútum fyrir brottför mættu skvísurnar. Leigubílstjórafíflið, hafði rokið beint niður á Piccadilly með þær, og þar sátu þær fastar í umferð í rúma 2 tíma. "Ekki borguðu þið penní í tipps"? hvæsti húsfreyja bálvond. " Afhverju fóruð þið ekki út og gengu aftur upp að hóteli, og náðuð í annan leigubíl", húsfreyja var á leið út að berja bílstjórann, þegar kallað var í síðasta sinn í flug Icelandair til Keflavíkur.
Nú urðum við að hlaupa með andsk... farangurinn "allan", í gegnum allt tékkið, tollinn og að "gate 48". Húsfreyja "orgaði" á tollarann, sem heimtaði að skoða hverja einustu flík í ferðatösku hennar, og óhreina þvottinn hennar líka. Tollarinn hvæsti á móti að við hefðum betur mætt "fyrr" á flugstöðina! Húsfreyja tapaði sér alveg, og stakk upp á því að helv... breski leigubílstjórinn sem hefði þurft "rúma 3 klukkutíma" að komast frá St. Giles upp á Heathtrow, útskýrði málin fyrir tollurunum. Aðeins sljákkaði í tollaranum, svo hann rétt gjóaði augum yfir dótatösku múttu og fatnað, og áfram hlupum við, endalausa ekkisens, ekkisens ganga. Kílómeter eftir kílómeter!
Mútta var við það að fá slag við "gate 48". Töskunum hent inn í vél á síðustu stundu, og við inn á eftir. Voru nánast alla fjórar með óráði og í öngviti eftir hlaupin. Botnuðum ekki neitt í neinu. Vorum með "fótarými" upp á 2 metra, og frægir breskir hljómsveitarmeðlimir voru að slangra í kringum okkur og að drekka vodka. Húsfreyju sortnaði fyrir augum. Fjandinn í sótsvartasta... við hlutum að hafa verið settar upp í kolvitlausa flugvél. Hún veifaði í hasti í flugfreyju. Hallelúja, sú talaði íslensku. Vorum að minnsta kosti í íslensku flugi.
Sei sei nei, vorum í réttri vél, "urðum" bara að sætta okkur við að sitja í SAGA-class, því allt annað hafði verið fullsetið. Við drukkum kampavín, og snæddum kavíar og spjölluðum við frægu bretana á leiðinni heim. Sóley rankaði meira segja svo vel við sér, að hún bað þá um eiginhandaráritun.
Mútta hefur aldrei getað litið Heathrow réttum augum, eftir þennan hasarinn. Og húsfreyja fer aldrei upp í leigubíl í London, nema með götukort af borginni í höndunum, og gáir reglulega í það haukfránum augum við og við, á meðan bílferð stendur. Hefur ætíð farið "styttstu" og beinustu leiðirnar um hinar fallegu götur Londonarborgar síðan í leigubíl. Gott að bílstjórarnir vita ekki, að húsfreyja hefur fyrir löngu "glatað" Londonarkortinu, á aðeins kápuna utan af því. Er með gamalt götukort af Köben inn í kápunni..........
Alger ringlulreið á Heathrow | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.