Bakarofninn í Sahara!

  Var eitt sinn á ferð í Sahara-eyðimörkinni.  Hitinn var 54 gráður á celsíus utan rútu, og 52 gráður inni í rútunniW00t .  Þykir mér ætíð merkilegt að hafa lifað ferð þessa af.  Rútan var árg. 1957, "loftkæling" óþekkt orð í orðaforða bílstjórans og komst eigi hraðar en 45 kílómetra á klukkustund.  Vegirnir um eyðimerkursandana voru óljósir og lítt greinanlegir slóðar, sem virtust aðallega fara eftir minni, hugboðum og skapi bílstjórans góða.  Á einum stað stöðvaði svo okkar ágæti rútubílstjóri rútuna, og benti okkur út!  Allir út, þægir sem lömb.  Breytingin frá 52 gráðum upp í 54, var ólýsanleg.  Það var meiriháttar mál að draga að sér andann, svo heitt var loftið.  Svitinn rann í stríðum straumum úr öllum svitaholum líkama okkar!  Stóðum við þó grafkyrr flest, og einbeittum okkur bara að því að anda.  Svo rótuðum við okkur öll sem eitt, 25 manna túristahópurinn frá Sousse, löturhægt, 10 skref bak við rútuna í skuggann.  Þar stóðum við rennvot af svita og önduðum....og önduðum, á meðan hinn undraverði bílstjóri vor, nánast handpumpaði lofti í vinstra framdekkið á rútuskriflinu, með agnarsmárri rafmagnspumpu.  Voru furðulegar 40 mínútur þarna úti í eyðimörkinni.  Allt titraði og dansaði fyrir augunum á okkur, svo mikill var hitinn.  Og hvergi lífsmark að sjá.  Helvíti á jörð, ef eyðimörkin hefði ekki búið yfir  undarlegri, gullinni fegurð!  Mistraðri og leyndardómsfullri.  Seinna við sólarlag, riðum við svo á úlföldum eftir sandöldunum út í eyðimörkina.  Hitinn orðinn þolanlega svalur, 41 gráða á celsíus.  Yfirþyrmandi upplifun, ægifögur og sterk.  Og þó svo að við fengjum ansi mörg salmonellasýkingu í meltingarfærinAngry , eftir eyðimerkurferðina, mun  okkur aldrei iðrast þess að hafa farið hana.  Veit samt ekki, hvort við hefðum lifað af 68 stiga hitann í Kringlunni........Cool .
mbl.is Lygamælir slær met
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband