1.11.2007 | 11:44
Kynþáttafordómar.
Var forfallin bókasjúklingur sem barn, og fékk frá 10 ára aldri að skondra ein á bókasafnið í Eyjum og taka 5-10 bækur í einu í útlán. Aðeins einu sinni man ég eftir, að mamma varð eitthvað súr á svip er ég kom heim með fangið fullt af bókum. "Tíu litlir negrastrákar" hét bókin sú, sem súrleika mömmu olli. Tók hún hana og sagði að þetta væru slæmar bókmenntir. Opnaði hana á einum stað, þar sem við blasti mynd af litlum kolsvörtum strák að deyja, eftir að naut hafði stungið hann á hol. Fannst mér myndin ógeðsleg, og leyfði fúslega að bókinni yrði skilað, án þess að ég læsi hana. Og hafði eftir þetta allan varann á er ég hljóp um túnið hans Tobba á Kirkjubæ, þar sem kýrnar hans voru á beit á sumrin. Aldrei að vita nema að það leyndist eins og einn "morðóður tuddi" í kúahópnum. Hef síðan fylgst svolítið með umræðunni á bloggheimum um nýútgáfuna á bók þessari. Las svo í gær brilliant grein í "Fréttablaðinu" eftir hann Gauta B. Eggertsson, og mér finnst hann segja þar allt sem þarf. Hvet alla til að lesa grein þessa. "Einn lítil negrastrákur" er heiti hennar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.